Thomas Möller er fæddur 1954 og verður því 72 ára á þessu ári. Hann hætti að vinna fyrir nokkrum árum en áður en að því kom ákvað hann að undirbúa sig vel og ver nú tíma sínum m.a. í að aðstoða aðra sem eru á sama æviskeiði. En það er ekki allt.
,,Eftir að hafa kannað vel það sem fræðimenn segja um þetta „þriðja æviskeið“ ákvað ég að taka málin föstum tökum og bjóða þetta tímabil velkomið,“ segir Thomas. „Allt of margir óttast þennan tíma, kvíða því að hætta vinna og sjá ekkert nema neikvæðu hliðina á því að eldast. En þetta tímabil getur verið svo skemmtilegt,“ fullyrðir Thomas. „En til þess að svo megi vera þarf fólk að vera sjálfstætt sem þýðir að fjármálin þurfa að vera í lagi en allra mikilvægast er samt að heilsan sé í lagi. Þá erum við „sjálfráða“ eins og Brian Tracy segir. Grunnþörf mannsins er að vera sjálfráða og eins og Tracy segir þá á heilbrigður maður mörg markmið en sjúkur bara eitt. Skilaboð til allra sem eru að nálgast eftirlaunaárin eru að undirbúa sig vel og byrja svo að hlakka til,“ segir Thomas sem hefur sannarlega farið eftir þessum ráðum og nýtur lífsins með Bryndísi Tómasdóttur, eiginkonu sinni.
Eftirlaunaþegi og ellilífeyrisþegi
„Þessi tvö íslensku orð eru ljót“ segir Thomas. „Það er mikill misskilningur þess sem bjó þau til því við erum ekki að þiggja peninga af neinum. Eftirlaunin eru peningar sem við eigum þegar sjálf eftir að hafa unnið okkur inn laun á langri ævi. Við erum í rauninni sjálfstætt starfandi á eftirlaunum því við erum að fá eigin peninga til baka,“ segir hann.

Thomas fer með Íslendinga í ferðir til Japan.
Japanir horfa með öðrum augum á hækkandi aldur
Thomas hefur bæði farið sem leiðsögumaður með útlendinga um Ísland og með Íslendinga til Þýskalands og Japan. Þau Bryndís bjuggu í Berlín á námsárum en nú hafa þau kynnt sér Japan og japanska menningu og þykir hún merkileg.
„Í Japan er ekki til orð yfir þá sem eru hættir á almennum vinnumarkaði eins og við höfum“ segir Thomas. „Þeir kalla þessi ár „Ikigai árin“ en það er, samkvæmt Wikipedia, japönsk hugmyndafræði „sem byggir á því að uppgötva tilgang sinn með því að kanna samspil þess sem þú elskar, þess sem þú ert góður í, þess sem heimurinn þarfnast og þess sem þú getur fengið greitt fyrir“. Þessi aldagamla heimspeki býður upp á skipulagða nálgun til að bera kennsl á tilgang þinn og lifa innihaldsríku lífi en þannig skilgreina Japanir þriðja aldursskeiðið. Laun fólks hækka því í samræmi við hækkandi aldur starfsmanna og virðing er fyrir þeim borin. Fólk safnar peningum í lífeyrissjóði og byrjar að taka þá út þegar hætt er á vinnumarkaði.“
Að faðma tré
Thomas er heillaður af japanskri menningu sem hann segir að sé merkileg og ólík því sem við þekkjum.
„Formúla lífsins er það kallað þegar jurtir taka vatn og steinefni úr jarðveginum, koltvísýring úr andrúmsloftinu og orku frá sólinni og breyta því í súrefni, sem við öndum að okkur, og í jurtir sem eru aðalnæring manna og dýra,“ segir Thomas. „Við sjáum Japani gjarnan faðma tré en þá eru þeir að þakka náttúrunni fyrir sig. Þeir hafa nokkurs konar náttúrutrú og í rauninni álfatrú. Tvö útbreiddustu trúarbrögðin í Japan eru Sjintotrú, sem 52% aðhyllast og Búddatrú sem 36% aðhyllast.
Sjintóismi er fjölgyðistrú og andatrú sem snýst um að yfirnáttúrulegar verur, þ.e. andar, goð eða vættir, kallaðir Kami, búi í öllum hlutum, þar með talið trjám. Fræðimenn deila um hvenær hægt sé að tala um sjintóisma sem trúarbrögð fremur en þjóðtrú en flestir Japanir aðhyllast Sjinto,“ segir Thomas.
Finnum tilgang og leggjum áherslu á virkni

Fararstjórn í Berlín með hóp Íslendinga fyrir Ferðaskrifstofu eldri borgara.
Í vinahópi Thomasar er mjög virkt fólk á hans aldri þótt hann segi að fáir hafi farið í meira nám eins og hann gerði. „Ég fór þá leið að fara 53 ára gamall í MBA nám þar sem ég var elsti nemandinn,“ segir hann og hlær. „Ég lærði þar að það væri betra að starfa hjá sjálfum sér þegar kæmi að því að hætta að vinna ef þess væri nokkur kostur. Þá tók ég það ráð að kaupa fyrirtæki sem ég rak í 10 ár, byggði upp og seldi svo, þá orðinn 65 ára gamall. Einhver besta fjárfesting sem ég hef gert er að fara í MBA námið á sínum tíma en það hefur nýst mér gífurlega vel. En svo þegar ég seldi fyrirtækið og hætti formlega að vinna ákvað ég að fara í leiðsögunámið í Kópavogi sem var geysilega skemmtilegt,“ segir Thomas og brosir. „Ég tók námið á tveimur árum og bætti svo við mig D-meiraprófi svo nú má ég keyra rútur og er svokallaður ökuleiðsögumaður með allt að 15 manna hópa.“
Snæfellsnesið í uppáhaldi

Hér er Tómas í vel heppnaðri 5 daga ferð sem ökuleiðsögumaður með fjölskyldu frá Bandaríkjunum.
Thomas er ættaður úr Stykkishólmi og hefur mjög gaman af að fara með hópa um Snæfellsnesið. Hann fer gjarnan í hópi leiðsögumanna í Grundarfjörð þar sem bíða ferðamenn af skipum. „Þetta eru ævintýralega skemmtilegir morgnar því ég vakna klukkan fjögur og við erum komin til Grundarfjarðar kl. átta þar sem bíða okkar rútur, fullar af ferðamönnum af skipunum.“
Fræðsla sem Thomas afhendir þátttakendum í Japansferðum:
- Vertu virk(ur); ekki fara á „retirement“. Margt af langlífasta fólki heims vinnur langt fram yfir 80 og 90 ára aldurinn en yfirleitt ekki nema einn til þrjá klukkutíma á dag. Við sjáum Ikigai fólkið víða í Japan þar sem þau eru að aðstoða skólabörn yfir gangbrautir, þrífa gangstéttir og vakta bílastæði og byggingarsvæði.
- Taktu því rólega. Það kann að virðast eðlilegt að flýta sér í gegnum hlutina, en það getur í raun haft neikvæð áhrif á lífsgæði þín að sögn García og Miralles. Láttu þér leiðast af og til segja þeir.
- Umkringdu þig góðum vinum. Að eiga frábær sambönd í lífi þínu hefur verið tengt hamingju og langlífi samkvæmt 85 ára rannsóknHarvard. Þín nánasta fjölskylda er þín besta vinátta, „hringdu daglega í einn í fjölskyldunni eða góðan vin“ segja þessi Ikigai fræði.
- Komdu þérí gott form fyrir næsta afmæli. Hreyfing er stór þáttur í að stuðla að langlífi. Jafnvel fimm mínútur á dag með einföldum Tai Chi æfingum eru oftast nóg til að halda sér í góðu formi.
- Brostu. „Það er gott að viðurkenna það og við ættum aldrei að gleyma því hversu mikil forréttindi það eru að vera hér og nú í heimi sem er svo fullur af möguleikum,“ Njótum augnabliksins!
- Tengstu náttúrunni á ný. Finndu tíma til að anda að þér fersku lofti og farðu í göngutúr, jafnvel þótt þú búir í borg. Að verja tíma í náttúrunni kann að virðast tímasóun, en það getur aukið lífsgleði og bætt heilsuna, skapið og minnið! Trúarlíf Japana snýst mikið um samskipti við náttúruna.
- Þakkaðu fyrir þig. Þakklæti er frábær leið til að minna þig á allt það besta í lífi þínu. Gefðu þér tíma til að deila þakklæti þínu, þakkaðu fyrir ástríka fjölskyldu þína, yndislega vini eða jafnvel sjálfan þig.
- Lifðu í augnablikinu. „Hættu að sjá eftir fortíðinni og óttast framtíðina. Í dag er allt sem þú átt. Nýttu þér það sem best. Gerðu núið þess virði að muna,“ skrifuðu García og Miralles.
- Fylgdu Ikigai þínum. Uppgötvaðu hver ástríða þín er og láttu hana drífa þig áfram. Að hafa Ikigai bætir tilgangi við líf þitt og getur leitt til meiri hamingju.
Sjálfboðaliði í Seiglunni
Thomas hefur undanfarin þrjú ár verið sjálfboðaliði hjá Seiglunni sem er starfrækt á vegum Alzheimersamtakanna. Þar hittir hann vikulega um 20 karlmenn sem eru á byrjunarstigi Alzheimersjúkdómsins. Þeir kalla þetta fræðslu- og skemmtiþáttinn „Úr einu í annað“ en Thomas fer með þeim yfir málefni vikunnar auk þess sem hann segir þeim margs konar fróðleik. ,,Í þessum hópi eru mjög góðir söngvarar og við endum alltaf á því að syngja saman,“ segir Thomas.

Að loknu meiraprófi með 76 manna rútu.
Skilaboð Thomasar til allra á þriðja aldursskeiðinu er að gæta þess umfram allt að verða ekki vanvirk,“ og bætir brosandi við að jákvæðni og gleði geri alla daga betri og um það höfum við val.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.
———







