Á ferð milli kvennaheima

Fyrir þrjátíu árum steig fram á ritvöllinn ungur höfundur, Vilborg Davíðsdóttir með sína fyrstu skáldsögu, Við Urðarbrunn. Þar opnaðist lesendum ný sýn lífið á þjóðveldisöld. Þar riðu ekki hetjur um héruð og stukku hæð sína í öllum herklæðum heldur birtist mynd af fólki nýfluttu til óbyggðrar eyjar og innflytjendurnir beittu ofbeldi og héldu þræla. Þrætur og valdabrölt karlanna er fyrirferðaminna en heimur kvenna, barna og ánauðugra við daglegt strit og sýsl. Og enn er komin ný bók um sömu tíma, Land næturinnar, og enn er heimur kvenna í forgrunni en að þessu sinni á framandi slóðum.

Silfur greitt fyrir ambáttir í Austurvegi. Þetta eru arabískir peningar frá 10 öld sem fundust í jörðu í Svíþjóð.

Þorgerður Þorsteinsdóttir, barnabarn Auðar djúpúðgu, er gift á ný, Herjólfi Eyvindarsyni skinnakaupmanni frá Jamtalandi. Þau halda í kaupferð í Austurveg en það var verslunarleið norrænna manna um fljót Austur-Evrópu. Ertu með þessari bók að setja punkt aftan við sögu Auðar djúpúðgu og afkomenda hennar?

„Satt að segja þá get ég bara ekki svarað því hér og nú. Þessi saga er framhald af Undir Yggdrasil og seinni bókin um Þorgerði og fleiri ekki í farvatninu. Ef lesendur fara að gera einhverjar kröfur kann að vera að ég endurskoði það,“ segir Vilborg og hlær. „Ég get samt ljóstrað því upp að ég er reyndar byrjuð á bók sem er af allt öðrum toga.“

Fótgangandi úti í heimi með hjálp Google Maps

Lýsingar þínar á ferðalögum söguhetjanna um Rússland og Úkraínu og siglingum eftir ánni Dnépur eru svo lifandi og áhugaverðar. Fórstu sjálf þessa leið?

„Nei, því miður. Ég ætlaði að fara í fyrra til Sankti Pétursborgar, heimsækja Staraya Ladoga eða Aldeigju, sem svo er nefnd í Íslendingasögunum og er rétt hjá og helst til Novgorod, eða Hólmgarðs, líka en þar var stærsta byggðin og aðsetur jarls Rúsa. Var búin að skrá mig til þátttöku á ráðstefnu sem var haldin í Tallinn og Helsinki og vera með fyrirlestur og fljúga þaðan til Rússlands en þá gerðu Rússar innrás í Úkraínu og þá varð auðvitað ekki neitt úr neinu. Ég gat því aðeins unnið rannsóknirnar á netinu í þetta sinn og það er auðvitað gífurlega mikið efni þar að finna, fræðigreinar og ljósmyndir. Það má líka fara inn á Google Maps og fara í fótgangandi ham og ganga um og horfa í kringum sig en umhverfið er auðvitað allt öðruvísi en það var.

Fyrir 1100 árum voru Rússland og Úkraína ákaflega dreifbýl lönd. Skógar alls staðar norðan megin og svo koma steppurnar og það eru engir vegir neins staðar. Þess vegna eru árnar samgönguæðarnar og þeir norrænu, sem eru mikil siglingaþjóð, sigla á fljótabátum sem þeir fá hjá innfæddum um allt þetta gríðarlega stóra svæði. Leiðin úr Eystrasalti og alla leið til Konstantínópel, sem þeir kölluðu Miklagarð, er um 3000 km. Í sögunni skipti ég leiðangrinum á tvö ár því mér finnst líklegt að þannig hafi þetta verið. Til er samtímaheimild um að þeir hafi safnast fyrir í Kyiv, eða Kænugarði, á vorin eftir að ísa leysir á ánum en enn nógu vatnsmiklar til að auðvelda ferðina yfir hættulegar flúðirnar á Dnépur og siglt þaðan í samfloti niður að Svartahafi og alla leið til Konstantínópel, sem í dag heitir Istanbúl. Sums staðar þurftu þeir raunar að setja allan varning á land til að létta bátana eða ýta þeim yfir hlunna,“ segir Vilborg. „Og létu þá auðvitað hertekna fólkið hjálpa til; þetta voru menn sem urðu ríkir af mansali.“

Eintrjáningar tengdir saman

„Þetta rit var skráð af keisaranum í Konstantínópel um miðja tíundu öld,“ heldur hún áfram. „Þegar þeir voru komnir niður ána og út í ósinn er þar lítil eyja sem heitir Berezan eða Bjarkey. Þar hvíldust þeir í nokkra daga, settu á bátana segl og sigldu svo yfir Svartahaf með vesturströndinni til Bosporussunds. Keisarinn kallar bátana monoxyl á grísku sem merkir bátur úr einum trjábol, eintrjáningar. Eiginlega er útilokað að þeir hafa getað sett siglutré og segl á eintrjáninga svo mín kenning er sú að þeir hafi fest þá saman í pramma og þannig hafi þeir getað borið siglu og segl. Og ég kalla eintrjáningana elliða, en það er reyndar fornt skipaheiti sem enginn veit um hvernig skip var haft.

Dnépur er gríðarlega mikið og lygnt fljót. Sums staðar er það kílómetri á breidd en varla neinn halli nema á 66 kílómetra svæði þar sem flúðirnar sjö voru. Maður sér á myndum frá því snemma á tuttugustu öld að í þeim var grjót um allt og litlir fossar og magnað að þeir skyldu komast yfir þær. Nú sjást þær ekki lengur því á Stalínstímanum var fljótið stíflað og byggð orkuver. Í dag er þarna borgin Zaphorizhia en nafn hennar merkir „handan flúðanna“ og stærsta kjarnorkuver Evrópu, hernumið af Rússum í innrásinni. Það er ótrúlega skrýtið að heyra stöðugt í fréttum nöfn þessara staða sem ég hef kynnt mér og blasa við á landakortunum sem ég er með uppi á vegg á meðan ég skrifa.“

Mjög sjálfstæð kona

Hversu mikið af sögunni byggir þú á heimildum? Mjög lítið er vitað um Þorgerði og fátt um hana sagt í Laxdælu.

„Söguþráðurinn er hreinn skáldskapur en sögusviðið og lýsingar á til dæmis helgisiðum og gyðjudýrkun byggi ég á heimildum, sem oft eru reyndar rýrar. En þá má skálda í eyðurnar. Laxdæla segir að Þorgerður hafi farið til Noregs og hitt þar „göfuga frændur“ sína. Þeir einu sem þar koma til greina eru ættmenn móðurföður hennar, Eyvindar austmanns. Hann er sagður frá Gautlandi sem er í Svíþjóð og þaðan fóru menn helst í Austurveg. Þess vegna geri ég Herjólf Eyvindarson að skinnakaupmanni því ég vildi senda þau til Garðaríkis.

Af Laxdælu sést að Þorgerður hefur verið mjög sjálfstæð kona, eins og hún raunar átti kyn til með þessa ömmu, því þegar maður hennar á Íslandi deyr, þá tilkynnir hún Höskuldi syni sínum að hún ætli að fara til Noregs með kaupskipi sem er í höfn í Hvammsfirði og koma aldrei aftur. Þangað hefur hún aldrei komið áður því hún kemur til Íslands frá Skotlandi.

Hann bregst tregur við en getur ekki staðið á móti henni. Þetta segir okkur að hér er á ferð mjög ákveðin kona sem fer sínu fram. Hún kemur reyndar aftur til Íslands síðar og Laxdæla gefur okkur þá skýringu að hún hafi unnað Höskuldi framar öllum öðrum. Syninum sem henni var svo slétt sama um að hún fer þegar hann er nýbúinn að missa pabba sinn.“

Ullarstafurinn með rúnaristunum sem fannst í Staraya Ladoga .

Væringjar, fjölkynngi og spuni  

„En allt í sögunni um umhverfið og kaupmennsku væringjanna er byggt á heimildum,“ segir hún. „Ég fæ svo oft hugmyndirnar í gegnum grúskið. Til dæmis hefst sagan á því að Þorgerður er að rista rúnagaldur á ullarstaf. Það er áhald sem konur höfðu þegar þær voru að spinna, og hét reyndar rokkur en það heiti færðist yfir á spunahjólið þegar það kom til landsins á 18. öld. Ullarkemban er vafin efst á stafinn og annað hvort klemmdu þær hann milli fóta sér eða hann var stuttur og þær gátu stungið honum í beltið. Síðan var lopinn teygður niður af kembunni og þráðurinn spunninn á snælduna. Þessi rúnarista Þorgerðar er leiðin að því að hún finnur bjargráð úr háskanum sem hún lendir í. Hugmyndin kviknaði þegar ég komst að því að svona ullarstafur fannst við fornleifauppgröft í Staraya Ladoga eða Aldeigju, frá tíundu öld á honum er rúnarista.

Þar er hvergi bil á milli orða og því til sex mismunandi túlkanir á hvað stendur þarna, hver annarri skrautlegri. Nýjasta greinin um rúnastafinn er eftir rússneskan málvísindamann, skrifuð árið 2016. Þegar ég las hans túlkun sá ég að það þurfti ekki nema bæta inn staf á einum eða tveimur stöðum til að þetta gæti orðið fyrirtaks galdraþula. Eitt orðanna sem hann las var merkingarleysan „ grat fibulsini“. Það varð hjá mér „grátt fimbulsinni“. Grái liturinn er nátengdur galdri og fimbulsinni er ógnarsterkur hugur sem er auðvitað lykillinn að því að geta framið seið. Þannig að þetta small.

Mig langaði samt að vita hvað þessum fræðimanni fyndist svo ég leitaði hann uppi og skrifaði honum. Hann er kominn vel yfir áttrætt, fyrrum prófessor og eitt hans helsta rannsóknarefni að auki er Samar en ég lá í lestri um menningu þeirra þegar ég skrifaði Undir Yggdrasil. Ég skrifaði honum á ensku en hann skrifaði mér til baka á þokkalegri íslensku og tók bara ljómandi vel í þetta, lagði blessun sína yfir túlkun mína og þetta gæti vel verið galdrarista. Hann hafði meira að segja skrifað grein um það efni sem því miður væri bara til á rússnesku. Þessi rúnum risti ullarstafur er á safni í Sankti Pétursborg og bíður mín þar þegar þetta fjárans stríð er búið.“

Ferðir til Orkneyja

Vilborg fer einnig með hópa á slóðir Auðar djúpúðgu. Hvernig kom það til að hún hóf fararstjórn í Skotlandi og hyggst hún kannski halda til Rússlands á slóðir Þorgerðar þegar stríðinu lýkur?

„Ég þekki mig orðið ágætlega í Skotlandi,“ segir Vilborg og hlær við. „Það væri nú gaman að fara í ferðir til Garðaríkis. En Skotlandsferðirnar komu til í framhaldi af því að ég sagði sögu Auðar djúpúðgu í tvo vetur í Landnámssetrinu í Borgarnesi hjá Kjartani Ragnars og Sigríði Margréti. Þar var fólk stöðugt að spyrja: „Hvenær ætlarðu svo að fara með okkur til Skotlands og sýna okkur þessa staði?“ Ég hafði því á endanum samband við íslensk hjón sem búa í Skotlandi, Snorra Guðmundsson og Ingu Geirsdóttur, sem reka ferðaþónustuna Skotgöngu. Þau slógu til og við skipulögðum þessar ferðir saman, um Hálöndin, út í Suðureyjar, til Kataness og Orkneyja. Þær standa í rúma viku og við gistum aldrei nema nótt á hverjum stað nema úti í Orkneyjum, þar erum við í tvær, því þar er svo margt að sjá. Við förum að vori og hausti og höldum þessu áfram meðan við höfum gaman af því og þurfum lítið sem ekkert að auglýsa. Fólk skráir sig á póstlista hjá Ingu, fær að vita dagsetningar þegar þær eru klárar og þetta selst hratt upp.

Það er mjög gaman að fara með lesendur í svona ferðir og segja þeim alls konar baksögur sem tengjast skrifunum að Auðarbókunum. Þetta er mjög skemmtileg viðbót við starf rithöfundarins sem alla jafna situr einn í vinnuherberginu með lokað að sér, og mjög gefandi að hitta fólkið sem er að skapa sögurnar með mér. Það nægir ekki að setja orð á blað. Það verður einhver að setjast með bókina, lesa söguna og skapa þennan heim með mér í eigin huga.“

Hér verður að skiljast við Vilborgu en í Landi næturinnar fá lesendur tækifæri til að fylgja Þorgerði Þorsteinsdóttur inn í ambáttarskála Hræreks jarls í Hólmgarði, sjá dansandi væringja reka skinnum klædda Grýlu af velli um jól og konur tilbiðja slöngugyðju. Kynnast valdaleysi kvenna, hvort sem er af efri stétt eða ánauðugar, samskiptum og daglegum venjum en því lýsir höfundur af einstakri natni og næmni. En lesandanum er einnig boðið í völvuferð, gandreið milli þessa heims og undirheima til þess að leita ráða hjá löngu liðnum formæðrum og fá fréttir af því sem bíður í framtíðinni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 21, 2023 07:00