Frumskógur fjarskiptanna

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir skrifar

Á mínu æskuheimili var til eitt stórt útvarpstæki sem var á hillu inni í stofu og virkaði líka sem skraut. Við sátum við þessa hillu og hlustuðum á Gufuna. Seinna boraði pabbi gat í gegnum vegginn að eldhúsinu og setti þar upp hátalara til þess að hægt væri að hlusta samhliða eldhúsverkunum. Sjónvarpið kom til sögunnar á okkar heimili þegar ég var orðin tvítug. Á þessum tækjum var einn takki til þess að kveikja og slökkva. Þetta virkaði. Valkvíðinn var enginn. Ein útvarpsrás og ein sjónvarpsrás. Mér þóttu þessi tæki stórkostleg og þau opnuðu mér nýjan heim.

Þegar ég segi nemendum mínum í fjölmiðlafræði frá þessum mikilvæga tækjakosti  bernskuheimilisins horfa þau á mig eins og ég  sé draugur frá fornöld, sem ég er kannski? Útvarpstæki. Nei. Sjónvarpstæki. Enn síður. Að sitja við tæki og hlusta og horfa. Fráleitt. Þeirra fjölmiðlavenjur eru allt aðrar. Ég ætla ekki einu sinni að gera tilraun til þess að lýsa þeim, enda er það ekki tilgangurinn með þessum skrifum.

Efnið sem mig langar til þess að ræða er þessi frumskógur sem við búum við í dag á fjarskiptamarkaðnum, sem á að tryggja okkur aðgang að fjölmiðlum, síma, neti og því sem nútíminn gerir kröfur um. Ég las grein í blaði fyrir skömmu með yfirskriftinni Þú getur sparað tugi þúsunda á síma og neti. Hún fékk mig til þess að staldra við og horfast í augu við það að ég borga blindandi reikninga frá tveimur fjarskiftafyrirtækjum, annar fyrir heimilið okkar í Reykjavík og hinn fyrir  Akureyrar annexíuna. Ég borga þetta í gegnum netbankann og kann ekki að komast nær reikningunum en að heildarupphæðinni. Ég veit í raun ekki hvað ég er að borga fyrir. Ég fór t.d. allt í einu að fá tvo reikninga mánaðarlega frá öðru fyrirtækinu. Þá hef ég borgað samviskusamlega í tæpt ár. Þetta hlýtur bara að vera rétt.

Í aðgerðarleysinu í covid-19 einangruninni ákvað ég að láta til skarar skríða og reyna að fá botn í reikningana mína. Ég fór í heimsókn til þessara tveggja fyrirtækja og bað um skýringu. Alveg sjálfsagt, sögðu ungu mennirnir sem tóku á móti konunni úr forneskjunni. Byrjum á útprenti, sögðu þeir til þess að geta útskýrt  þetta allt svart á hvítu. Báði vingjarnlegir og fullir af sjálfstrausti. Á fyrri staðnum þagnaði ungi maðurinn í þröngu buxunum snöggt og sagði að það væri eitthvað borgið við dæmið. Hann klóraði sér í kollinum og eftir hálftíma samtal við tölvuskjáinn, sagðist hann myndu hringja í mig síðar sama dag. Hann hringdi og sagði að ég væri búin að tvíborga mánaðarlega í tæpt ár fyrir sama sjónvarpspakkann, loftnetið óþarft og að ég væri með allt of dýran símapakka miðað við notkun. Hjá hinu fyrirtækinu fékk ég að vita að það væri löngu orðið úrelt að vera með heimasíma og honum var lokað á staðnum.

Það fór reyndar heill vinnudagur í þessa rannsóknarvinnu, en tímakaupið var mjög gott. Niðurstaðan var sú að fyrirsögnin í blaðinu góða um möguleika á tugþúsunda sparnaði á ári kemur heim og saman við mína reynslu. Ég mælið með því að þið farið yfir ykkar mál  í frumskógi fjarskiptanna og því fyrr því betra.

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir júní 14, 2020 09:36