Lifðu núna hefur áhuga á að kynna sér starfsemi og aðstöðu félaga eldri borgara hringinn í kringum landið. Í því skyni höfum við leitað til forsvarsmanna félaganna og beðið þá að segja frá starfseminni á sínum stað. Ásgerður Pálsdóttir formaður Félags eldri borgara í Húnaþingi ríður á vaðið.

Ásgerður Pálsdóttir
Það var á síðustu áratugum síðustu aldar að eldra fólk fór að stofna með sér félög til vinna að hagsmunamálum sínum. Af einhverjum ástæðum sem ég ekki þekki, kölluðu félögin sig félög eldri borgara og kenndu sig flest við sitt sveitarfélag.
Landssamband eldri borgara LEB, var stofnað á Akureyri 1989 af 9 félögum eldri borgara víðs vegar að af landinu.
Nú eru félög eldri borgara 57 talsins, vítt og breitt um landið, með um 35.000 félagsmenn, sem eiga aðild að landssambandinu. Aldurstakmark í félög eldri borgara er 60 ára
Núverandi félag eldri borgara í Húnaþingi var stofnað 2002. Fyrsti formaður þess var Sigursteinn Guðmundsson læknir á Blönduósi.
Hlutverk félagsins er eins og stendur í lögum þess, að vinna að hagsmunamálum félagsmanna sinna, með því að vinna að efnahagslegu öryggi aldraðra, úrbótum í húsnæðismálum, halda uppi góðu félagsstarfi, skipuleggja skemmtanir og ferðalög. Þá hefur félagið það stefnuskrá að stuðla að heilsueflingu félagsmanna.
Ég sem skrifa þennan pistil tók við formennsku Félags eldri borgara í Húnaþingi, FEBH, árið 2017 og fjalla því um starfsemina frá þeim tíma.
FEBH hefur á þessum tíma staðið fyrir lengri og skemmri ferðum á hverju ári. Styttri ferðir eru leikhúsferðir t.d. í Eyjafjörð eða Borgarnes, þar sem tekin er rúta og snætt saman, farið í leikhús og ekið heim að kvöldi. Þá hafa verið farnar dagsferðir um nálæg héruð , skoðuð söfn og fallegir staðir eða farið í heimsókn til annarra félaga. Lengri ferðir hafa verið farnar að sumrinu. Þá hafa verið farnar þriggja daga ferðir, tekin rúta og gist á góðum hótelum og fengnir staðkunnugir leiðsögumenn til að fræða okkur um svæðið. Þannig eru félagsmenn búnir að fara á Vestfirði norðanverða og sunnanverða, Norðausturland, Austfirði og Snæfellsnes. Sumarið 2025 munum við ferðast um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur.
Sveitarfélagið Húnabyggð og sveitarfélagið Skagaströnd hafa séð um félagsstarf fyrir eldra fólk þar sem fólk kemur saman og spilar eða stundar handavinnu af ýmsu tagi. Félagsmenn FEBH taka þátt í þeirri starfsemi og einnig söngstund sem er gleðistund einu sinni í viku og hana leiða tveir góðir félagsmenn og fyrrverandi tónlistarkennarar og fólk syngur af hjartans lyst ættjarðasöngva, gamla smelli frá ýmsum tímum, Villa Vill og Elly, Magga Eiríks og Megas.
Þá hefur FEBH lagt mikla áherslu á að stuðla að heilsueflingu eldra fólks og hefur staðið fyrir vikulegri leikfimi sem sjúkraþjálfari sér um í undanfarin 16 ár. Einnig hefur félagið beitt sér fyrir námskeiðahaldi í styrktarþjálfum og vatnsleikfimi.
Þá eru jólahlaðborð og þorrablót.
Nú er á dagskrá að halda vorfagnað í byrjun maí og fá þá með okkur félög eldri borgara í nágrenninu, í V. Hún og Skagafirði. Þar munum við eiga góða stund , borða saman, syngja, spjalla og dansa inn í sumarið. Við vonum öll að það verði gott, við eigum inni eitt stykki sumar, því sumarið 2024 kom aldrei.
FEBH hefur með þáttöku í öldungaráði sveitarfélagsins lagt áherslu á bætta þjónustu við eldra fólk í héraðinu og nauðsyn þess að fyrir hendi sé fjölbreytt húsnæði sem stuðli að því að fólk geti verið sem lengst heima og með því nást tvö stór markmið: Annars vegar meiri lífsgæði fyrir fólkið og hins vegar sparnaður ríkis og sveitarfélaga. Það er einnig nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög stórauki samvinnu sína í öldrunarþjónustu og nú eru nokkur sveitarfélög með tilraunaverkefni í þá veru í tengslum við verkefnið Gott að eldast, sem er samvinnuverkefni stjórnvalda og hagsmunaaðila m.a. LEB.
Það hefur af mörgum verið álitið að eldra fólk 67+ sem hefur lokið sinni starfsævi sé einhver byrði á samfélaginu. Í tengslum við verkefnið Það er gott að eldast gerði KPMG úttekt á stöðu þessa hóps gagnvart sveitarfélögunum og þá kom í ljós að þessi aldurshópur skilaði tólf milljörðum meira til sveitarfélaganna með útsvari og fasteignagjöldum, heldur en það sem sveitarfélögin lögðu til í þjónustu við þennan sama hóp.
Við erum virði en ekki byrði.
Skrifað í vaxandi birtu marsmánaðar 2025 .
Ásgerður Pálsdóttir
Formaður FEBH