Sú skoðun er útbreidd að karlar séu almennt fljótari en konur að hefja nýtt samband eftir skilnað eða makamissi. Á ensku orða menn þetta gjarnan þannig: „women grieve and men replace“. Rannsóknir benda hins vegar til að lögmálið sé ekki alveg jafn fastmótað og menn hafa hingað til haldið en karlmenn fara þó yfirleitt fyrr í nýtt samband en konur einkum þegar um er að ræða makamissi á efri árum.
Í nýlegri breskri rannsókn voru tekin djúpviðtöl við ekkjur og ekkla sem nýlega höfðu misst maka sinn um hvernig hversu opin þau voru fyrir því að hefja ástarsamband að nýju. Samtölunum var síðan fylgt eftir ári síðar og tveimur árum síðar. Í ljós kom að mjög svipað var milli kynja hversu tilbúið fólkið var til að hefja nýtt samband en konur rákust hins vegar mun frekar á veggi ef þær gerðu tilraunir til að fara á ný út á stefnumótamarkaðinn. Mjög algengt var til að mynda að uppkomin börn kvenna væru mjög á móti því að mæður þeirra ættu í nánum samböndum. Börn karla voru mun umburðarlyndari hvað þetta varðar. Í sumum tilfellum virtist munurinn stafa af umhyggju barnanna fyrir konunum og ótta við að þær yrðu særðar en einnig spiluðu inn í áhyggjur af því að mæðurnar yrðu síður til staðar til að styðja börn sín ef þær væru uppteknar af ástarsambandi og ótti við að nýr aðili í lífi móðurinnar kynni að hafa fjárhagslegan hag af henni.
Það skipti einnig miklu máli hvenær fólk hugðist hefja samband að nýju. Það fór yfirleitt mjög illa í uppkomin börn þeirra ef foreldrarnir voru farnir að fara á stefnumót eða hitta annað fólk fáum mánuðum eftir lát maka síns. Til að mynda var mikill munur á viðhorfum uppkominna barna til nýs sambands foreldris síns ef það hófst sex mánuðum eftir lát hins foreldrisins en ef það hófst átján mánuðum seinna.
Konur upplifðu frelsi eftir makamissi
Helena Lopata rannsakaði stöðu og líðan bandarískra kvenna eftir makamissi árið 1973 og skrifaði í kjölfarið bókina, Widowhood in an American City. Þar kom fram að margar konur upplifðu frelsistilfinningu eftir makamissi. Þær voru ekki lengur bundnar við þarfir makans og kröfur um fasta matmálstíma, tilteknar venjur eða annars konar umönnun. Flestar þeirra sögðu að þessi hluti lífs þeirra væri liðinn og þær vildu einbeita sér að sjálfri sér og eigin áhugamálum það sem þær ættu eftir. Þeim fyndist dásamlegt að búa einar, nokkuð sem sumar voru að upplifa í fyrsta sinn á ævinni og þær voru hamingjusamar. Rannsókn á kjörum ekkla frá sama tíma leiddi hið gagnstæða í ljós. Karlmenn upplifðu sig týnda eftir missi eiginkonunnar, þeim fannst lífið litlausara, þeir hafa misst tengsl við vini og vandamenn og margir áttu í erfiðleikum með að finna út hvernig þeir ættu að sinna ýmsum þörfum sínum. Sumir kunnu hvorki að elda né þvo þvott.
Þetta hefur breyst mikið ef marka má bresku rannsóknina en enn er algengara að konur kjósi fjarbúð ef þær fara í nýtt samband. Þær vilja ekki taka á sig ábyrgðina af heimilishaldi að nýju en finnst gott að eiga vin og félaga. Karlar eru frekar tilbúnir að hefja sambúð en eru meðvitaðir um að það getur verið flókið. Þeir tala um að halda fjárhagnum aðskildum en vilja frekar halda eigin fasteign en flytja í fasteign konunnar. Þeir hafa litlar áhyggjur af börnunum og skoðunum þeirra á nýju sambandi meðan konurnar óttuðust allar að börn þeirra myndu eiga erfitt með að samþykkja nýjan maka.
Meðal þess sem bresku rannsakendurnir skoðuðu var hvaða áhrif gott samband við látna makann hafði á löngun og líkur á að fólk hefði nýtt samband eftir lát hans. Í ljós kom að ef fólk hafði verið í góðu ástarsambandi eða hjónabandi voru meiri líkur á að það reyndi aftur. En flestir sögðu hins vegar að ást þeirra til fyrri maka hefði ekki dofnað og tilfinningarnar til nýja makans eða félagans væru ekki sambærilegar, yrðu það sennilega aldrei. Það þýddi þó ekki að fólk væri ekki ánægt. Félagsskapurinn var þeim mikilvægur og fólkinu leið mjög vel í nýju sambandi.
Í ljósi þess að rannsóknir sýna að gott er fyrir heilsufar eldra fólks að vera í hjónabandi eða nánu sambandi ættu uppkomin börn því frekar að styðja foreldra sína í þeirri viðleitni en leggja stein í götu þeirra. Það að stofna til nýrra kynna dregur úr líkum á að fólk þrói með sér þunglyndi í kjölfar makamissis og því finnst auðveldara lifa með sorginni.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







