Giftist gömlu kærustunni eftir 50 ár

Stundum veltir fólk því fyrir sér þegar aldurinn færist yfir, hvað myndi gerast ef það hitti aftur kærastann eða kærustuna frá menntaskólaárunum. Fólk er kannski búið að vera gift, er fráskilið eða búið að missa makann og þessi hugmynd skýtur upp kollinum.  Sambandið frá menntaskólaárunum tók enda, en hvað gæti gerst ef þau hittust aftur?  Kannski er hægt að finna gamla kærastann á Facebook,eða „gúggla“ stelpuna sem þú varst bálskotinn í á unglingsárunum. Fæstir gera nokkuð í málinu, en fyrir suma er það leiðin til að finna ástina, að hafa uppá gömlum kærasta eða kærustu.  Á systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum aarp.org,  er sagt að þetta sé að verða algengara með tilkomu samfélagsmiðlanna.

Geta gamlir vinir orðið nýir makar?

Þar segir líka að könnun á vegum Pew Research Center á síðasta ári, hafi sýnt að helsta ástæða þess að fólk yfir fimmtugu sé á netinu, sé að þannig geti það haft uppá gömlum vinum. Hvort þessir gömlu vinir verði síðan nýir makar, sé erfiðara að reikna út.  Engu að síður er rætt á vefsíðu aarp, við fólk sem fann ástina með því að hafa samband við gamla „flamma“.  Hvort sem það hafði samband í gegnum samfélagsmiðla, stefnumótasíður, hringdi, sendi bréf eða hittist af tilviljun í útskriftarafmæli eða í jarðarför. „Að eiga sameiginlega fortíð getur verið þægilegt, sértaklega þegar við eldumst“, segir sálfræðingur sem er spurður álits á þessu á síðunni.  „Fólk sem við umgengumst á yngri árum þekkir okkur oft vel og við það. Það getur auðveldað náin kynni“.

Hittust aftur í jarðarför

Greint er frá pari á aarp.com, við skulum kalla þau Önnu og David,  sem var saman í háskólanum í North Dakota árið 1964. Mæður þeirra voru æskuvinkonur og þær komu þeim saman í upphafi. Hvorug þeirra lifði hins vegar að sjá þau giftast 50 árum síðar. David var giftur maður þegar hann kom með móður sinni, í jarðarför móður Önnu. Hann tók eftir því að Anna, sem var fyrrverandi fegurðardrottning, var alveg jafn glæsileg og hún hafði verið þegar þau voru saman fyrir fimmtíu árum.  Þegar móðir Davids lést nokkrum mánuðum síðar, sendi Anna honum samúðarkveðjur og það gerði hún líka þegar konan hans lést skyndilega skömmu seinna.

Ef þú gætir hugsað þér það?

David sem var tannlæknir á eftirlaunum, tók sig til nokkru síðar og fletti fyrirtæki Önnu upp á vefnum og sá þá að hún var með námskeið, sem hann ákvað að drífa sig á.  Hann vissi að hún var ógift, en vissi ekki hvort hún átti kærasta. Hann ákvað að kanna málið, enda orðinn sjötugur og fannst hann ekki neinn tíma mega missa. Það er skemmst frá því að segja að hann bauð henni í mat og sagði henni nákvæmlega hvað honum bjó í brjósti.  „Málið er það, að ég hef ævinlega borið allar konur saman við þig.  Nú er ég að leita að einhverjum sem vill vera félagi minn í lífinu og hafa það skemmtilegt með mér. Ef þú getur hugsað þér það, væri það yndislegt“

Töfrum líkast

Næsta dag lagði Anna það til að þau færu saman í ferðalag til New York um jólin og til Parísar um áramótin.  Þau gerðu það og skruppu til Ítalíu í leiðinni þar sem David hélt uppá afmælið sitt.  Þau giftu sig svo í apríl 2015 um borð í snekkju í höfninni í San Francisco.  David segir þetta töfrum líkast. Anna hafi munað öll stefnumótin þeirra og líka lagið þeirra með Buck Owens. „Love´s Gonna Live Here“

Ætlaði ekki að giftast aftur

„Ég var vön að segja að ég myndi aldrei gifta mig aftur“, segir Anna.  „Eftir að ég skildi fannst mér flestir karlmenn alltof þurfandi. En David er ekki þannig.  Hann eldar og finnst gaman að hafa líf og fjör í kringum sig. Við hlæjum mikið og treystum hvort öðru fullkomlega. Ef annað okkar byrjar að tala, getur hitt botnað setninguna“.

Ritstjórn júní 20, 2016 11:14