Vetrarsport í björtum snjó

Veturinn er ekki bara tími skíða, skauta, vélsleða og annarra tækja er virka vel í snjó. Nördarnir eiga sína gósentíma á veturna og notfæra sér ýmist dagana þegar jörð er auð eða leika sér í snjónum. Hér má nefna nokkrar þeirra íþrótta sem nördar hafa gaman af.

Að safna fjöllum

Fjölmargir nördar út um allan heim safna fjöllum. Í sumum tilfellum gildir í þessu sporti magn er sannarlega betra en gæðin svo hvaða fjall (eða hóll) dugir. Sumir kjósa að ganga á fjall á viku, aðrir stökkva daglega af stað en svo eru auðvitað hinir vandlátu sem velja í fjallasafn sitt eingöngu þær mishæðir sem standa hærra en 600 m yfir sjávarmáli. Það er líka hægt að ganga eingöngu á þau fjöll sem bera nafnið Helgafell eða þau sem eru ein um sitt eiginnafn. Þótt undarlegt kunni að hljóma eru þau fá og því mjög vandfýsnir þeir sem þau kjósa.

Okkar vængjuðu vinir

Þegar snjór þekur jörðu fer að verða erfitt um bjargir fyrir fugla en margir fuglaáhugamenn taka þá að setja saman korn og annað sælgæti handa sínum vængjuðu vinum. Hjá sumum er ekki talið óhætt að hringja inn jólin fyrr fuglunum hefur verið búin góð máltíð úti í garði. Seinni hluti vetrarins er draumatíma fuglaskoðarans. Í febrúar og mars fyllast tjarnir, skógar, tún og strendur af farfuglum bæði þeim sem hér dvelja sumarlangt og hinum sem hafa aðeins stutta viðkomu áður en þeir halda áfram á varpstöðvarnar. Þá taka ótal konur og menn fram úr pússi sínu sjónauka, myndavélar með aðdráttarlinsu og scope og arka af stað vopnaðir græjum sínum og bók til að skrá í þá fiðruðu vini sem þeir ná að berja augum. Það er ekkert auðvelt að húka einhvers staðar í kulda og trekki með krókloppna fingur og bíða eftir tiltekinn fugl læðist inn í sjónsviðið. Auk þess þurfa margir helst að ná mynd af þessu misstygga fiðurfé en í hugum sumra verður biðin þess virði geti þeir bætt einum fugli í bókina sína.

Skíðasleðaferðir með hitabrúsa

Skíðasleðar voru ágæt samgöngutæki hér áður fyrr en með tilkomu léttra plastsleða og snjóþotunnar hurfu þeir af sjónarsviðinu þ.e. að mestu. Nokkrir nördar héldu áfram að strjúka af skíðasleðanum í kjallaranum og bera feiti á skíðin. Undarlegt nokk þá komust sleðarnir í tísku um tíma fyrir nokkrum árum og brunuðu þá bæði nördar og aðrir um borg og bí með farþega á skíðasleðum. Þessi tíska var fljót að hverfa aftur í ginnungagap geymslunnar en af og til má enn sjá nokkrar lopapeysuklædda nörda á ferð um Heiðmörkina með uppáhaldsfarþegann á sleðanum, kakó á hitabrúsa í bakpokanum og ostasamlokur.

Í leit að hinu fullkomna „skoti“

Þegar vetra tekur kætast áhugaljósmyndarar, enda er frosin veröld vinsælt og fallegt myndefni. Þeir líta líka til himins og leita leiða til að fanga dans Norðurljósanna á mynd og leggja á sig bæði ferðalög og langar göngur í þeim tilgangi að ná hinu fullkomna „skoti“. Þegar svo heppilega vildi að jörð brast á Reykjanesi og þar tók að gjósa gáfust sjaldgæf og áhugaverð tækifæri til að ná frábærum myndum og þessi tæknivæddi hópur nýtti sér það sannarlega í sínu vetrarsporti.

Vetrarsport í sófanum heima

Við skulum ekki gleyma að flestir tengja hreyfingarleysi og lítinn áhuga á íþróttum við nörda og vissulega eru þeir til sem elska að sitja í sófanum heima og horfa á aðra stunda sitt vetrarsport. Skíðabrun, skautahlaup og listdans á skautum er sjaldgæft sjónvarpsefni hér á landi nema þau ár sem vetrarólympíuleikar fara fram en það verður einmitt í byrjun næsta árs á Ítalíu og þá gefst þessum hópi nörda gott tækifæri til að stunda sitt sport.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.