Að hitta nýjan kærasta eða kærustu barnanna

Þó uppkomnu börnin okkar setji allt um ástarlíf sitt á Instagram og Snapchat er ekki víst að við fréttum neitt af því. Ég þekki fjölskyldu þar sem tvö uppkomin börn  settu sér svokallaða þriggja mánaða reglu. Þ.e. að segja mömmu ekki frá nýju sambandi fyrr en eftir þrjá mánuði, því annars fer hún að spyrja of nærgöngulla spurninga. Á þremur mánuðum kemur hins vegar í ljós hvort nýtt ástarsamband á framtíðina fyrir sér. Þannig hljóðar upphafið að grein á aarp.org, systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum, sem fylgir hér í lauslegri þýðingu.

En burtséð frá hvað uppkomnu börnin ákveða að segja foreldrum sínum um ástarsambönd sín, þá er það víst að á síðasta áratug hefur margt breyst í því hvernig fólk kynnist. Eins og í öllu öðru nota uppkomnu börnin okkar netið, þegar kemur að því að finna kærasta eða kærustur, sama hvort það er bara fyrir nóttina eða til frambúðar. Ný Pew skoðanakönnun sýnir að næstum þriðjungur unga fólksins notaði stefnumótasíður á netinu til að hitta nýja félaga. Stundum finnst fólki erfitt að segja foreldrum sínum að það hafi fundið sína heittelskuðu á netinu. En þá koma þessi rök. Er eitthvað betra eða verra að kynnast fólki á netinu, en á bar?

Sá dagur mun hins vegar renna upp, þegar þú verður kynnt fyrir nýju kærustunni eða kærastanum. „Og þegar að því kemur skulið þið taka nýja sambandinu með ró“ segir sálfræðingur sem rætt er við í greininni. „Ekki fara á bólakaf inn í þetta nýja samband barnanna. Það veit enginn hvort sambandið endist. Uppkomin börn vilja líka, gjarnan geðjast foreldrum sínum og ef þeir eru yfir sig spenntir yfir nýjum vini eða vinkonu, þá hangir barnið jafnvel í sambandinu þó það gangi ekki vel, einungis til að gera foreldrum sínum til geðs.

Þessu fylgja svo nokkur ráð frá sálfræðingnum, um það hvernig best er að haga hlutunum, þegar uppkomnu börnin mæta með nýja kærustu eða kærasta og kynna fyrir foreldrunum.

Óformlegt spjall. Spurðu barnið í rólegheitum hvernig hann eða hún hittu nýja kærastann eða kærustuna. Hafðu spurningarnar opnar og mundu að þetta er ekki yfirheyrsla. Þú ert bara að reyna að fá einhverja tilfinningu fyrir því hver þessi nýja manneskja er og hvers vegna barnið þitt er hrifið af henni.

Stefnumót á netinu? Ef þér finnst hrikalegt að barnið hafi hitt einhvern á netinu, ekki fárast yfir því. Þannig gerast kaupin á eyrinni í dag. Þetta er allt öðruvísi en þegar við vorum ung.

Hvar á að hitta nýja parið?  Þú skalt ekki gera of mikið mál úr þessum hittingi og þess vegna er sniðugt að velja hlutlausan stað, til dæmis veitingastað, til að hitta nýja parið. Þannig hefst fundur ykkar og endar. Klukkustund er ágætt til að byrja með og svo má lengra tímann við síðari tækifæri, ef sambandið heldur áfram.

Hver á að borga? Foreldrarnir ættu að borga. Það er þeirra hlutverk. Ef kærastinn eða kærastan vilja borga fyrir veitingarnar, segðu bara „ Við borgum núna en þú mátt borga næst“.

Meira óformlegt spjall. Bættu inn spurningum á meðan þið talið saman. Ekki fara að spyrja í smáatriðum út í fjölskyldusögu og persónulega hagi nýja vinarins eða vinkonunnar. Haltu þig við hlutlaust efni, eins og vinnu og áhugamál viðkomandi. „það er heldur ekkert að því að spyrja uppkomna barnið þitt fyrir fram, hvort það eru einhver umræðuefni sem ætti að varast“.

Ef þér líst ekki á blikuna. Ef þér líst ekkert á nýja kærastann eða kærustuna, er best að segja sem minnst. Í fyrsta lagi veistu ekkert hvort þetta samband mun endast og það að halda skoðun þinni út af fyrir þig, mun hvort eð er engu breyta.

Ef sambandið endist samt.  Barnið þitt valdi þennan einstakling af einhverjum ástæðum. Hvað er það sem hún eða hann elskar í fari kærustunnar eða kærastans? Reyndu að finna eitthvað jákvætt við viðkomandi og byggðu á því. Mergurinn málsins er sá, að þú verður að hafa eitthvert samband við þann maka sem barnið þitt velur.

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 12, 2018 11:07