Sjálfbær neysla, sorphirða og úrgangsstjórnun verða til umræðu í Fríbúðinni, Borgarbókasafninu Gerðubergi, miðvikudaginn 10. desemer. Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, mætir á svæðið og býst við að eiga fróðlegt samtal við gesti og gangandi.
„Ég reikna með að sumt muni koma fólki svolítið á óvart. Til dæmis að átta sig á hvaða umhverfisáhrif okkar eigin neysla hefur, því þau eru meiri en við höldum. Þess vegna er einmitt gott að vera meðvituð um þau og hvernig má draga úr þeim,“ segir Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg, sem kíkir í kaffi í Fríbúðinni miðvikudaginn 10. desember kl. 17:30 og spjallar við gesti og gangandi.
Guðmundur hefur starfað að umhverfismálum hjá Reykjavíkurborg í rúm 20 ár og meðal annars leitt breytingar á flokkun og sorphirðu í borginni. Í Fríbúðinni ætlar hann að ræða um sjálfbæra neyslu, sorphirðu og úrgangsstjórnun.
„Enda eru þetta auðvitað allt mál sem eru fólki hugleikin. Mörg velta til dæmis sorphirðu fyrir sér og vilja vita af hverju við flokkum sumt og annað ekki,“ nefnir Guðmundur í samhengi.
Guðmundur býst því við að áhugaverðar og fjörugar umræður eigi eftir að skapast í Fríbúðinni og vonast til að sjá sem flest.
Vinsælir viðburðir
Heimsókn Guðmundar er hluti af áhugaverðri viðburðaröð sem hefur staðið yfir Fríbúðinni í Gerðubergi í vetur undir yfirskriftinni Fríbúðakaffi, þar sem góðir gestir kíkja í kaffi og ræða eitt og annað sem viðkemur hringrásarhagkerfinu, tækifærum þess og áskorunum, endurnýtingu hráefna á heimilinu og fjölbreytt lífríki borgarinnar, svo fátt eitt sé nefnt. Fólk virðist greinilega áhugasamt að kynna sér þessi mál því viðburðirnir hafa notið vinsælda.
Spjallið í Fríbúðinni á miðvikudag hefst kl. 17:30 og fer fram á íslensku.







