Söfnuðu fyrir glæsilegu félagsheimili

Það snjóaði á Húsavík þegar blaðamaður Lifðu núna hringdi þangað fyrir skömmu til að fá upplýsingar um nýtt félagsheimili Félags eldri borgara í bænum. „Það er hvítt yfir lóðunum,  þó snjóinn festi ekki á götunum þar sem bílarnir aka“, segir Lilja Skarphéðinsdóttir ljósmóðir og formaður Félags eldri borgara á Húsavík. Hún segist enn vera að vinna, þó hún hafi minnkað við sig. Hún sér um mæðravernd og ungbarnaeftirlit auk þess að vera í heimahlynningu, aðallega við aldraða.

Félag eldri borgara keypti neðri hæðina og kjallarann í þessu húsi

Keyptu húsið rúmlega fokhelt

Félag eldri borgara á Húsavík og nágrennis hefur svo sannarlega látið hendur standa fram úr ermum síðustu þrjú árin, en þá var tekin ákvörðun um að safna fyrir húsi, fyrir starfsemi félagsins. „Við vorum búin að vera á hrakhólum með húsnæði fyrir félagsstarfið okkar. Húsið var til sölu árið 2016 og við keyptum það á 32 milljónir króna. Þá var það í rúmlega fokheldu ástandi“, segir Lilja. Hún bætir við að félagsmenn hafi innréttað húsið nánast allt sjálfir, af miklum dugnaði. „Hjá okkur eru margir fagmenn, smiðir og múrarar, menn sem geta gert alla hluti. Konurnar máluðu og þrifu auk þess að hafa til meðlæti handa körlunum sem voru að vinna. Það er ennþá þannig í þessum aldurshópi“, segir hún.“Við erum ákaflega stolt af að hafa ráðist í þetta þrekvirki“.

Glæsileg aðstaða

Húsið þar sem félagið keypti bæði kjallara og neðri hæð, stendur við Garðarsbraut 44. Félagsheimilið heitir Hlynur, en það er heiti á húsgagnaverslun sem var áður í húsinu. Aðstaðan í húsinu er glæsileg. Þar er stór salur sem er meðal annars prýddur fallegum málverkum eftir listamenn frá Húsavík. Einnig eru fín eldhúsaðstaða og snyrtingar á aðalhæðinni, og salur sem félagið leigir Rauða krossinum sem stendur. Í kjallaranum eru billiard borð, pool borð, ofl. Lilja segir mikið sótt í kjallarann, sérstaklega af karlmönnunum. Núna í vor er verið að ljúka við að smíða pall við húsið, sem eykur plássið á góðviðrisdögum verulega. „Við vígðum þetta húsnæði 28.maí árið 2017, fyrir tveimur árum, og á þessu ári erum við að halda uppá 30 ára afmæli félagsins“. Lilja segir að félagið hafi safnað 5 milljónum króna meðal félagsmanna til að festa sér húsið, en hafi tekið afganginn að láni. „Svo fengum við styrki frá bænum, fyrirtækjum og einstaklingum, einkum til að gera húsið upp og eignast þann búnað sem nú prýðir þetta fallega hús“, segir hún.

Fræðslufundir og kótelettukvöld

Það er öflug starfsemi hjá Félagi eldri borgara á Húsavík, eins og á svo mörgum öðrum stöðum, en félög eldri borgara í landinu eru rúmlega 50. Það er opið hús hjá félaginu frá 13-16 alla virka daga, en Lilja segir á stefnuskránni að hafa opið frá 10-16 næsta vetur. Félagið heldur fræðslufundi á þriðjudögum sem hafa verið mjög vel sóttir. Það eru svo haldin þorrablót hjá félaginu, kótelettukvöld og kráarkvöld, að ógleymdum haustfagnaðinum.  Félagið var með afmæliskaffi á degi aldraðra, en þar var kynntur samningur sem það er að gera við sveitarfélagið, Norðurþing.  „Hann miðar að því að efla starfið enn meira, leggja áherslu á heilsueflingu og að rjúfa hugsanlega einangrun eldra fólks í bænum“, segir Lilja, en í félaginu eru nú tæplega 300 manns.

Salurinn er rúmgóður og myndir á veggjum eftir listamenn frá Húsavík

Ritstjórn júní 11, 2019 07:28