Að vera foreldri uppkominna barna getur tekið á

Manstu þegar fyrsta barnið þitt fæddist? Það er erfitt að lýsa þeirri sterku tilfinningu sem hellist yfir okkur þegar við eignumst börn en hún verður okkar leiðarljós í uppeldinu. Flestir vilja ala börnin sín vel upp og margir fórna ýmsu til þess.

Þegar börnin eru lítil

Höfundur þessarar greinar á vefnum sixtyandme, á tvo syni á fertugsaldri. Hún sér tímann þegar þeir voru litlir í hillingum. Þegar hún faðmaði þá og veitti þeim alla þá ást og umhyggju sem hún gat. Það komu stundum upp vandamál, til dæmis varðandi skólagönguna, vinina, íþróttirnar og stundum urðu slagsmál. En heimilið var griðarstaður og þar leystust einhvern veginn öll mál. Það kom henni á óvart að upplifa angist þegar drengirnir hennar voru farnir að heiman. Ekki vegna þess að þeir væru farnir, heldur vegna þeirra ákvarðana sem þeir tóku í lífinu.

Öðruvísi með fullorðnu börnin

Það er enn þannig að við  berum sömu tilfinningar til barnanna og þegar þau voru lítil, en nú tjáum við þær á annan hátt. Sem foreldri fertugra og fimmtugra barna þarf maður að leita jafnvægis. Það er ekki lengur verið að knúsa börnin, elda mat fyrir þau og segja þeim hvað þau eigi að gera þann daginn.

En eiga foreldrar uppkominna barna að veita leiðbeiningar eða halda sig alveg til hlés og horfa aðgerðarlausir á börnin sín gera afdrifarík mistök í lífinu sem munu valda þeim skaða í framtíðinni?

Það er erfitt að finna jafnvægið. Hvernig á að styðja þau og sýna jafnframt kærleika og virðingu? Það er svo auðvelt að ganga of langt. „Þú spyrð of mikið, þú hefur of miklar skoðanir, þú skiptir þér of mikið af“, segja þau og skilaboðin eru skýr. Slepptu takinu. Það reyna foreldrarnir yfirleitt að gera þegar börnin verða fullorðin og fylgjast síðan með þeim velja sínar leiðir í lífinu. Stundum gera þau hrikaleg mistök og þá þjást foreldrarnir, rétt eins og þeir hafi gert mistökin sjálfir.

Áhyggjur af vali uppkomnu barnanna

Höfundurinn greinir frá því að móðir nokkur hafi sagt sér frá því þegar sonur hennar og kærastan hans hafi komið í heimsókn til að segja henni frá því að þau ætluðu að eignast barn og það strax. Þau vildu ekki bíða með barneignir á meðan þau kæmu sér fyrir og tryggðu stöðu sína betur fjárhagslega. Þau sögðu bara „Lífið er stutt og nú ætlum við að stofna fjölskyldu“.

Móðirin benti þeim á að það gæti orðið erfitt fyrir þau að eignast barn svona fljótt, en reyndi jafnframt að vera hlutlaus og styðja þau í því sem þau vildu gera. Henni fannst sonur sinn ekki tilbúinn til að axla þá ábyrgð að verða foreldri.

Þetta reyndist ekki farsæl ákvörðun fyrir unga parið og litla ömmustelpan hennar elst upp með fráskildum foreldrum og flakkar á milli þeirra. Ömmunni finnst erfitt að horfa uppá þessa ákvörðun sonarins.

Erfitt að sleppa takinu

Höfundurinn ræddi einnig við föður föngulegrar uppkominnar dóttur. Einhverra hluta vegna hafði hún ekki borið sig eftir störfum sem gáfu henni það miklar tekjur í aðra hönd að hún gæti framfleytt sér. Nýlega hafði hún svo tekið sig til og flutt í annað fylki.

Starfið sem hún hafði ráðið sig í brást, aðstæður hennar voru bágar og fjárhagurinn sömuleiðis. Þessi faðir reyndi að vera í sambandi við dóttur sína, hvetja hana og hlusta á hana í löngum símtölum. Hún lét hins vegar sárasjaldan í sér heyra að fyrra bragði og svaraði ekki skilaboðum hans. Hann er stöðugt að hugsa um hvort það sé allt í lagi með hana, hvort hún eigi fyrir mat og hvað sé eiginlega að gerast í lífi hennar? Hann er mjög áhyggjufullur.

Ásakanir geta verið erfiðar

Elsti sonur minn er orðinn fjölskyldufaðir, segir greinarhöfundur. Stundum þegar þau hittast hefur hann orðið æstur og hikar þá ekki við að fara yfir mistökin sem henni hafi orðið á í uppeldinu. Hann telur þau ástæðu þess að hann hafi klúðrað ákveðnum málum í lífi sínu.

Við höfum afar mismunandi minningar um þessi uppeldismistök fortíðarinnar, heldur höfundurinn áfram.  Ég lagði mikla vinnu í að undirbúa þær ákvarðanir sem um ræðir. Særindin sem hann hefur valdið mér með þesasri upprifjun rista djúpt, vegna þess að nú er hann sjálfur orðinn faðir.  Ég veit að hann mun átta sig á því þegar fram líða stundir að ekkert foreldri er fullkomið. En allir gera sitt besta miðað við þá þekkingu sem þeir hafa og þær aðstæður sem þeir búa við.

Eftirsjá foreldra

Þegar ég var á þrítugsaldri, sagði mamma við mig að hún óskaði þess að hún hefði aldrei eignast börn. Það var sárt að heyra hana segja þetta og það tók mig langan tíma að skilja það. Hún eignaðist sex börn sem elskuðu hana öll og eyddu drjúgum tíma með henni til að sýna henni það.  En þegar ég horfi tilbaka skil ég hvað hún var að glíma við. Fullorðnu börnin hennar völdu leiðir í lífinu sem henni hefði aldrei dottið í hug að feta. Hún var að berjast við sársaukann og áhyggjurnar sem geta fylgt því að vera foreldri uppkominna barna.

Blendnar tilfinningar í garð uppkominna barna

Ef þú kannast við þessar sögur, eru fleiri í sömu sporum. Menn upplifa kvíða, varnarleysi og áhyggjur af uppkomnu börnunum sínum. Sumir standa líka frammi fyrir því að uppkomnu börnin slíta sambandi við þá. Stundum vita menn hvers vegna en stundum ekki.

Við horfum á aðrar fjölskyldur sem eiga uppkomin börn sem blómstra og gera það gott, og veltum fyrir okkur hvort okkur hafi mistekist að ala upp börnin okkar. Hvað var það sem brást í uppeldinu þegar þau voru lítil? Hvað hefðum við getað gert betur?

Sannleikurinn er sá að stundum gerðum við mistök. Við erum bara manneskjur, að ala upp börn. Við erum ekki fullkomin og það eru aðrir foreldrar og fjölskyldur ekki heldur. Við gerðum okkar besta miðað við aðstæður og meira er ekki hægt að gera.

Að gefast upp og draga sig í hlé

Lykillinn að því að farast ekki úr áhyggjum af uppkomnu börnunum felst í orðunum Gefist upp. Þegar börnin eru orðin fullorðið fólk, sleppum þá takinu og hættum að hafa áhyggjur af því hvernig þau lifa lífinu. En hvernig á að gefast upp? Fyrsta skrefið er að segja skoðun sína umbúðalaust ef maður er spurður – í rólegheitum og án þess að dæma. Síðan að láta slag standa og skipta sér ekki frekar af því hvað þau gera með hana. Þetta er þeirra líf og þeirra val. Þegar foreldrar hafa komið með sín sjónarmið eiga þeir að láta gott heita.

Uppkomnu börnin okkar hafa sín markmið í lífinu. Þau eru fullorðin og verða að taka ákvarðanir sem stundum ganga upp, en geta líka stundum mistekist svo herfilega að þau læra sína lexíu af því. Þetta er þeirra líf og þau verða að lifa því.

 

 

Ritstjórn júní 29, 2023 07:00