Reglurnar hennar ömmu

Fæstir ætla að nota orð til að særa en gera það samt, oft af tómu hugsunarleysi. Afar og ömmur ættu að hafa þetta sérstaklega í huga.Teresa Kindred er pistlahöfundur á vef Huffington Post auk þess að vera amma nokkurra barna. Hún segir að afar og ömmur eigi aldrei að segja eftirfarandi við barnabörnin.

1.   Segðu aldrei neitt neikvætt um þyngd barnabarnsins og notaðu aldrei orðið feit/feitur. Það er foreldranna eða heilbrigðisstarfsmanna að ræða við börn um holdafar þeirra. Afar og ömmur geta á hinn bóginn stuðlað að heilbrigðara mataræði og hvatt börnin til að hreyfa sig. Ekkert annað.

2.   Segðu aldrei neitt neikvætt um útlit barnabarnsins og notaðu aldrei orðið ljótt. Ef barnið vill klæða sig í föt sem þér þykja ljót þá láttu kyrrt liggja. Barnabörnin eru jafn dýrmæt hvernig svo sem þau kjósa að klæða sig. Mundu að þú ert amma ekki tískulögga.

3.   Berðu barnabörnin aldrei saman við önnur börn svo að þau heyri. Notaðu aldrei orðið heimskur eða önnur slík orð. Aldrei að segja: „hann bróðir þinn er svo gáfaður, af hverju getur þú ekki staðið þig jafn vel í skólanum og hann.“ Gott sjálfsálit er mikilvægt og afar og ömmur eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að því að börnin öðlist heilbrigt og gott sjálfsálit. Að bera þau saman við aðra lætur börnum líða illa með sig sjálf.

4.   Aldrei að segja styggðaryrði um foreldra barnanna í þeirra áheyrn. Alveg sama hvað þér finnst um þau og þeirra gerðir eða að þér finnist þau hafa komið illa fram við þig. Barn ræður ekki við að greina og taka afstöðu til flókinna vandamála. Ljót orð um foreldra þeirra rugla þau í ríminu og láta þeim líða illa.

5.   Aldrei að segja aldrei í merkingunni barnabarnið mitt myndi aldrei gera þetta eða hitt. Aldrei að segja barni að það megi engum segja eitthvað. Börn eiga erfitt með að þegja yfir leyndarmálum og það er ekki réttlátt að ætlast til þess af þeim. Leyndarmál eru fyrir fullorðna og þeir eiga oft á tíðum erfitt með að þegja yfir þeim. Ekki leggja þær byrgðar á börn að segja þeim eitthvað sem þau mega ekki segja öðrum. Afar og ömmur ættu aldrei að segja eitthvað í reiðikasti. Þegar eitthvað hefur verið sagt verður það ekki tekið til baka. Rannsóknir sýna að noti fólk neikvæð orð við börn geti það haft varanleg áhrif á þau. Ef þú ert í vafa um að þú eigir að segja eitthvað -slepptu því þá. Orð eiga að vera góðar og fallegar gjafir en ekki vopn í baráttu þinni við barnabarnið.

Ritstjórn ágúst 21, 2018 07:47