Það var tekið að skyggja við litla landamærastöð á landamærum Frakklands og Ítalíu þegar ung kona kom gangandi í áttina að varðstöðinni. Seinni heimstyrjöldin var í fullum gangi og Ítalir og Þjóðverjar bandamenn, Hitler og Mussolini vinir. Engu að síður kröfðust þeir skilríkja og þegar hún gat ekki framvísað þeim miðuðu þeir byssunum sínum á hana og skipuðu henni að rétta upp hendurnar.
Unga konan gerði það. Hægt og rólega teygði hún báða handleggi upp fyrir höfuð og sneri lófunum fram. Þá sáu þeir handsprengjurnar sem hún hélt á og bökkuðu óttaslegnir. Búið var að taka pinnana úr sprengjunum og aðeins örfáar sekúndur í að þær spryngju.
„Þið getið skotið mig en þá deyjum við hér saman,“ sagði stúlkan sallaróleg.
Þeir biðu ekki boðanna þeir lögðu á flótta. Hún aftur á móti lét handleggina síga, setti pinnana aftur í sprengjurnar og gekk yfir landamærin og lét sig hverfa. Þessi hugrakka og óvenjulega unga kona hét Krystyna Skarbek en í bókum bresku leyniþjónustunnar hlaut hún nafnið Christine Granville. Hún varð fljótt þekkt hjá yfirmönnum MI5 sem djarfasti og útsjónarsamasti njósnari stofnunarinnar. Hún hafði aftur og aftur verið send bak við víglínuna, til Frakklands, Þýskalands og Ítalíu en alltaf skilað sér aftur og ávallt tekist ætlunarverk það sem henni var ætlað í það og það sinnið.
Útsjónarsöm og hugrökk
Stríð Krystynu byrjaði strax árið 1939 þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Hún horfði upp á nasista marsera viðstöðulítið yfir landið og pólska herinn marinn undir járnhæl hermanna Hitlers. Margir Pólverjar mynduðu andspyrnuhreyfingu en margir gáfust upp og reyndu að komast af sem best þeir gátu. Krystyna lagði land undir fót staðráðin í að leggja bandamönnum lið.
Henni tókst með harðfylgi að komast til Englands, örfáum mánuðum eftir að Pólland var hernum og gekk beina leið inn í höfuðstöðvar bresku leyniþjónustunnar og bað um að fá að tala við yfirmann. Það var látið eftir henni, kannski vegna þess að menn voru einfaldlega of undrandi á dirfsku hennar til að neita og fyrir hann lagði hún eftirfarandi tilboð: „Sendið mig á skíðum gegnum Karpatafjöllin inn í Pólland og ég skal dreifa áróðri gegn nasistum, koma á fót neti njósnara og hjálpa andspyrnufólki að komast undan.“
Yfirmaður MI5 starði á hana og vissi ekki hvort um væri að ræða óvenulega hugrakkan snilling eða gersamlega vitskerta manneskju. En hann ákvað að taka áhættuna. Í desember árið 1939 lagði Krystyna af stað heim. Hún fór á skíðum gegnum fjallaskörð frá Ungverjalandi inn í Pólland og hún dreifði flugritum, réð njósnara og skapaði leiðir fyrir þá til að hafa samband sín á milli og við sig, hún skipulagði aðgerðir andspyrnuhreyfingarinnar og flóttaleið gegnum fjöllin fyrir þá sem voru í bráðri hættu á að vera handteknir af nasistum.
Eftirlýst af Gestapó
Ekki leið á löngu þar til Gestapó fékk nasaþef af því að þarna væri kona í miðju köngulóarvefsins og þeir létu gera teikningu af henni eftir lýsingu andspyrnumanns sem hafði verið pyntaður til sagna og hengdu upp á öllum lestarstöðvum Póllands. Árið 1941 náðu þeir henni, pyntuðu hana og hótuðu að skjóta hana. Flestir brotnuðu fyrr eða síðar í höndum Gestapó en ekki Krystyna. Hún beit sig fast í tunguna og byrjaði svo að hósta blóði. „Berklar,“ stundi hún. „Ég er langt leidd.“ Gestapó-mennirnir hrukku undan dauðhræddir við smit. Þeir létu hana lausa og aftur lagði Krystyna af stað yfir fjöllin í átt til Bretlands. Henni tókst að komast til Egyptalands og gaf sig fram við fulltrúa bresku leyniþjónustunnar í Kaíró. En nú brá svo við að Bretarnir trúðu ekki að henni hafi tekist að blekkja Gestapó-menn svona auðveldlega. Þeir töldu að þeim hefði tekist að snúa henni og hún væri nú tvöföld í roðinu, gagnnjósnari fyrir Þjóðverja. Mánuðum saman yfirheyrðu þeir hana og aftur og aftur varð hún að sanna að hún væri traustsins verð.
Loksins tókst henni það og þá grátbað hún um að fá að fara aftur til Póllands en það fannst yfirmönnum hennar of hættulegt. Þar væri hún of þekkt. En í júlí 1944 stökk hún í fallhlíf úr flugvél inn í Frakkland. Í Suður-Frakklandi gerði hún það sama og í Póllandi, skipulagði aðgerðir frönsku og ítölsku andspyrnuhreyfinganna og réð nýja njósnara til að safna upplýsingum. Hún ferðaðist milli stöðugt milli Frakklands og Ítalíu án þess að vera stöðvuð þegar að því kom tókst henni nokkrum sinni að kjafta sig út úr því þar til að hún átti ekki annars úrkosts en að grípa handsprengjurnar.
Hennar frægasta aðgerð er án efa frelsun fanganna í Digne í ágúst árið 1944. Þrír breskir njósnarar voru í haldi Þjóðverja í bænum og til stóð að taka þá af lífi með aftökusveit. Krystyna gekk inn í höfuðstöðvar Gestapó, ein og vopnlaus fyrir utan eigin útsjónarsemi og hugrekki. Hún taldi Gestapó-foringjanum trú um að stríðið væri þegar tapað og ef hann leysti fangana úr haldi yrði honum kannski hlíft og ekki dreginn fyrir stríðsdómstól. Hún bauð þeim 2 milljónir franka fyrir fangana og lofaði að koma með peningana um leið og þeir væru lausir. Ótrúlegt en satt, þeir trúðu henni og hún gekk út í fylgd fanganna, einn þeirra var Francis Cammaerts, mikilvægasti tengiliður Breta við andspyrnuna í Frakklandi á þessum tíma.
Myrt af elskhuga sínum
Þegar friður komst á árið 1945 var Christine Granville heiðruð með Georgsorðu, orðu breska heimsveldisins OBE, og franska stríðskrossinum, Croix de Guerre. Hún var sá kvennjósnari sem hafði starfað lengst fyrir bresku leyniþjónustuna og Winston Churchill lýsti aðdáun sinni á henni og kallaði hana uppáhaldsnjósnarann sinn. En það var ekki auðvelt fyrir hana og aðra sem höfðu barist í stríðinu að aðlagast friðartímum. Henni gekk ekki vel að fá vinnu og átti í stöðugu fjárhagsbasli.
Hún virðist einnig hafa verið óheppin hvað varðar val á vinum eða ekki kunnað að velja rétta fólkið því konan sem hafði naumlega sloppið úr höndum nasista aftur og aftur, náð að skipuleggja flóknar stríðsaðgerðir og koma á fót tengslaneti andspyrnumanna og njósnara var myrt af manni úr kunningjahópi hennar sem var ástfanginn af henni en hún kærði seig ekki um. Hún var aðeins fjörutíu og fjögurra ára þegar hún var drepin á hótelherbergi í London. En saga hennar hefur orðið mörgum innblástur því Krystyna Skarbek sannaði að hugrekki og dirfska koma fólki oft lengra en nokkurn grunar og sá sem allir vanmeta er oft langhættulegastur allra.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







