Jólin,jólin alls staðar sungu systkinin Ellý og Vilhjálmur og nú er gaman að kynna sér hvað það er sem kemur fólki í jólaskap. Þegar Anna Kristine var barn komu jólin með eplakassa frá ömmu hennar og afa í Tékkóslóvakíu sem hún hafði aldrei séð, enda landið lokað. Núna er það ilmurinn frá tékkneska salatinu,zelí,sem hún býr til fyrir sig og systur sínar. En hvaða siði og hefðir hefur fólk tekið með sér yfir á fullorðinsár? Anna Kristine spurði Þuríði Sigurðardóttur söngkonu og myndlistarmann.
Þuríður, hvaða jólahefðir frá bernsku þykir þér vænst um?
Þegar fjölskyldan kom saman framan við útvarpið í Laugarnesi og hlustaði á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin kl 18:00 á aðfangadagskvöld. Í framhaldi óskuðum við hvert öðru gleðilegra jóla með kossi. Við vorum átta. Eftir klukkurnar var gengið til borðs, við borðuðum rjúpur með rjómasósu og brúnuðum kartöflum og í eftirétt voru niðursoðnir ávextir og þeyttur rjómi. Messan í útvarpinu hljómaði undir borðhaldinu.
Fluttirðu þennan sið með þér þegar þú fórst að búa?
Já, en í stað niðursoðnu ávaxtanna borðum við sítrónufromage í eftirrétt. Meðlætið hefur líka breyst.
Eru einhverjar hefðir og siðir sem eru ómissandi hjá þér um jól?
Að vakna á Jóladagsmorgun á undan fjölskyldunni og færa þeim súkkulaði með þeyttum rjóma, smákökur og lagkökur í rúmið. Þetta gerðu mamma og mamma hennar og mér þykir vænt um þessa hefð. Og ég elska jólakort, sem við lesuma saman á aðfangadagskvöld eftir gjafir, eða á Þorláksmessu ef við eigum von á mörgum í mat.
Hefurðu haldið jól annars staðar en á Íslandi?
Nei, hef aldrei getað hugsað mér að vera að heiman um jól
Hvað skiptir þig mestu um hátíðirnar
Fjölskyldan mín,
Fylgirðu tískustraumum í jólahaldi?
Það held ég ekki. Allt ósköp hefðbundið.
Nú ert þú ein af þessum konum sem alltaf geislar. Ertu líka mikið að stússa fyrir jólin?
Já, elskan mín, ég þarf helst að gera allt sjálf og á aðventunni byrja ég hreingerningaæðið, sem hefst með gluggaþvotti áður en jólaskrautið fer upp hægt og hægt. Hreingerningastuðulinn hefur samt lækkað með árunum alveg niður í það að láta skápa, loft og veggi eiga sig….að mestu.
En desember er ekki bara jólamánuður hjá Þuríði og fjölskyldu.
Desember er afmælismánuður í fjölskyldunni. Maðurinn minn Friðrik Friðriksson á afmælið 2. desember, sem er líka brúðkaupsdagurinn okkar. Svo á yngri sonurinn Erling Valur afmæli þann 18. Við höldum gjarnan uppá daginn með sonum okkar og fjölskyldum. Pabbi og systir mín, sem bæði eru látin áttu afmæli 4. desember. Ég heimsæki leiðin þeirra með skreytingar og kertaljós.
Sendið þið jólakort?
Já. Jólakortin sem við sendum eru með mynd af málverki eftir mig, eitthvað sem við byrjuðum á þegar ég var í Listaháskólanum. Friðrik sér um prentunina en ég um að skrifa kortin, oftast við kertaljós og jólatónlist, stundum í sumarbústaðnum. Ég baka smákökur á aðventunni, barnabörnin skreyta piparkökurnar og við förum alltaf í fjölskylduferð til að kaupa jólatré. Undanfarin ár í Skógrækt Hafnarfjarðar við Kaldárselsveg en þar er boðið uppá fallega stemningu, ljúfa afgreiðslu félagsmanna og kertaljós, súkkulaði og smákökur inní bjálkakofa að loknum kaupum. Ég hef verið með furu frá því ég fór að búa, utan einu sinni þegar furan seldist upp. Þegar við vorum búin að velja fallega vaxið, fullkomið blágreni, sagði Erling Valur, sem var vanur kræklóttri furunni: Þetta er ekki jólatré! Við skreytum jólatréð á Þorláksmessu með sama gamla skrautinu, sumt sem ég hef gert sjálf, annað keypt. Undanfarin ár höfum við farið í skötu til vinafólks að kvöldi Þorláksmessu en þegar synirnir voru heima fórum við gjarnan á Laugaveginn til að upplifa stemninguna „inní Reykjavík“.
Sækið þið tónleika á aðventunni?
Við förum gjarnan á tónleika á aðventunni, alls konar tónleika. Í ár söng ég sjálf á þrennum tónleikum Geirs Ólafssonar og þar kom eldri sonurinn Sigurður Helgi einnig við sögu.
Hvernig er aðfangadagur hjá þér?
Ég sýð rauðkál snemma á aðfangadag og baka hveitikökur, sem eru ómissandi með hangikjötinu, sem býður gesta sem koma í hádeginu á aðfangadag, siður sem varð til þegar synirnir voru litlir og fólk var að koma með jólagjafir. Ég geri líka síldarsalöt, fyrirfram og gref stundum lax. Waldorf salat er ómissandi með rjúpunni og það geri ég áður en við byrjum að smjörsteikja rjúpuna en með því hefjast mín jól, þegar ilminn leggur um húsið.
Á Jóladag erum við gjarnan með svínahrygg og þar er bóndinn á heimavelli og leggur mikið upp úr stökkri puru með öllum tiltækum ráðum. Meðlætið sé ég um, sósu, gratineraðar kartöflur og brokkoli og beikonsalat. Þá er oft mannmargt og ekki bara nánasta fjölskylda. Í eftirrétt er Pavlova með ferskum ávöxtum og berjum.
Annar í jólum er oftast frekar frjálslegur og engar fastar hefðir, segir þessi yndislega kona að lokum.