HelpAge-samtökin aðstoða eldra flóttafólk

Á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá því Rússlandsher hóf innrás í Úkraínu, án stríðsyfirlýsingar, hafa um þrjár milljónir íbúa Úkraínu flúið land. Meirihluti flóttafólksins eru konur og börn. En þótt eldri borgarar eigi margir erfiðara með að leggja á flótta en yngra fólk þá eru samt margir slíkir meðal flóttafólksins.

Alþjóðlegu hjálparsamtökin HelpAge International eru að gera það sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa. Á vef samtakanna er að finna margar frásagnir af vettvangi. Ein sú nýjasta er frá Moldóvu, sem liggur á milli Úkraínu og Rúmeníu. Þar eru skráð samtöl sjálfboðaliða HelpAge-samtakanna við fólk sem er nýkomið yfir landamærin frá Úkraínu, og segir frá reynslu sinni af heimalandinu í hers höndum. Samtölin má líka horfa á sem myndbönd á YouTube.

„Bjargaðu barnabarnabarninu“

Meðal viðmælenda úr hópi flóttafólksins er til dæmis hin 62 ára gamla Lyubov frá Svartahafs-hafnarborginni Odessa, en hún segir svona frá:

„Systursynir mínir eru á vígvellinum. Systir mín tók sjálf þátt í að byggja varnarvirki við borgarmörkin, og hún sagði við mig: „Bjargaðu barnabarninu þínu, og barnabarnabarni, sjáðu til þess að þau eigi sér framtíð.“

Eins og ástandið er núna bíður okkar ekkert heima í Úkraínu. En samt vil ég snúa heim. Allt mitt er þar.  …“

Óskum þess heitast að geta snúið aftur

Svipaða sögu hefur Valentina, sem er 72 ára amma frá Kherson í Suður-Úkraínu, að segja:

„Klukkan fimm að morgni var okkur sagt að stríðið væri byrjað. Við vorum með föggur okkar og skilríki tilbúin og lögðum á flótta. Þetta var löng og erfið ferð; við ókum í tólf tíma. Lítil börn voru með okkur, og við reyndum að aka framhjá svæðum sem urðu fyrir sprengjuárásum. Ég var furðu lostin. Við fáum enn ekki skilið hvað Úkraína hefur til saka unnið? Ég þjáist af sykursýki og var orðin lyfjalaus þegar við komumst hingað. Þau gáfu mér insúlín, ég er svo þakklát öllu þessu góða fólki hérna. Við þurfum bara það nauðsynlegasta. Ég vil að barnabörnin fái að borða og sé hlýtt, og að geta keypt mat. Við bindum vonir við að geta snúið aftur til Kherson, og hún verður áfram okkar, hún er og verður úkraínsk borg. Ég óska mér þess heitast að geta snúið aftur heim með barnabörnunum.“

Og Alexander, 63 ára karl frá Kænugarði, segir:

„Þetta er martröð. Sprengjur falla í garðinn, og enginn veit hvað gerist næst. Þetta veldur mikilli skelfingu. Það versta er þegar börn deyja.“

Viðhorfskönnun lýsir neyð

Á vegum HelpAge International var í byrjun marsmánaðar gerð viðhorfskönnun meðal eldri íbúa (60+) í austurhéruðum Úkraínu, þar sem átök hafa staðið milli aðskilnaðarsinna, með stuðningi Rússlandshers, og Úkraínuhers síðan árið 2014. Um fjórðungur íbúa Úkraínu eru yfir sextugu, og fólk í þeim aldurshópi er um þriðjungur alls fólks sem þarf á (neyðar-)aðstoð að halda í landinu.

Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar lýsa því vel hve erfiðar aðstæður þessa fólks eru:

  • Svo gott sem allir sem spurðir voru (99%) vildu ekki vera knúðir til að yfirgefa heimili sín.
  • Níu af tíu þurfa á mataraðstoð að halda þar sem þau eiga erfitt með að hreyfa sig af bæ og margt býr eitt.
  • Sprengju- og stórskotaliðsárásir hafa valdið miklu tjóni á grunninnviðum með þeim afleiðingum að 79% eldra fólks skortir aðgang að hreinu drykkjarvatni.
  • Yfir þriðjungur hefur brýna þörf á aðgangi að nauðsynlegum lyfjum við krónískum sjúkdómum eins og sykursýki, háþrýstingi og verkjum.
  • 91 prósent aðspurðra hafði, þegar könnunin var gerð, orðið fyrir rafmagnsleysi og miklum vandkvæðum á að hita hýbýli sín.
  • Þrjá af hverjum fjórum skortir grundvallar-hreinlætisvörur eins og tannkrem, sápu og klósettpappír.

Í tilefni þessa gaf Justin Derbyshire, aðalstjórnandi HelpAge International, út svohljóðandi yfirlýsingu:

„Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá það sem er að gerast í Úkraínu núna og þær miklu þjáningar sem eldra fólk þarf að ganga í gegnum, oft eitt síns liðs.

Starfsfólk okkar og samstarfsnet frábærra sjálfboðaliða eru að reyna að komast í samband við eldra fólk sem er ófært um að flýja átakasvæðin, og við erum staðráðin í að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þeirri aðstoð sem nauðsynleg er til þeirra.“

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn mars 16, 2022 07:00