Ískaldar kveðjur ísbjarna á glæpabraut

Ung kona í Reykjavík heyrir fregnir af því að ísbjörn hafi gengið á land á Skaga á leið sinni í heimahús til að líta á sófa sem auglýstur var til sölu. Hún kemur á staðinn en skilar sér ekki heim. Þannig hefst bók Sólveigar Pálsdóttur, Ísbirnir, svo sannarlega spennandi byrjun og segja má að það slakni aldrei á spennunni söguna á enda.

Á sama tíma og konan hverfur er ráðist á þingmenn á leið til þinghússins í mótmælum í miðbæ Reykjavíkur. Guðrún lendir þar í hringiðu atburða og sætir gagnrýni frá öðrum þingmannanna fyrir viðleitni sína. Álagið eykst svo til muna þegar lík finnst í hrauni á Reykjanesi, skammt frá þar sem bíll hinnar horfnu fannst. Látna konan líkist mjög hinni horfnu en reynist ekki vera hún og þá flækist málið enn frekar. Eru morðið og mannshvarfið tengd? Rannsóknarlögreglumennirnir Guðgeir og Guðrún hafa í nógu að snúast og eru auk þess í kapphlaupi við tímann. Mikill þrýstingur er á lögregluna að finna konuna og þegar önnur kona hverfur er allt á suðupunkti.

Sólveig Pálsdóttir
Mynd: Jónatan Grétarsson.

Guðgeir, Guðrún, Særós yfirmaður þeirra og samstarfsmenn eru orðin lesendum Sólveigar að góðu kunn. Hún hefur byggt þessar persónur upp og mótað þær smátt og smátt þannig að þau standa manni ljóslifandi fyrir hugskotsjónum. Hið sama gildir um maka þeirra og fjölskyldur. Þetta er eitt af því sem gerir bækur Sólveigar svo spennandi. Lesendum er alls ekki sama hvernig fer fyrir sögupersónunum og vilja helst veg þeirra sem mestan. Að þessu sinni er fléttan ótrúlega þétt og vel unnin. Á henni eru margir óvæntir snúningar og Sólveigu tekst að að leiða lesendur sína áfram, halda þeim spenntum og gefur aldrei of mikið upp í einu en það er aðalsmerki góðra glæpasagnahöfunda.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.