Klara les Lifðu núna og ýtir við Felix

Sjónvarpsþættirnir um Felix og Klöru skemmta landsmönnum en þessar mundir. Þeir fjalla um eldri hjón á ákveðnum krossgötum í lífinu. Hann er fastur í viðjum vanans en hún enn full af löngunum til að reyna eitthvað nýtt. En þótt hér sé líf þessa fólks sýnt í kómísku ljósi er margt í þáttunum áhugavert frá sjónarmiði eldri borgara.

Nýtni, hirðusemi og ráðdeild voru dyggðir kynslóðarinnar sem ólst upp á kreppuárunum og hún innrætti sínum börnum sömu gildi. Felix kann þess vegna illa við að sjá flík liggja á víðavangi eins og hvert annað rusl. Hér um að ræða verðmæti og sjálfsagt að nýta þau. Sú kynslóð sem nú er að taka við á vinnumarkaði og ala upp sín börn er ábyrg fyrir að 184 tonn af textíl eru send í 13 gámum frá Íslandi í hverjum mánuði til endurvinnslu og förgunar úti í heimi. Hugmynd Felixar um að þvo úlpuna og endurnýta er því dauðans alvara þótt hvernig hann viðrar hana sé drepfyndið í meðförum Jóns Gnarr.

Húsið þeirra er stórt og Klara hefur ekki lengur orku til að þrífa það og að áeggjan barna þeirra hjóna ákveða þau að selja og flytja í íbúð í blokk fyrir eldri borgara. Felix er ekki ánægður. Hann lýsir nýja heimilinu sem „gettói fyrir gamalmenni“. Það er aldrei einfalt að selja heimili sitt og flytja í hentugra húsnæði þegar fólk er komið á virðulegan aldur og hverju á að henda og hvað að geyma getur vafist fyrir öllum. Felix er ekki einn um að vilja geyma þónokkra árganga af Tollverðinum þótt ekki sé neins staðar pláss fyrir slík menningarverðmæti á nýja heimilinu. Í því felst auðvitað ákveðinn söknuður eftir vinnunni, starfinu sem hann gengdi í áratugi. Það reynist fólki miserfitt að kveðja fagið sitt og sætta sig við að lífið á vinnumarkaði heldur áfram þótt það sé horfið á braut. Felix lýsir nýja heimilinu sem gettói fyrir gamalmenni en Klara sér það tækifæri til að lifa fjörugra félagslífi en áður. Að því leyti eru hjónin ólík en að stíga skrefið inn í tómstundastarf eldri borgara í sínu hverfi getur verið risaskref fyrir einn en hænuskref fyrir annan.

Fordómar og hvatvísi

Felix er fordómafullur og hvatvís. Hann afþakkar þrif á íbúð þeirra vegna þess að starfsmaðurinn er útlendingur. Hann ákveður fyrirfram að nágrannakonai hans sé ábyrgur fyrir að keyra niður stæðurnar af Tollverðinum á bílastæðinu án þess hafa fyrir því aðrar sannanir en hans eigin hugmyndir um hæfni hennar til að keyra. Hann skrifar því lögregluyfirvöldum og mælist til þess að konan verði svipt ökuréttindum. Þetta framtak hans sýnir auðvitað stjórnsemi og yfirgang gamla tollvarðarins en í þáttunum kemur fram að nágrannakonan er farin að missa sjón og viðbragðsflýtir hennar virðist töluvert skertur. Að halda ökurréttindum er mikilvægur hluti þess að geta verið virkur og notið alls konar tómstundastarfs. En hvenær kemur að því að fólk er ekki lengur hæft til að keyra? Manneskjur eru ekki alltaf bestu dómarar í eigin sök og þótt yngri ökumenn mættu vera þolinmóðari og tillitssamari í garð eldri ökumanna kemur að þeim tímapunkti að meta þarf ökuhæfni með tilliti til heilsufars einstaklingsins.

Felix telur sig allan að vilja gerðan að reynast Klöru sinni vel og þegar hún les grein á Lifðu núna um kynlíf á efri árum og nefnir að ýmsir í blokkinni lifi enn samlífi ákveður hann að fara til læknis og fá viagra. Hann getur hins vegar ekki rætt fyrirætlanir sínar við Klöru og því verður ekkert úr nánd á milli þeirra. Felix kennir lækninum um klúðrið en dettur ekki í hug að hann hefði átt að standa betur að málum sjálfur. Eftir breytingaskeið þynnist slímhúðin í leggöngum flestra kvenna og samfarir verða sársaukafullar jafnvel þótt notuð séu sleipiefni. Margir karlmenn glíma við stinningarvandamál á efri árum. Þetta leiðir til þess að fólk hefur sjaldnar samfarir og í sumum tilfellum deyr kynlíf parsins alveg út. Erlendar kannanir sýna að margir eiga erfitt með að ræða þessi mál sín á milli og kjósa að sætta sig við að þessi hluti lífsins fjari út. Það er hins vegar óþarfi og hvötin er til staðar því sömu kannanir sýna að fólk fróar sér áfram. Ef fólk talar sig saman er hægt að finna leiðir til að viðhalda líkamlegri nánd í sambandinu og auka þannig lífsgæði sín.

Sömuleiðis á Felix ákaflega erfitt með að treysta öðrum til almennt nokkurs hlutar án þess að leggja þar sjálfur gjörva hönd á. Hann vefur því snæri um mataráhöld og sjónvarpsfjarstýringuna svo Klara hafi betra grip á þeim og hann er frávita af áhyggjum af bílnum sínum þegar fullorðinn afastrákur fær hann lánaðan. Kannski könnumst við mörg við þetta. Að finnast okkar verklag hið eina rétta og kvíða því að afkomendum mistakist. Konur eru gjarnar á að gefa góð ráð þegar barnabörn og barnabarnabörn koma í heiminn. Þær hafa sínar hugmyndir um hvernig best er að meðhöndla ungbörn og karlar kunna lagið á parketlagningu, bílaþvottum og fleira og ekki alveg víst að þeim finnist unga kynslóðin ganga að verki af sömu natni og nákvæmni. Stundum er heppilegt að stíga skref til baka og leyfa fólki að gera mistök og leiðrétta þau. Það reynist Felix einnig erfiður biti að kyngja að frétta að þetta tiltekna barnabarn er samkynhneigt og hann veltir fyrir sér hvort þetta sé ekki einhver vitleysa, eitthvert skeið sem drengurinn gangi í gegnum og sé svo búið.

Einmanaleiki og einangrun

Í húsinu þar sem hjónin búa er eldað fyrir íbúa og Felix og Klara nýta sér það. Felix er ekki hrifinn af nýstárlegum réttum eins og hnetusteik og austurlenskum réttum. Hann ákveður því að taka slátur og tekur til við að svíða sviðahausa úti á svölum og við það berst reykjarbræla inn í allar íbúðir hússins. Klara virðist eitthvað slöpp og fylgist því ekkert með uppátækjum manns síns. Um kvöldið ætlar hún í notalega sturtu en mætir brostnu augnaráði íslenskra sauðkinda og dettur illa. Klara lærbrotnar og endar á spítala og þegar læknar fara að skoða ástand hennar er margt sem bendir til að hún drekki fullmikið áfengi. Henni er auðvitað vorkunn því flestir þyrftu eitthvað hjartastyrkjandi í sambúð við Felix. Hins vegar er áfengisneysla eldri borgara vaxandi vandamál og fólki á sjötugs- og áttræðisaldri sem leggst inn á Vog hefur fjölgað mikið. Nýgengi skorpulifrar og lifrarbólgu C hefur sömuleiðis aukist hér á landi en skorpulifur greinist yfirleitt fyrst á efri árum eftir langvarandi misnotkun áfengis.

Eftir því sem líður á þættina kemur æ betur í ljós einangrun og einmanaleiki Felixar. Á afmælisdaginn kemur enginn í kaffi, síminn þegir og heillaóskaskeyti berst ekki frá Barðstrendingafélaginu. Felix mætir upp á sjúkrahús til Klöru og lætur reiði sína í ljós. Hún svarar honum í fyrsta sinn fullum hálsi. Hann hefur ruglast á dögum og heima bíður hans afmælisgjöf frá henni, börnin líkleg til að mæta á réttum degi og hugsanlega láta brottfluttir Barðstrendingar frá sér heyra. Hastarleg og fljótfærnisleg viðbrögð Felixar eru einnig umhugsunarefni. Máltækið segir að svo ergist hver sem hann eldist og víst er það svo að kveikiþráðurinn styttist hjá mörgum og sumir fara inn í þriðja æviskeiðið bitrir og reiðir. Því miður bitnar það oft verst á nánasta fólkinu þeirra.

Enn eru eftir þrír þættir af þáttaröðinni um Felix og Klöru og tilhlökkunarefni að fá að njóta þessa frábæra efnis áfram. Þau Edda Björgvinsdóttir og Jón Gnarr eru stórkostleg í hlutverkum sínum og handrit þáttanna eru einstaklega vel unnin.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.