Það er ekkert sérstaklega gaman að vera í yfirfullum verslunarmiðstöðvum þegar líða fer að jólum. Mörgum finnst það raunar mjög stressandi og þreytandi. Sumir hafa þann háttinn á að kaupa jólagjafir jafnt og þétt yfir árið og eru búnir að kaupa allar gjafirnar og pakka þeim inn þegar aðventan hefst. Þeir eru hins vegar örugglega fleiri sem eiga allt eftir. Á vefnum aarp.org er að finna nokkur ráð um hvernig best sé að haga sér í jólaösinni án þess að tapa sjálfum sér.
Ekki eyða tímanum í að keyra um bílastæðin umhverfis verslunarmiðstöðvarnar í von um að finna laust stæði. Leggðu í næstu götum og njóttu þess að ganga. Ganga losar um stress og lætur fólki líða betur. Þegar komið er inn ætti fólk að ganga upp rúllustigana eða stigana. Það er hressandi hreyfing. Með því að gera hlutina á þennan hátt bætir þú líkamsrækt ómeðvitað inn í verslunarferðina.
Ekki fara svangur af stað. Fáðu þér eitthvað hollt sem fyllir upp í magann. Þannig er auðveldara að standast freistandi tilboð um súkkulaði- eða konfektmola í verslunum. Sé of mikið borðað af slíku gúmmilaði hækkar blóðsykurinn ört en fellur síðan aftur snögglega og þá upplifir fólk sig þeytt og orkulaust. Takið með ykkur flösku af vatni og drekkið reglulega af henni. Svo er sniðugt að vera með eitthvað nasl til að grípa í próteinstykki, þurrkaða ávexti eða hnetur. Þetta hjálpar allt til að detta ekki ofan í nammiskálarnar í búðunum.
Það getur verið gaman að kaupa gjafir handa öðrum en það getur á sama tíma verið stressandi. Ekki gleyma sjálfum þér gefðu þér ofurlitla gjöf. Hún þarf ekki að vera dýr bara eitthvað sem gleður þig.