Tengdar greinar

Friðrik Ólafsson teflir enn

Friðrik Ólafsson fyrsti stórmeistari Íslendinga í skák segist enn tefla, en hann er kominn yfir áttrætt. Hann segist njóta frelsisins sem fylgir því að vera ekki háður því að mæta í vinnu alla daga. „Ég ferðast mikið“, segir hann „og hef haldið áfram að tefla til að halda heilasellunum við. Mér skilst að það sé mikilvægt að halda áfram því sem maður kann vel og hefur góð áhrif á starfsemi heilans“. Friðrik segist hafa ferðast til um 50 landa ef ekki fleiri, og telft í um 30 löndum.

Undrabarn í skákinni

Hann lærði mannganginn 7-8 ára, en byrjaði ekki að tefla fyrir alvöru fyrr en 10-11 ára. Hann vakti snemma athygli fyrir skákhæfileika sína, eins og sést hér í frásögn af Landsliðskeppninni í skák árið 1951.

Friðrik Ólafsson og Þórður Jörundsson urðu jafnir í öðru og þriðja sæti. Þeim er í flestu ólíkt farið. Friðrik er undrabarnið, sem þaut eins og hvirfilvindur út úr skákáhuga bylgju þeirri, sem myndaðist við einvígi þeirra Ásmundar Ásgeirssonar og Guðmundar Ágústssonar haustið 1946 og hefur lítt hægt skrið sitt síðan. Hefur hann þegar, aðeins 16 ára að aldri vakið feikna athygli, bæði innan lands og utan, fyrir skákhæfni sína. Á hann vafalaust glæsta framtíð í vændum sem skákmeistari, en annars er ábyrgðarminnst að hafa sem fæstar spár um menn, sem tilheyra fortíðinni í jafn snauðum mæli sem Friðrik.

Þessa frásögn er að finna á vefsíðunni www.fridrikolafsson.com en þetta er ný síða um Friðrik, sem Hið íslenska skáksögufélag hafði forgöngu um að láta gera. Félagið hefur það að markmiði meðal annars „að saga fræknustu skákmeistara okkar og helstu skákviðburða hérlendis yrði skráð“. Vefsíðan var opnuð í gær af Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra, í félagsheimili Félags eldri borgara við Stangarhyl og var Friðrik heiðursgestur.

Við opnun vefsíðunnar um Friðrik Ólafsson sem átti ævintýralegan feril í skákinni

Við opnun vefsíðunnar í Stangarhyl

Vildi líka lifa fjölskyldulífi

Friðrik segir að skákin hafi verið snar þáttu í öllu hans lífi. „Ég hef þó ekki helgað mig henni alfarið“, segir hann. „Það hefði kostað miklar fórnir, en ég vildi líka geta lifað fjölskyldulífi“. Friðrik og Auður Júlíusdóttir eiginkona hans eiga tvær dætur, fimm barnabörn og tvö langafa- og ömmubörn. Hann segist aldrei hafa reynt að þvinga skákinni uppá þau, en verið tilbúinn að tefla við þau ef þau hafi haft löngun til. Friðrik fór víða og tefldi, aðallega í löndum í Evrópu, en einnig í Suður Ameríku. Hann var forseti Alþjóða skáksambandsins um árabil og fór þá í heimsreisu. „ Þetta var stórt kjördæmi, 120 lönd, en ég náði ekki að heimsækja þau öll“, segir hann.

Friðrik ásamt eiginkonu sinni Auði Júlíusdóttur

Friðrik ásamt eiginkonu sinni Auði Júlíusdóttur

Skákheimurinn gerbreyttur

Friðrik hefur lagt mikla vinnu í að útvega efni fyrir nýju vefsíðuna, en þar er að finna nær allar hans skákir frá upphafi um 1500 talsins. Þar er einnig annað frólegt efni og myndir frá skákferli hans. Hann segir mikið hafa breyst í skákheiminum frá því hann var að byrja. „Maður var að reyna að snapa sér skákbækur sem bárust til landsins. Ég var eins og grár köttur í kringum bókabúð Sigurðar Kristjánssonar. Þá þurfti að bíða eftir skáktímaritum frá útlöndum í marga mánuði, en þar var að finna skákir frá mótum og fræðilega umfjöllun um þær. En í dag eru fréttir af skákmótum sagðar beint og það er hægt að fylgjast með, á meðan menn tefla“.

Teflir minna en áhugamenn

Friðrik segir að skáklífið á Íslandi sé mjög öflugt, en ekki jafn áberandi og það var. Samkeppnin sé meiri en áður og tölvurnar hafi gerbreytt taflmennskunni. Sjálfur segist hann ekki geta teflt jafn mikið og þeir áhugamenn sem til dæmis séu að tefla skák hjá Félagi eldri borgara. „Þegar maður hefur sjálfur verið atvinnumaður í skák þá nálgast maður skákina alltaf með því hugarfari að maður verði að undirbúa sig vel og standa sig vel. Ósjálfrátt framkallar þetta spennu, eins og á árunum, þegar ég var atvinnumaður. Mér finnst því þægilegra að stilla í hóf þátttöku minni í skákkeppnum núna í seinni tíð“, segir hann.

 

 

 

Ritstjórn janúar 28, 2016 11:03