Forsætisráðherra ætlar að hitta formann Félags eldri borgara

Ellert B. Schram

Ellert B. Schram skrifar:

Eftirfarandi bréf sendi ég til forsætisráðherra, 24 janúar s.l. 

Kæra Katrín

Ég sleppi forsætisráðherratitliinum því þetta er einkabréf. Amk þessa stundina. Ég óska þér alls hins besta í ráðherrastólnum og efast ekki um að þú standir undir þessari ábyrgð.

Ég geri mér ljóst að það er í mörg horn að líta hjá þér. Í einu horninu sitja eldri borgarar, þar sem ég er formaður í félagi ellefu þúsund meðlima. Það heyrir undir  mig að passa upp á og gæta þeirra réttinda, sem eldri borgarar hafa, eða eiga að hafa.  Er sem sagt talsmaður þessa hóps, sem stækkar með hverju árinu. Þar á meðal þeir eldri borgarar sem búa við fátækt.

Lífaldur hækkar með hverju árinu. Spáð er að 65 ára og eldri fjölgi um 60% á næstu árum, í 70.000 manns. Þetta er rétt handan hornsins.

Eftir að hafa fylgst með þér, hlustað á orðræðu þína og lesið kosningaloforð þíns flokks, fer ekki á milli mála að þú sem formaður VG og forsætisráðherra, veist og skilur og styður, að það þurfi að rétta hendina til þeirra sem bágast standa. Í þjónustu, aðbúnaði, lækningum, húsnæði og réttindum.  Og síðast en ekki síst í ellilífeyrisbótum og réttlátu kerfi, sem kemur til móts við þá sem þurfa hjálp til að eiga í sig og á.

Mikilvægasta hjálparstoðin er Almannatryggingarnar. Enda þótt hæsta greiðslan hafi hækkað upp í kr. 300 þús um áramótin og frítekjumark hafi verið hækkað í 100 þús kr. er enn langt í land að kjör eldri borgara  séu viðunandi. Við erum enn að elta skottið á okkur.  Við höfum dregist niður í samanburði við aðrar þjóðir, s.s. Norðurlöndin. Þar eru útgjöld til lifeyris eldri borgara um 10%, meðan hér á Íslandi mælast útgjöld til eftirlauna 5.3% af vergri þjóðarframleiðslu.

Nýjustu mælingar sýna og segja að hver einstaklingur þurfi kr. 345 þús, pr. mánuð, til framfærslu. Að lágmarki. Við eigum enn langt í land.

Ríkisstjórnin undir þinni stjórn hefur skipað vinnuhóp, til að breyta og lagfæra vinnubrögð kjaranefndar sem gerir tillögur um himinháar hækkanir til opinberra starfsmanna, presta og fleiri, sem ekki hafa verkfallsrétt.

Eldri borgarar hafa ekki verkfallsrétt, eru ekki á dagskrá hjá kjaranefnd og hafa dregist aftur úr viðmiðum og framfærsluprósentu. Það liggur við að maður fái það á tilfinninguna að stjórnkerfið sé sífellt að reyna að spara peninga, á kostnað eldri borgara. Hækkun í síðustu fjárlögum, með hliðsjón af neysluvísitölumarkinu, hækkar ellilífeyri um 4.7%.  Og því var stungið inn í hækkunina upp í 300 þús krónurnar. Það var löðurmannlegt.

Í kosningabæklingum VG og í máltilbúnaði flokksins segir svo: „Bæta þarf kjör eldra fólks með því að hækka ellilífeyri, hann fylgi launakjörum og tryggja að enginn sé lengur undir fátæktarmörkum“.

Ég tek mark á þessari yfirlýsingu. Ég treysti því að þetta kosningaloforð hafi verið sett fram af einlægni og alvöru.  Ég beini þeirri tillögu til þín að koma til móts við þann hóp eldri borgara, sem ekki eiga til hnífs og skeiðar, með því að skipa kjaranefnd, til að fara yfir þessa stöðu og leggi fram tillögur um bætur og réttindi.

Ég er tilbúinn að eiga við þig samtal um útfærslu á skipan vinnuhópsins og hrinda þessu máli af stað.

Með bestu kveðju, skrifað 24.janúar 2018

Þinn einlægur

Ellert B Schram

 Bréfið fór ég með, samdægurs í ráðuneyti ráðherrans. Ekkert svar hefur borist.

(Athugasemd frá Lifðu núna. Bréfið frá Ellert til forsætissráðherra var birt þann 14. febrúar á vef Lifðu núna með fyrirsögninni Forsætisráðherra svarar ekki eldri borgrum. Skömmu síðar hafði ráðherrann samband við við Ellert og lýsti þeim vilja sínum að eiga fund með honum um málefni eldri borgara. Endanleg tímasetning fundarins liggur ekki fyrir.)

 

Ritstjórn febrúar 14, 2018 10:03