Talið að minnst 20.000 þjáist af kæfisvefni

Að minnsta kosti 11.000 manns hafa greinst með kæfisvefn á Íslandi og notar meirihluti þeirra svefnöndunartæki að staðaldri. Líklega eru fleiri kæfisvefnssjúklingar ógreindir en þeir sem hafa fengið greiningu, að sögn Þórarins Gíslasonar, prófessors og yfirlæknis svefndeildar Landspítalans. Biðlistar eftir því að komast í rannsókn eru langir.

Rannsóknahópur við Landspítalann og Háskóla Íslands með Þórarin og Bryndísi Benediktssdóttur, prófessor og lækni, í fararbroddi hefur rannsakað kæfisvefn síðustu tvo áratugi í samvinnu við teymi bandarískra vísindamanna við háskólasjúkrahúsið í Fíladelfíu. Samkvæmt frétt á vef Háskóla Íslands hlaut þessi hópur nýverið 200 milljóna króna styrk frá bandarísku heilbrigðisstofnuninni (National Institute of Health) til nýrrar rannsóknar sem hefur vinnuheitið MOSA (metabolomics of obstructive sleep apnea). Rannsóknin felst í að meta hvort greina megi kæfisvefn með blóðsýni og hvort á sama hátt megi segja til um einkenni og fylgikvilla sjúkdómsins.

Á Vísindavef HÍ er að finna þessa skilgreiningu á kæfisvefni:

Kæfisvefn (e. sleep apnea) getur verið hættulegur og það er full ástæða til að leita til læknis. Kæfisvefn er til hjá börnum og fullorðnum en er langalgengastur hjá fullorðnum karlmönnum. Flestir þeirra sem þjást af kæfisvefni eru of feitir en það er þó ekki algilt. Kæfisvefn er eins og hrotur að því leyti að hann kemur einkum fyrir þegar sofið er á bakinu. Áfengi og svefnlyf stuðla að kæfisvefni og sama er að segja um nefstíflu af hvaða orsök sem er, meðal annars kvefi og ofnæmi.

Venjulega er talað um þrjár tegundir kæfisvefns, hindrun á loftflæði um kverkar og barka, truflun á stjórnun öndunar í heilanum og í síðasta lagi blöndu af þessu tvennu. Hindrun á loftflæði er langalgengasta ástæðan. Það sem einkennir kæfisvefn er stöðvun öndunar af og til, hrotur, órólegur svefn, sviti, martröð og að börn væta rúmið. Að deginum kemur oft fram morgunhöfuðverkur, syfja og sljóleiki. Sum börn með kæfisvefn eiga í erfiðleikum í skóla vegna syfju eða hegðunarvandamála. Syfjan að deginum getur í sjálfu sér verið hættuleg, ef fólk sofnar við vinnu eða akstur, en fleiri hættur eru á ferðinni.

Meðan á kæfisvefni stendur minnkar súrefnið í blóðinu og þar með flutningur þess út í vefi líkamans, meðal annars til hjartans. Þeir sem eru með kransæðasjúkdóm geta, við þennan súrefnisskort, fengið hjartsláttartruflanir sem eru einstaka sinnum lífshættulegar.

Hrjáir frekar eldra fólk en yngra

Í þýddri grein um kæfisvefn sem birt var hér á vefnum fyrir sex árum segir að það sé líklegra að eldra fólk þjáist af kvillum sem hafa slæm áhrif á svefn þess. Svo sem ýmisskonar verkjum, aukaverkunum af lyfjum eða tíðum þvaglátum. Fótaóeirð og kæfisvefn eru dæmi um kvilla sem hrjá eldra fólk frekar en yngra. Kæfisvefninn er athyglisverður frá sjónarhóli læknisfræðinnar því hann getur valdið sjúkdómseinkennum sem læknar gætu ranglega talið að tengdust eðlilegri öldrun. Í greininni eru rakin nokkur dæmi um slík einkenni:

Hrotur

Tíð þvaglát um nótt

Dagsyfja

Blundað eða dottað

Svefnleysi

Slitróttur svefn

Vaknað mjög snemma að morgni

Brjóstsviði að kvöldi

Hjartsláttaróregla

Tönnum gníst

Geðræn vandamál eins og kvíði og þunglyndi.

Gleymska

Auk þessa getur ómeðhöndlaður kæfisvefn valdið  hækkun á blóðþrýstingi, hjartavandamálum og sykursýki.

Þórarinn Gíslason útskýrir í Háskólavefsgreininni sem vitnað er til hér að framan: „Kæfisvefn er í raun og veru samheiti til að lýsa einstaklingum með endurtekin öndunarstopp að næturlagi og oftast fylgikvilla að degi til í formi syfju og þreytu, en í ljós hefur komið að kæfisvefnshópurinn er að mörgu leyti mjög ólíkur innbyrðis. Sumir þola mjög illa röskun á svefni vegna öndunartruflana og lýsa fyrst og fremst svefnleysi,

Þórarinn Gíslason

aðrir eru mjög syfjaðir á daginn og þriðji hópurinn glímir við afleiðingar kæfisvefns á hjarta- og æðakerfi, t.d. háþrýsting, hjartasjúkdóma, gáttaflökt og fleira. Þegar greining og meðferð kæfisvefns hófst um miðjan áttunda áratuginn þá bentu fyrstu rannsóknir til þess að um fátíðan sjúkdóm væri að ræða. Fljótlega kom í ljós að endurteknar öndunartruflanir, súrefnisskortur og svefntruflun eru meðal algengustu langvinnra sjúkdóma sem hrjá bæði börn og fullorðna og bæði kyn. Sívaxandi fjöldi hefur greinst með kæfisvefn.“

Kæfisvefn er læknanlegur. Leitaðu læknis ef þú ert með einkenni, láttu prófa þig og fáðu meðhöndlun. Sjáðu svo hvort einhver öldrunareinkennanna sem rakin eru hér að framan hverfa. Með meðhöndlun gætir þú ekki aðeins bætt árum við líf þitt heldur einnig lífi við árin sem þú átt eftir.

Ritstjórn janúar 25, 2022 07:00