Sjálfboðavinna eldra fólks sést ekki í hagtölum

Gurðun ásamt dóttur sinni Gunnhildi Kristjánsdóttur.

Gurðun ásamt dóttur sinni Gunnhildi Kristjánsdóttur.

„Það er reiknað með því að maður sé á bakvakt alla tíð við að hjálpa börnunum og sinna um aldraða foreldra. Þess vegna finnst mér svo fyndið þegar það er talað um að fólk eigi að geta unnið lengur og þá einhverja sjálfboðavinnu,“ segir Guðrún Ágústsdóttir formaður Öldungaráðs Reykjavíkurborgar.  „Við erum í mjög mikilli sjálfboðavinnu nú þegar. Við hjálpum til við að láta hjól atvinnulífsins snúast með því gera börnunum okkar kleift að sinna vinnunni sinni betur en þau gætu ella. Við erum mörg að keyra og sækja barnabörnin í skóla og tómstundir og gætum þeirra þegar þau veikjast. Flestir reyna að létta undir með börnunum sínum eins og þeir geta. Ef þetta væri inni í hagtölum hins íslenska hagkerfis þá myndi sjást hvað það munar mikið um þetta,“ segir Guðrún.  Hún segir að henni finnist skipta máli að fólk sem komið er á ellilífeyrisaldur geti fengið launaða vinnu. Mörgum komi á óvart hversu lágur lífeyririnn er. „Fólk ætti að vera búið að gá að því en kannski vill það ekki horfast í augu við það að lífeyririnn er miklu lægri en það bjóst við. Karlar eru að vísu mun betur settir en konur. Þeir eru með hærri laun og hafa ekki rofið starfsferil sinn eins og konur þurfa gjarnan að gera. Barneignir stytta þann tíma sem konur eru að afla sér lífeyris gegnum lífeyrissjóðina,“ segir hún.

Æskudýrkun á Íslandi

Guðrún segir að ef eldra fólk mætti og gæti unnið án þess lífeyrir þess væri skertur eins mikið og nú er gert væru án efa margir til í að afla sér tekna til að komast betur af. „Ég sé til dæmis sjálfa mig alveg í þeirri stöðu að geta verið í afleysingum í gestamóttöku á hóteli.  Ég er með mikla reynslu af því að taka á móti fólki, hef verið flugfreyja, tala einhver tungumál og hef unnið í sendiráði í tíu ár.  Ég býst hins vegar við því að mér reyndist erfitt að fá slíka vinnu þó ég kæmi og byði fram starfskrafta mína. Af því að atvinnurekendur vilja yngra fólk. Það er heilmikil æskudýrkun á Íslandi. Ungt fólk er frábært en það má ekki bitna á hinum sem eru eldri. Við fáum stundum á tilfinninguna að við séum eins og afskráður ónýtur bíll. Ég vann einhvern tímann í bíladeildinni hjá Sjóvá þá var þetta hugtak notað um ónýta bíla. Afskráður ónýtur. Það þarf að breyta viðhorfi atvinnurekenda til þeirra sem eldri eru. Fólk er fullfrískt andlega og líkamlega langt fram eftir ævinni.“

Hersveit ungra eldri borgara

Nú er verið að tala um að hækka lífeyristökualdurinn og það er ekkert á móti því að skoða það segir hún. En svo má líka skoða hvort fólk má ekki, ef það vill, halda vinnunni sinni lengur eða fara í annað starf innan

Æskuvinkonurnar Birna Bjarnadóttir, Jóhanna Hauksdóttir og Guðrún.

Æskuvinkonurnar Birna Bjarnadóttir, Jóhanna Hauksdóttir og Guðrún.

sama fyrirtækis. „Fólk þarf kannski ekki að vera í sama starfi alla tíð. Fólk getur færst á milli starfa en það þarf tryggja að það sé gert á þann veg að það sé ekki niðurlægjandi fyrir fólk. Það er verið að tala um að það þurfi að flytja inn erlent starfsfólk til að mynda í ferðaþjónustu. Ég sé fyrir mér hersveit eldri borgara sem getur gengið í mjög mörg af þeim störfum sem þarf að vinna í ferðaþjónustunni og því ekki að nýta krafta þessa fólks,“ segir hún og bætir við að atvinnurekendur ættu að átta sig á að þarna sé falinn fjársjóð að finna. Þeir ættu að fara í þann gullgröft og sjá hvort eldra fólk sé ekki gjaldgengt. „Það eru fordómar gagnvart eldra fólki. Það er talið að það kunni ekki tungumál, kunni ekki á tölvur og svo framvegis. Flestir hafa hins vegar áttað sig á, að við getum svarað í síma og jafnvel hringt sjálf,“ segir Guðrún og hlær.

Eldra fólk ekki náttúrvá

Guðrún segir viðhorf til eldra fólks séu um margt undarleg. „Það er sérkennilegt þegar maður heyrir forystumenn sveitar- og bæjarfélaga tjá sig um að það sé vá fyrir dyrum því öldruðum sé að fjölga svo mikið í þeirra byggðarlagi. Ég man eftir því að hafa hlustað á háttsettan embættismann í einu af nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur segja þetta nýverið. Maður fékk á tilfinninguna að hann væri að lýsa náttúruvá, eldgosi, bráðnun jökla eða eitthvað slíkt. Það er hættulegt að búa til einn hóp úr fólki 67 ára og eldra. Margir virðast halda að þetta sé einsleitur hópur sem hafi sömu langanir og þrár og þurfi svipaða umhyggju. Allir sem hugsa vita að þannig er þetta ekki. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg sama á hvaða aldri við erum.“

Að segja þjóðinni frá

Guðrún ræktar garðinn sinn í orðsins fyllstu merkingu.

Guðrún ræktar garðinn sinn í orðsins fyllstu merkingu.

„Við þurfum að segja þjóðinni frá því að það þurfi ekki að hafa svona rosalegar áhyggjur af því að eldra fólk sé svo íþyngjandi. Miðað við aðrar þjóðir OECD, og við berum okkur gjarnan saman við þær, er þrennt sem sker sig úr á Íslandi:  Meðalaldur þjóðarinnar er mun lægri en meðal annara þjóða. Aldursamsetningin hér er mun eðlilegri en til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Í öðru lagi höfum við bæði áhuga og vinnum lengur en fólk gerir meðal annarra þjóða. Í þriðja lagi þá hefur verið skylda að borga í lífeyrissjóði frá því í upphafi níunda áratugarins. Þeir sem nú eru að komast á lífeyri hafa því greitt í lífeyrissjóði í áratugi. Þeir sem eru yngri, eru því ekki að borga okkur lífeyri – við höfum í flestum tilvikum safnað fyrir honum sjálf. Fyrir  skylduaðild að lífeyrissjóðum fór meirihluti aldraðra á lífeyri frá tryggingastofnun við 67-70 aldur. Við erum best sett af ríkjum OECD að því er varðar lífeyrissjóði.

Maður ræður hversu hratt maður eldist

,,Ég hvet alla til að nota hvert tækifæri sem gefst til að læra nýjustu tækni. Þjálfa sig á i-pad og i-phone svo dæmi séu tekin og læra meira á tölvur. Það verður sífellt ríkari krafa, að fólk kunni á þessi tæki til að geta tekið þátt í samfélaginu. Borgin hefur boðið upp á námskeið, eins Félag eldri borgara og ýmsir fleiri og ég hvet fólk til að notfæra sér það,“ segir hún og bendir á að margir eiga barnabörn sem kunna þetta og séu reiðubúin og hafi gaman af að hjálpa afa og ömmu að læra nýjustu tækni. Guðrún segir að annað sem skipti verulegu máli fyrir fólk þegar það eldist sé að huga að hreyfingu. „Við þurfum að hreyfa okkur reglulega og borða vel. Að mínu mati getum við haft alveg gífurleg áhrif á heilsu okkar þegar við erum að eldast. Maður ræður ansi miklu um það sjálfur hversu hratt maður eldist. Annað sem þarf líka að huga að, er að þjálfa heilabúið. Það þarf markvissa þjálfun alveg eins og skrokkurinn. Og eitt til sem er algert lykilatriði, það er að rækta vináttuna. Að eiga góða vini sem maður getur leitað til í blíðu og stríðu er gulls ígildi. Þeir sem voru einir og einmana þegar þeir voru ungir verða enn meira einmana þegar þeir eldast nema þeir geri eitthvað róttækt í því. Það er svo margt sem hægt er að gera, það er hægt að ganga í ferðafélög eða taka þátt í starfi félagsmiðstöðva fyrir eldri borgara. Það eru sautján félagsmiðstöðvar í borginni og þar fer fram lífleg starfsemi.“

Þeir sem búa við fátækt

Það er einn hópur sem er Guðrúnu sérlega hugleikinn og það eru þeir sem búa við fátækt á efri árum. „Fátækt einangar fólk. Fátækar konur eru fleiri en fátækir karlar. Það þarf að finna leiðir til að efnalítið fólk geti

Gurún er formaður Öldungráðs Reykjavíkur. Hér er hún með hluta stjórnarmanna, Hrafni Magnúsyni, Kjartani Magnússyni og Bryndísi Hagan.

Gurún er formaður Öldungráðs Reykjavíkur. Hér er hún með hluta stjórnarmanna, Hrafni Magnúsyni, Kjartani Magnússyni og Bryndísi Hagan.

tekið þátt í samfélaginu, geti komist í leikhús á tónleika, söfn og sýningar. Vandi kvennanna felst í því, eins og ég sagði áðan, að þær hafa oft verið styttra á vinnumarkaði en karlarnir og með lægri laun. Við þurfum því að huga að þeim og líka að innflytjendum sem eiga lítinn sem engan rétt. Við verðum alltaf að byrja á því að hugsa um þau okkar  sem eru verst sett og færa okkur svo upp tekjustigann,“ segir hún.  Það þarf að muna eftir nýju Íslendingunum og tryggja að þeir séu ekki settir til hliðar í samfélaginu af því að þeir komu hingað til að vinna á fullorðinsárum. Því má svo bæta við að Öldungaráð Reykjavíkur ætlar að gangast fyrir opnum fundi um fátækt í borginni 13. apríl næst komandi í Tjarnarsal Ráðhússins.  Þar munu fræðimenn fjalla um fátækt frá ýmsum sjónarhornum og hvað býr að baki henni.  Auk þess flytja fulltrúar þeirra flokka sem eiga sæti í borgarstjórn ávörp þar sem þeir fjalla um hvernig megi koma í veg fyrir fátækt. „Niðurstöður fundarins verða svo leiðarljós í okkar vinnu í öldungaráðinu í framtíðinni,“ segir Guðrún að lokum.

 

 

Ritstjórn mars 23, 2016 10:00