Sú ákvörðun Gates hjónanna bandarísku, Bill og Melindu, að skilja eftir 27 ár, varð tilefni umfjöllunar vestra um hvernig á því stæði að fólk ákvæði að skilja á sextugs og sjötugs aldri eftir langt hjónaband. Fjölskyldu- og hjónabands ráðgjafi í Chicago skrifaði á sínum tíma um þetta grein á vef CNN, þar sem hann fór yfir sína reynslu af „gráum“ skilnuðum. Hér er stiklað á stóru í greininni.
Ráðgjafinn byrjar á því að lýsa hvernig fólk þekki makann sinn út og inn eftir margra áratuga hjónaband. Það þekki hans bestu og verstu hliðar. Hann greinir jafnframt frá því hvernig staða eldri hjóna hafi breyst frá því hann hóf störf. Eldra fólk hugsi öðruvísi í dag. Áður fyrr hafi fólk þraukað í hjónaböndum af ýmsum ástæðum, bara vegna þess að það var þægilegra og öruggara en að skilja. Á síðustu árum hafi fleiri eldri hjón hins vegar ákveðið að skilja, sem komi heim og saman við statistíkina í Bandaríkjunum, sem sýnir að skilnaðir fólks yfir fimmtugu hafa tvöfaldast síðan 1990.
Ráðgjafinn segir að kona sem kom til hans í skilnaðarhugleiðingum hafi sagst líta þannig á að lífið skiptist í kafla. Þó hún hafi alltaf séð fyrir sér að maðurinn sinn yrði hluti af þeim öllum, væri svo komið að hún vildi fá að skrifa næsta kafla uppá eigin spýtur eða hugsanlega einhvern tíma í framtíðinni, með nýjum maka.
Taka meðvitaða ákvörðun um að fara sitt í hvora áttina
Hjónin fjarlægjast ekki endilega smám saman lengur, heldur taka þau ákvörðun um að skilja, að sögn ráðgjafans. Þau gera sér ljóst að lífið er stutt og dýrmætt. Ef annar aðilinn er óánægður telur hann jafnvel að að makinn sé það líka og því sé eðlilegt að fara í sitt hvora áttina, til að tryggja að báðir geti aftur öðlast hamingju.
Ráðgjafinn segir að eldra fólk skoði sambandið frekar eins og það sé í dag, frekar en hvernig það var og sé ekki jafn bundið í viðjum hefðanna. Hann telur að það hafi líka breyst að fólk líti svo á að hjónaband sé til lífstíðar. Það sé ekki hefð fyrir að ræða opinberlega um vandamál í hjónabandinu, fólk hafi ýmist rætt þau við vini sína eða ráðgjafa. Kynlífið er kannski búið og sambandið ekki jafn sterkt, fólki leiðist hversdagslegt lífið og ýmsir vanar makans farab í taugarnar á því. Nú sé meira um að hjón tali saman um það sem þau eru óánægð með.
Leyndarhjúpurinn að hverfa
Hann segist hafa orðið þess var að það sé ekki lengur leyndarmál hvernig hlutirnir gangi í hjónabandinu, menn séu farnir að vera opinskárri um það. Fólk lifi lengur og líti svo á að lífið skiptist í kafla eins og konan sem áður var nefnd til sögunnar. Kaflinn frá 20 – 60 ára sé afar mikilvægur kafli, tímabilið þegar fólk átti í basli við að koma fótunum undir sig fjárhagslega, eignaðist börn og byggði upp starfsferil. Margir líta þannig á að næstu kaflar séu eðlilegt framhald með makanum. Aðrir, og þeim fer fjölgandi, eru ekki endilega vissir um að makar sem smullu saman um tvítugt, passi endilega saman þegar þeir eru orðnir fimmtugir og sextugir.
Ráðgjafinn sem hittir marga á stofunni sinni, segir mun algengara nú en áður að fólk vilji hefja nýtt líf eftir miðjan aldur. Það vilji kannski hefja nýjan starfsferil, lenda í ævintýrum annað hvort með vinum eða nýjum mökum. Menn telji þá að gleðin í hjónabandinu sé ekki lengur til staðar og vilja reyna að öðlast aftur hamingju, meðan enn er tími til.
Hvers vegna vilja konur og karlar skilja?
Karlmenn eru líklegri til að skilja, til að fara í annað samband, að sögn ráðgjafans. Þetta kemur heim og saman við sögusögnina um „Gráa fiðringinn“, þar sem karlinn fer að eltast við ungar stelpur. Þeir segja ráðgjafanum hins vegar að þeir vilji fá tækifæri til að finna ástina á nýjan leik, áður en það verði of seint.
Konur sem vilja skilnað, eru hins vegar oftast að sækjast eftir að breyta lífi sínu. Þeim finnst þær vera ungar á sextugs og sjötugsaldri og finnst eiginmennirnir orðnir gamlir og þreyttir. Þær vilja skapa sér ný tækifæri og lenda í ævintýrum. Þær stofni kannski fyrirtæki, komi sér í form eða flytji í aðra heimsálfu.
Konurnar eru því ekki endilega að sækjast eftir að komast í ný ástarsambönd, á meðan körlunum finnst ýmislegt vanta í hjónabandinu og telja að þeir geti öðlast það í nýju sambandi.
Er þetta slæmt eða gott?
Stundum ákveða hjón að halda áfram að vera í hjónabandi á meðan þau eru að koma börnunum upp. Ráðgjafinn segist þekkja dæmi um fólk sem hafi liðið illa í slíkum hjónaböndum, búið við ástleysi, einmanaleika og gremju í garð maka síns. Slíkt ástand getur verið erfitt og alls ekki víst að það hjálpi börnunum neitt, segir ráðgjafinn. Börnin vilja yfirleitt að foreldrarnir séu hamingjusamir. Ef sú er ekki raunin, skilja þau það. Heiðarlegur skilnaður er ef til vill mun betri fyrir þau.
Ef þið eruð ekki hamingjusöm í hjónabandinu
Það eru mörg tækifæri fyrir fólk að verða hamingjusamt á efri árum. Mun fleiri en foreldrakynslóð þeirra sem eru um sextugt í dag, bjó við. Ef þér er farið að leiðast í hjónabandinu, ekki slá því föstu að það sé búið, segir ráðgjafinn. Hann bendir á að það sé hægt að vinna í hjónabandinu, ef fólk talar opinskátt um tilfinningar sínar og um hvað hægt sé að gera til að gera sambandið betra.
Fólk getur minnkað við sig vinnu til að verja meiri tíma saman. Telji það að hægt sé að bjarga hjónabandinu þarf að vinna í því og gott að fá til þess aðstoð ef þörf er á, að sögn hans.
Ef fólk er hins vegar þeirrar skoðunar að hjónabandinu sé ekki viðbjargandi, mælir hann með að það gefi sér tíma til að fara í rólegheitum yfir málin og ræða við makann um tilfinningar sínar, ef þess er nokkur kostur. Fara yfir lífið sem það átti saman, góðu tímana og þá slæmu, börnin, vinnuna, ástina og hamingjuna. Að því loknu er hægt að loka þessum kafla og fara í sitt hvora áttina. Bæði geta þannig hafið nýjan kafla í lífinu.