Ekki gott að dotta yfir sjónvarpinu á kvöldin

Jón Snædal

„Svefnlyf eru of mikið notuð“, segir Jón Snædal  öldrunarlæknir þegar blaðamaður Lifðu núna ræðir við hann um svefnvandamál eldra fólks. „Eðli svefnsins breytist með aldrinum, þannig að hlutfall djúpsvefns verður lægra.  Þegar svefninn grynnist  eru menn líklegri til að vakna og það verður erfiðara að sofa út nóttina. Hjá fólki á aldrinum 65 til 75 ára geta svo líkamleg óþægindi  valdið því að það á erfiðara með svefn“.  Jón segir að eldra fólk kunni að hafa áhyggjur af fjárhagnum, ættingjum sínum og sjálfu sér. Sumir séu með slitgigt, líkaminn sé ekki jafn liðugur og áður, fólk finni til þegar það byltir sér og allt hafi þetta áhrif á svefninn.

Fara of snemma að sofa

„Það er algengara að fólk dotti yfir sjónvarpinu á efri  árum en þegar það var ungt. Ef þú sefur í 2-3 klukkustundir áður en þú átt að leggjast til svefns, áttu erfitt með að sofna þegar þú leggst í rúmið. Þú hittir kannski gamla manneskju sem segist sofa illa, en þegar svefninn er mældur, kemur í ljóst að svefninn er alveg ásættanlegur í heildina. Fólk fer líka að ganga snemma til náða með aldrinum, áður en líkaminn er tilbúinn til að fara að sofa og þá vaknar það mjög snemma morguns. Einstaklingur sem hefur bylt sér í  3 klukkustundir en sofið í 7 klukkustundir upplifir að hann hafi sofið illa“, segir Jón og segir einstaklingsbundið hvað svefninn eigi að vera langur hjá fólki. Almennt sé miðað við meðaltöl, en þau gildi ekki fyrir alla einstaklinga „Af hverju ætti sá sem hefur alla ævi sofið í 6 klukkustundir á nóttu að sofa í 7-8 klukkustundir þegar hann eldist?“, spyr hann.

Svefnlyf eru of mikið notuð að sögn Jóns Snædal

Tekur 15 mínútur að sofna

Jón segir að meðaltíminn frá því fólk leggist á koddann og þar til það sofnar sé 15 mínútur. Ef því takist ekki að sofna þegar hálf klukkustund eða jafnvel klukkustund er liðin frá því það fór að sofa, sé gott að fara fram, fá sér til dæmis flóaða mjólk, gera eitthvað smávegis og reyna svo aftur. „Það er ekki gott að liggja vakandi í rúminu í 2-3 tíma“. Jón segir að líkamsklukkan segi fólki yfirleitt hvenær það á að fara að sofa. Ef það hlusti ekki á hana og vaki lengur, glaðvakni það og eigi erfitt með að sofna. Jón segir þetta gamla veiðimanninn í okkur, sem fer ekki að sofa vegna þess að vá sé fyrir dyrum og líkaminn spennist upp til að verða tilbúinn í átök“.

Að drekka kaffi á kvöldin eða ekki

Jón segir að þeir sem sofi illa eigi að skoða hvað þeir geti sjálfir gert til að bæta svefninn. „Við sem drekkum kaffi með koffíni brjótum það mismunandi hratt niður. Kerfin í okkur eru mismunandi öflug. Ef þú ert einstaklingur sem brýtur koffín hratt niður er ekkert mál að þú fáir þér kaffi á kvöldin, en svo eru þeir sem brjóta það hægt niður og eru í vanda staddir ef þeir drekka kaffi eftir klukkan 16 á daginn“.  En Jón segir að það sé hins vegar ágæt regla þegar menn eldast, að drekka ekki vökva tveimur til þremur tímum áður en þeir fari að sofa.   Þá skipti máli að rúmið sé gott, menn hafi gott næði og það sé ekki of mikil birta í svefnherberginu.  Létt hreyfing tveimur til þremur klukkustundum fyrir svefninn geti líka bætt hann, en menn þurfi að forðast áfengi og tóbak, sem trufli svefn.

Gengur illa að fá fólk til að minnka svefnlyfjanotkun

„Þetta snýst um að  finna hvað hefur góð áhrif á svefninn og hvað slæm, og svefnlyfin eiga ekki að koma inn í myndina fyrr en búið er að reyna aðrar aðferðir“ segir Jón. „Svefnlyfin sem eru gefin í dag, allar leiðbeiningar og rannsóknir miðast við að menn taki þau í stuttan tíma, en reyndin er sú að menn taka lyfin mánuðum og jafnvel árum saman. Svefnlyf eru of mikið notuð, við sjáum það í rannsóknum, en það gengur oft illa að fá fólk til að minnka notkun þeirra“, segir hann.

 

 

Ritstjórn nóvember 6, 2019 08:22