Að eiga afmæli á jóladag

Mynd tekin 1966. Frá vinstri talið Atli bróðir Bjarna, Kristín Þóra systir hans í fangi Sigurrósar Guðlaugsdóttur ömmu, Bjössi frændi, Bjarni Sæmundsson afi með alnafna sinn í fanginu og sjálfur er Bjarni lengst til hægri og horfir  afglapalega út í loftið að eigin sögn.

“Mér þótti óneitanlega kostur að eiga afmæli á jóladag þegar ég var barn,” segir Bjarni Harðarson bóksali og fyrrum þingmaður. “Það er nefnilega þannig að börn geta ekki beðið eftir að rífa jólapakkana upp á aðfangadag og svo fylgir þessi tómleikatilfinning þegar það er búið. Ég var alveg eins en þá man ég að ég hugsaði alltaf að þetta væri allt í lagi af því ég fengi fleiri pakka á morgun,” bætir hann við og hlær.

“En svo eftir að ég náði fullorðinsárum hefur mér þótt afar þægilegt að eiga afmæli þennan dag því þá hef ég eiginlega sloppið við þetta vesen sem afmælisdögum fylgir gjarnan. Fyrir svona átjándu aldar mann eins og mig er bara erfitt að þurfa að halda upp á afmælið sitt ár eftir ár. Það á í raun bara að vera fyrir kóngafólk að eiga afmæli,” segir Bjarni og hlær. En hann segir að enn þá sé þetta þannig að hann fái alltaf pakka á jóladagsmorgunn og þykir það mjög notalegt.

Svo segir Bjarni frá því að afi hans, sem hann heitir í höfuðið á, hafi alltaf komið í heimsókn á jóladag. “Við vorum þrjú systkinin og ég er í miðjunni og þau eiga afmæli í janúar. Mér þótti þessi afi minn alltaf vera mikill karakter og mikil barnagæla. Mér var seinna bent á að ég hafi líklegast verið í miklu uppáhaldi hjá honum vegna nafnsins,” segir Bjarni og hlær. “Aðrir upplifðu hann ekki alveg eins og ég. Það var örugglega langt út fyrir hans ramma að kaupa gjafir og pakka inn, það var verk ömmu, en hann kom alltaf á hækjunum í heimsókn á jóladag. Við systkinin vorum gjarnan að leika okkur á afmælisdaginn minn og þá tók afi þúsundkrónaseðil  upp úr veskinu og það gerðist ár eftir ár. Hann hafði alltaf sama formálann um að það væri ekki hægt að skipta þessu jafnt af því við vorum þrjú en einingarnar tíu. Þess vegna ætti ég að fá einum fleiri af því ég ætti afmæli þennan dag. Þau fengu þá bara þrjú hundruð hvort en ég fékk fjögur hundruð. Þannig að það voru ýmsir kostir við að eiga afmæli þennan dag. Ég setti þetta sem sagt alltaf í samhengi við afmælið að ég fékk meira en hinir og annað var aldrei sannað.”

Bjarni segir að þessi afi hans hafi verið mikil fyrirmynd fyrir hann. “Hann lagði sig í framkróka um að kenna mér að vera skrýtinn og það tókst. Hann var þessi týpa sem iðkaði sérvisku. Ég dvaldi oft hjá þeim í Hveragerði og eitt sinn var ég að lesa skáldsögu eftir Jules Vernes þegar afi kom og sló með hækjunni undir kjölinn á bókinni sem þeyttist út í vegg. Hann spurði hvaða vitleysu ég væri að lesa þarna, fór í bókaskápinn og náði í stóran bunka af “Íslenskri fyndni”. Við settumst þá hvor á móti öðrum og lásum saman íslenska fyndni. Ég er enn að lesa þessi hefti eftir rúmlega hálfa öld og enn að reyna að átta mig á hvað er fyndið við þau. En það er svo merkilegt að þau eru ávanabindandi.” segir Bjarni hlæjandi  og ætlar halda áfram að vera skrýtinn.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn desember 25, 2020 10:48