Þær tilvitnanir sem oftast eru eignaðar rangri manneskju

Nýlega gekk fjöllunum hærra á netinu mynd af Abraham Lincoln og þessi texti: „Vandinn við tilvitnanir á netinu er að þær eru iðulega rangar.“ Þessi viska eignuð Abraham Lincoln er auðvitað grín en kannski líka til marks um hve oft við leggjum frægðarmennum orð í munn en komumst svo að því við lauslega athugun að sennilega hafi þau aldrei sagt þetta. Þannig er það oft, við hendum einhverja setningu á lofti heyrum hana einhvern segja að tiltekin einstakling hafi viðhaft þessa hnyttni og hugsum málið ekki lengra. Hér er listi yfir nokkrar tilvitnanir sem mjög oft eru lagðar í munn einhvers þekkts manns en eru raunverulega frá öðrum komnar.

William Congreve

Sú setning sem oftast af öllum er eignuð röngum höfundi er: „Hell hath no fury like a woman scorned“. Þessi setning er iðulega sögð skrifuð af Shakespeare í einu af hans verkum en sumir halda reyndar fram að hún eigi uppruna sinn í Biblíunni. Hvorugt er rétt. Þessi setning kemur fyrst fyrir í leikritinu, The Mourning Bride eftir William Congreve frá árinu 1697 og hljóðar svo: „Heav’n has no Rage, like Love to Hatred turn’d, Nor Hell a Fury, like a Woman scorn’d.“ William Congreve var samtíðamaður Williams Shakespeares og vinsæll leikritahöfundur á sinni tíð rétt eins og nafni hans. Verk hans hafa hins vegar ekki lifað alveg eins vel þótt þau séu velþekkt meðal fræðimanna og unnenda gamalla texta.

„Það fæðist auli á mínútu hverri“ – „There’s a sucker born every minute.“ Þessi gullvæga setning er kennd P.T. Barnum en hann var þekktur sirkusmaður í Bandaríkjunum og ekki allir alltaf heiðarlegir í sirkusheiminum þegar kom að því meðal annars að bjóða fólki að reyna sig í skotfimi og fá verðlaun. Þótt P.T. Barnum hafi verið snjall kaupsýslumaður er nokkuð víst að hann sagði þetta aldrei en hins vegar telja margir sig vita að Adam Forepaugh, minna þekktur frumkvöðull og athafnamaður, hafi látið sér þessi orð um munn fara.

Snorri Hjartarson

Vegur eða vegurinn

„Geðbilun felst í því að gera sama hlutinn aftur og aftur og búast við mismunandi niðurstöðu.“ eða „insanity is doing the same thing over and over again and expecting different results.“ Þessi tilvitnun er eignuð Albert Einstein en raunverulega er hún úr smiðju Ritu Mae Brown, bandarísks femínista og rithöfundar. Rita Mae er fædd árið 1944 og hefur skrifað margar bækur og greinar til stuðnings kvennabaráttunni.

Hér á Íslandi er sú setning sem flestir eigna röngum manni án efa: „Hver vegur að heiman er vegurinn heim.“ Stór hluti þjóðarinnar telur hana samda af Magnúsi Eiríkssyni en það er ekki rétt. Þessi setning kom fyrst fyrir í ljóðinu Ferð eftir Snorra Hjartarson og hljóðaði þá reyndar svo: „Hver vegur að heiman er vegur heim.“ Magnús fékk setninguna lánaða og sneri aðeins upp á hana með því að bæta við greini. Hann hefur verið mjög hreinskilinn með það í viðtölum að kvæði Snorra hafi verið honum innblástur í texta lagsins.

Önnur fræg setning sem ótalmargir virðast óvissir um hvaðan kemur er „Römm er sú taug er rekka dregur, föðurtúna til.“ Ef einhver Íslendingur er spurður svarar hann nánast alltaf að þessi setning sé úr Hávamálum en svo er ekki. Þetta kemur úr þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á kviðum Óvíðs.

Marilyn Monroe

Prúðar konur og meðlimaskrár klúbba

„Prúðar konur skapa sjaldnast söguna“ er haft eftir Marilyn Monroe en þótt hún hafi verið snjöll er mun líklegra að Laurel Thatcher Ulrich hafi látið sér þess orð um munn fara og til heimildir fyrir því. Laurel þessi er fædd árið 1938, virtur og þekktur sagnfræðingur í heimalandinu, Bandaríkjunum og hampaði meðal annars eitt sinn Pulitzer-verðlaunum fyrir fræðastörf sín.

„Ef þú ert ekki frjálslyndur um 25 ára aldurinn, ertu hjartalaus. Ef þú ert ekki íhaldssamur um það leyti sem þú verður 35 ertu heilalaus“ eða „If you’re not a liberal when you’re 25, you have no heart. If you’re not a conservative by the time you’re 35, you have no brain.“ Þessa snjöllu skoðun eigna menn gjarnan  Winston Churchill en þótt sá maður hafi verið orðheppinn og skjótur í tilsvörum var það Francois Guizot sem sagði þetta. Francois var franskur stjórnmálamaður og sagnfræðingur uppi talsvert á undan Winston eða á árunum 1787-1874.

„Að vinna er ekki allt, það eini kosturinn“ eða „winning isn’t everything, it’s the only thing.“ Þetta sagði Vince Lombardi þekktur bandarískur íþróttamaður. Hann lék amerískan fótbolta og þótt hann hafi vissulega sagt þetta þá hafði hann þetta eftir Red Sanders. Sá spilaði einnig amerískan fótbolta en í háskóladeildinni.

Groucho Marx

„Ég vil ekki tilheyra neinum klúbbi sem væri tilbúinn að veita mér viðtöku sem einum af meðlimum sínum“ eða „I don’t want to belong to any club that would accept me as one of its members,“ er nokkuð sem Groucho Marx færði í letur þegar hann sendi The Friars Club úrsögn sína. Setningin var hent á lofti og hefur síðan verið höfð eftir í margvíslegum myndum og ýmist kennd Groucho eða einhverjum þriggja af fjórum bræðrum hans. Ástæða þess að enginn nefnir Harpo þegar hann vitnar í þetta er að Harpo þagði alltaf og lék látbragðsleik.

Ótal fleiri frægar tilvitnanir mætti tína til að og skoða hversu vel fólk þekkir uppruna þeirra en hér er mál að linni. En það væri gaman næst þegar einhver þekkt og mikið notuð speki kemur upp í hugann að prófa að gúgla og sjá hvort maður hafi rétt fyrir sér um hvaðan hún kemur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.