Á að slíta sambandi við fyrrverandi kærustu sonarins?

Fjölskylda í New York bjó við það í þrjú ár að kærasta sonarins var hluti af fjölskyldunni. Hún mætti í sunnudagsmat, afmæli, brúðkaup og jarðarfarir og eyddi sumarleyfunum með fjölskyldunni. Gifting lá í loftinu. En eftir nokkura mánaða erfiðleika í sambandinu, skildu þau að skiptum. Móðirin í fjölskyldunni var eyðilögð. „Mér finnst eins og ég hafi misst dóttur mína“, sagði hún.  Þannig hefst grein á aarp.org  systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum, en greinin er eftir Mary W. Quigley, sem er blaðamaður og rithöfundur. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Líka erfitt fyrir foreldrana

Það er erfitt að slíta sambandi, ekki bara fyrir unga fólkið. Margir foreldrar bindast kærustum barnanna sinna tilfinningaböndum. Stundum hafa þau þekkt kærastann eða kærustuna alveg frá því þau voru krakkar, eða að parið hefur búið saman eins og  gift,  þannig að þetta fólk hefur verið hluti af fjölskyldunni. Stundum óttast foreldrarnir líka að barnið þeirra mundi aldrei finna jafn góðan maka aftur. „Sérstaklega ef þeir eru farnir að bíða eftir barnabörnum“ er haft eftir sálfræðingi í greininni.

Foreldrar eiga alltaf að standa með barninu sínu

En hvað eiga foreldarnir að gera? Þurrka fyrrverandi kærstann/kærustuna út úr minninu? Hafa samband til að kveðja? Segja uppkomna barninu sínu að það sé að gera stórfelld mistök?  Fjölskylduráðgjafi að nafni Griffith sem rætt er við í greininni, segir að foreldrar verði alltaf að standa með barninu sínu, jafnvel þó þeim finnist það hafa verið alger vitleysa að slíta sambandinu við kærustuna eða kærastann.

Betra að ræða við vini og vandamenn

Griffith, sem starfar einmitt með ungu fólki á stofunni sinni, segir að sambandsslit geti verið tímabil sorgar, uppnáms og aðlögunar, fyrir parið. Ef foreldrarnir þurfi að tjá sig um málið, sé best að ræða tilfinningar sínar við vini og vandamenn, ekki við barnið sem á í hlut. „Foreldrar þurfa að gefa sér tíma til að syrgja, aðlagast og halda svo áfram til að geta gefið næsta sambandi barnsins rúm í hjarta sínu“,segir hún.

Leitaðu álits hjá barninu

Þó foreldrarnir þurfi ekki endilega að taka fyrrverandi út af vinalistanum á Facebook, er þeim ekki ráðlagt að leggja mikið á sig til að vera í sambandi við hann eða hana. Ef sambandið heldur áfram getur það valdið bæði foreldrum og uppkomna barninu sem skildi, tilfinninglegri togstreitu. Ef fólki finnst óbærilegt að hafa ekkert samband við fyrrverandi unnustann eða unnustuna, leggur Griffith það til að foreldrarnir sendi kort og óski honum eða henni góðs gengis. En ef kort virðist of ópersónulegt, ráðleggur hún foreldrunum eftirfarandi.

Spurðu barnið þitt álits. Hvað finnst syni þínum eða dóttur um að þú haldir sambandinu áfram. Útskýrðu hvað það sé erfitt fyrir þig að loka á svo langt tilfinningasamband. „Sumum börnum er hjartanlega sama“, segir Griffith „ Á meðan aðrir komast í uppnám og finnst að foreldrarnir hafi snúið baki við þeim.

Gefðu málinu tíma. Ef fullorðna barnið bregst við á neikvæðan máta, er rétt að bíða í einn til tvo mánuði á meðan mesta tilfinningarótið gengur yfir. Að þeim tíma liðnum er rétt að spyrja aftur. En ekki setja þrýsting á barnið.

Fáðu grænt ljós. Ef barnið þitt setur sig ekki á móti því, hringdu í fyrrverandi kærustuna eða kærastann. Segðu að þér finnist þeta döpur endalok, að þú munir sakna hans/hennar og að þú vonir að leiðir ykkar eigi eftir að liggja saman síðar.

„En að lokum, gættu þess að lenda ekki í hlutverki þess sem klemmist á milli“, segir Griffith. „Ef unnustan eða unnustinn fyrrverandi hringir og biður þig að leggja inn gott orð fyrir hann eða hana, hjá dóttur þinni eða syni. Ekki gera það. Útkoman úr slíku getur orðið hörmuleg.

 

 

Ritstjórn september 19, 2017 13:51