Töluverð umræða hefur orðið um það í Danmörku hvort hægt sé að ætlast til þess að uppkomin börn aðstoði aldraða foreldra sína við ýmiss konar verkefni, foreldra sem séu með heimilishjálp frá sveitarfélaginu. Um þetta eru skiptar skoðanir. Sumir eldri borgarar telja að þar sem þeir hafi greitt háa skatta alla ævi, sé sjálfsagt að hið opinbera sjái um að þeir hafi viðunandi afkomu í ellinni. Uppkomnu börnin hafi nóg með sig, séu útivinnandi með börn og buru. Aðrir telja það óraunsætt að ætla að uppkomnu börnin geti verið stikk frí. Sérstaklega þar sem gríðarleg fjölgun aldraðra í Danmörku muni eiga sér stað á næstu árum, líkt og hér á Íslandi, á meðan fólki á vinnualdri fjölgi miklu minna. Danmarks Radio fjallar um þetta á vef sínum og þar segir meðal annars:
Meira en fjögur af hverjum fimm uppkomnum börnum, aðstoða foreldra sína sem eru 64 ára og eldri með ýmis viðvik, jafnvel þótt þeir séu með heimilishjálp. Þetta kemur fram í rannsókn sem Hagstofan í Danmörku gerði fyrir hagsmunasamtökin Ældresagen.
Eftir 15 ár mun fólki 65 ára og eldra fjölga um 328.000 í Danmörku, á meðan fólki á vinnualdri, sem þarf að standa undir kostnaði við þjónustuna við eldri kynslóðina, mun fjölga um 11.000. Þetta þýðir að það verða stöðugt færri skattgreiðendur sem þurfa að standa undir kostnaði við þá þjónustu sem elstu borgararnir þarfnast.
Ýmir telja að aðstandendur geti ekki skorast undan að hjálpa eldri kynslóðinni, þegar hún fer að þarfnast aðstoðar. Aðrir telja slæmt ef ríkið geri ráð fyrir aðstandendum í öldrunarþjónustunni. Þeir benda á að allir, ungir sem aldnir, greiði skatta til hins opinbera og einnig að það eigi ekki allir eldri borgarar aðstandendur sem geti hjálpað þeim. En lítum á helstu niðurstöðurnar í könnun Hagstofunnar dönsku.
83% af uppkomnum börnum fólks sem er 64 ára og eldra aðstoða föður sinn eða móður, jafnvel þótt þau fái heimilishjálp frá sveitarfélaginu.
Uppkomin börn styðja og hvetja foreldra sína (80%), keyra þá ýmissa erinda (78%), aðstoða þá við heimilisverk og innkaup (73%), fara með þeim í læknisheimsóknir (70%) og fleira sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan .
43% segja að þessi hjálp hafi komið niður á vinnunni og 33% hafa neitað stöðuhækkunum vegna þess að þeir þurfa að aðstoða foreldra sína.