Dagleg hreyfing eflir andlega getu

Um helmingur Bandaríkjamann telur að sudoko, krossgátur og tölvuleikir viðhaldi andlegri færni þeirra en því miður er fátt sem bendir til að svo sé. Ef fólk vill viðhalda andlegri færni og minnka líkurnar á elliglöpum er einungis ein leið fær og hún er stunda reglubundna líkamsrækt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein sem Elizabeth Agnvall skirfar á vefinn aarp.org. Lifðu núna endursagði og stytti greinina.

Síðustu áratugi hafa vísindamenn öðlast nýja þekkingu á tengslum milli hreyfingar og andlegrar færni. Á sama hátt og æfingar viðhalda vöðvamassa, blóðrásinni í lagi og minnka streitu þá viðhalda æfingarnar andlegri getu, stöðva heilarýrnun og stuðla að myndun nýrra taugafruma.

Rannsóknir benda jafnvel til að fólk sem er hreyfir sig reglulega eigi síður á hættu að fá Alzheimer og aðra aldurstengda taugahrörnunarsjúkdóma, segir Arthur F. Kramer prófessor við Northeastern háskólann í Boston. Þegar við eldumst skreppur sá hluti heilans saman sem geymir minningar og tilfinningar. Þessi hluti heilans hefur verið nefndur dreki á íslensku (e hippocampus) og minnki hann getur það  leitt til ýmisskonar minnisvandamála og jafnvel elliglapa.

Kramer rannsakaði hóp kyrrsetufólks af báðum kynjum á aldrinum 50 til 80 ára. Fólkið var látið ganga eftir braut í 40 mínútur þrisvar í viku í hálft ár. Hjá báðum kynjum var mælanlegur vöxtur í  drekasvæði heilans. Til samanburðar var hópur sem stundaði engar æfingar á meðan rannsókninni stóð og hjá þeim skrapp drekinn saman. Önnur rannsókn þykir renna stoðum undir tengsl hreyfingar og andlegrar færni. Hún tók til 900 karla og kvenna sem voru í kringum sjötugt. Samkvæmt henni höfðu þeir sem æfðu greinar eins og sund, dans, hlaup, þolfimi og tóku þátt í fjallgöngum minni og andlega getu á við fólk sem var heilum áratug yngra.

Þessar rannsóknir styðja langvarandi tilgátur um tengsl hreyfingar og andlegrar heilsu. Regluleg hreifing dregur úr of háum blóðþrýstingi, æðakölkun, heldur æðum heilbrigðum og stuðlar að nægu blóðflæði til heila, segir í lok greinar Agnvall.

Ritstjórn september 6, 2016 11:37