Að skipuleggja heimsóknir til afa eða ömmu

Á vefnum Heimsókn.is er hægt að halda utan um heimsóknir aðstandenda til vinar eða ættingja sem af einhverjum ástæðum þarf á sérstakri umhyggju vina og vandamanna að halda. Þetta á til að mynda við um langveikt fólk, eldra fólk sem býr heima eða er komið á dvalarheimili.  Það var Starkaður Barkarson íslenskufræðingur sem bjó til vefinn. „Amma mín var fædd 1918. Hún var 92 ára þegar hún fór á hjúkrunarheimili.  Það voru allir í fjölskyldunni stöðugt að hringjast á til að athuga hvort einhver hefði farið í heimsókn eða spyrjast fyrir um hvort einhver ætlaði að líta til hennar.  Mér datt þá hug að útbúa dagatal og setja á netið. Inn á það gat fólk skráð hvenær það hefði heimsótt hana eða hvenær það ætlaði að heimsækja hana. Mér datt svo í hug að aðrir gætu notað þetta og þróaði vefinn svo í þá mynd sem hann er nú,“ segir Starkaður.

Það er sáraeinfalt að skrá sig á Heimsókn.is. Um leið og fólk skráir ættingja sinn eða vin inn í kerfið verður það sér úti um aðgangsorð. Síðan er hægt að bjóða ættingjum og vinum að tengjast kerfinu. Fólk fær  aðgang að dagatali, dagbók og verkefnalista þar sem það getur skráð væntanlegar heimsóknir og símtöl.  Svo er hægt að rita dagbókarfærslu í kjölfar heimsóknarinnar eða símtalsins og það er líka hægt að skrá á dagatalið ef afa og ömmu, frænda eða frænku vanhagar um eitthvað sérstakt. Auk þess er hægt að halda skrá utan um lista yfir nöfn og netföng og síma tengiliða svo sem hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og fleiri og það er líka hægt að halda skrá yfir lyf sem ættinginn notar.

Það er hægt að senda póst í gegnum kerfi Heimsókn.is sem berst þá öllum ættingjum og vinum sem eru skráðir.  Kerfið sendir út póst ef of margir dagar líða án þess að ættingi hafi fengið heimsókn. Það minnir líka þá sem ætla að fara í heimsókn á að þeir eigi að mæta.

 Það má því með sanni segja að ef fólk notar vefinn einfaldi það lífið svo um munar og það kemur líka í veg fyrir að allir fari í heimsókn á sama tíma.

Það kostar ekkert að skrá sig inn á vefinn eða nota hann. Hins vegar kostar að reka vefinn og halda honum gangandi. Þeir sem vilja og geta eru því beðnir um að leggja inn á bankareikning. Nánari upplýsingar er að finna hér.

Ritstjórn mars 19, 2019 06:02