Að svara erfiðum spurningum í atvinnuviðtali

Atvinnuviðtöl geta verið  fólki erfið eftir miðjan aldur. Hér eru nokkrar erfiðar spurningar sem mörgum reynist erfitt að svara og uppástungur um hvernig hægt er að svara þeim.

Hverjar eru launakröfur þínar?

Vinnuveitendur hafa áhyggjur af því að þú krefjist hærri launa en þeir eru tilbúnir til að borga. Þeir hafa líka áhyggjur af því að þó að starfsmaðurinn ráði sig á lægri laun en hann vildi fá verði hann fljótlega óánægður og láti sig hverfa um leið og betur borguð vinna býðst. Besta svarið er að spyrja á móti hvað vinnuveitandinn sé tilbúinn að borga segir atvinnuleitarsérfræðingurinn Ronnie Ann Himmel í grein á vefnum aarp.org. Hún segir að á á þann hátt komi strax í ljós hvort þetta sé eitthvað til að semja um.

Hvers vegna viltu hætta á núverandi vinnustað eða hvers vegna hættirðu þar sem þú varst síðast?

Þessi spurning getur vakið óþægilegar tilfinningar, sérstaklega ef þú hættir eða vilt hætta af því að þér líður illa á vinnustaðnum, staða þín var lögð niður eða þú varst rekinn. Svaraðu sannleikanum samkvæmt án þess að fara út í einhverjar málalengingar en forðastu að tala illa um fyrrum eða núverandi vinnuveitendur. Það lítur ekki vel út í augum viðmælandans. Kynntu þér fyrirtækið sem þú ert að sækja um vinnu hjá og reyndu að finna eitthvað sem þér finnst áhugavert við það. Eitthvað sem ekki var til staðar á fyrri vinnustað og þú getur bent vinnuveitandanum á.

Af hverju varstu ekki í vinnu á tilteknu tímabili?

Sumir vinnuveitendur telja að tímabil án vinnu merki að enginn hafi viljað ráða þig. Útskýrðu strax hvers vegna þú varst án vinnu en leiddu svo talið að því hvaða reynslu og þekkingu þú hafir aflað þér á meðan þú varst ekki að vinna. Fylltu í eyðuna með einhverju áþreifanlegu eins og sjálfboðastarfi, skólavist eða verkefni sem þú tókst að þér fyrir sjálfa þig eða aðra, ráðleggur Himmel.

Ertu of hæf/ur í þessa stöðu?

Vinnuveitendur gætu óttast að þér bráðvanti eitthvert starf núna en lítir aðeins á það sem bráðabirgðastarf þangað til eitthvað við þitt hæfi býðst. Þeir óttast líka að þú munir passa illa á vinnustað ef þú ert sett/ur undir einhvern sem hefur talsvert minni reynslu og/eða menntun.Þegar þessar spurningar þýða að: „Þú sért of gömul/gamall eða of dýr“ er líka hugsanlegt að vinnuveitandinn telji að þú verðir fljótt leið í starfi. Himmel mælir með því að þú útskýrir hvernig fyrirtækið geti haft hag af því að ráða þig.

Af hverju ertu að leita að vinnu þegar þú ert nú þegar komin/n á eftirlaun?

Vinnuveitendur gætu óttast að þú leggir þig ekki jafn mikið fram í vinnunni eins og yngri starfsmenn. Þú þarft að sannfæra viðmælandann um að þér sé mikilvægt að taka þátt í atvinnulífinu og hvaða þýðingu vinnan hafi fyrir þig. Áskoranir, persónuleg ánægja af því að starfa með öðrum, að ná markmiðum og upplifa það að hafa lokið verkefnum, hvaðeina sem passar við þig. Bættu því svo við hvað það er sem þér finnst áhugavert við þetta starf sem þú ert að sækjast eftir, segir  Himmel að lokum.

(Grein af vef Lifðu núna)

Ritstjórn október 4, 2022 07:30