Hringrás tískunnar og gripir úr geymslunni

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar framleiddi keramikverksmiðjan Wade á Bretlandi pínulitlar styttur af alls konar dýrum. Þær urðu strax mjög vinsælar meðal barna í heimalandinu g handan Atlantsála í Bandaríkjunum og voru kallaðar Whimsies. Um tíma voru þær meira að segja settar í tepakka Red Rose tefyrirtækisins sem skemmtilegur kaupauki. Það varð til þess að allir krakkar hófu að safna þeim.

Labubu-bangsarnir eru ófrýnilegir en njóta mikilla vinsælda nú á dögum.

En svo fyrndist yfir vinsældir þeirra og margvísleg önnur leikföng og skrautmunir tóku að skipta börn miklu máli. En nýlega hafa fullorðin börn þessa tíma enduruppgötvað töfra þessara litlu dýra og þau eru farin að seljast eins og heitar lummur á ebay og víðar. Ekki er langt síðan ein stytta fór á 1400 pund á uppboði eða um 237.000 kr. Þetta er ekki eina dæmið, leikaramyndir, myndir af stjörnum úr íþróttum og fleiri þekktum einstaklingum voru meðal þess sem börn sóttust eftir og söfnuðu á árum áður og hefur öðlast verðmæti eftir því sem tíminn líður.

Tískan fer líka í hringi og margt kemur óvænt aftur þótt það hafi um tíma þótt óumræðanlega púkó. Það á við klukkustrengi, útsaumaða púða, postulínsstyttur, hraun keramík frá Glit og ótal margt fleira. Menn ættu því að fara varlega í að henda hlutum þótt þeir séu ekki endilega „in“ akkúrat í dag. Stundum er ómögulegt að segja hvað ræður því að eitthvað verði vinsælt, til að mynda hefði líklega fáum dottið í hug að ófríðu bangsarnir frá LaBubu myndu slá í gegn eða röndóttu Omaggio-vasarnir frá Kähler. Margt fleira hefur komið og farið í gegnum tíðina. Skandinavísk húsgagna- og húsbúnaðarhönnun er þar á meðal. Á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar tóku léttari og stílhreinni húsgögn við af þungum bólstruðum sófum og stólum, útskornum skápum og borðstofuborðum sem þurfti stóran hóp fílelfdra karlmanna til að flytja úr stað. Allt þetta hvarf og kom aftur.

Nýlega bárust svo af því fréttir að það færðist í vöxt að landsmenn kysu að kaupa notaða muni og fatnað til að gefa í jólagjafir. Það er framför og vonandi verður áframhald á því. En ef einhver er að taka til í geymslunni nú fyrir jólin ætti sá hinn sami að velta fyrir sér hvort þar leynist gersemar sem selja má á nytjamörkuðum fremur en að fara með það í ruslið. Sumt gæti líka borgað sig að geyma ögn lengur og þá verður það kannski orðið hæstmóðins um næstu jól.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.