Í of góðu skapi til að mæta í vinnuna

Flestir sem komnir eru um og yfir  miðjan aldur hafa einhvern tíma  þurft að hringja í vinnuveitenda sinn og tilkynna forföll. Lifðu núna rakst á þessa bandarísku grein á síðunni CareerBuilder, í henni er að finna nokkrar drepfyndnar afsakanir fyrir því að mæta ekki í vinnuna.  Þær eru að sjálfsögðu mjög bandarískar, enda myndi Íslendingur varla tilkynna forföll í vinnu vegna þess að hann ætti enn peninga á mánudagsmorgni til að halda áfram að spila í spilavítinu.  En hérna koma afsakanirnar…

Ég þurfti að “láta laga” lýtaskurðsaðgerðina.

Ég sat svo lengi á klósettinu að fætur og fótleggir sofnuðu. Þegar ég svo stóð upp datt ég og ökklabrotnaði.

Ég hafði verið alla helgina í spílavítinu og átti ennþá peninga til að spila fyrir á mánudagsmorgninum.

Ég vaknaði í svo góðu skapi að ég gat ómögulega eyðilagt það.

Ég komst á séns og vissi ekki hvar ég var þegar ég vaknaði.

Ég var að láta mæla blóðþrýstinginn og festist í tækinu.

Ég var að láta heilarann lækna mig af gallsteinum.

Það kviknaði í einkennisbúningnum mínum þegar ég var að þurrka hann í örbylgjuofninum.

Ég fór óvart um borð í flugvél.

Þetta var meðal þess sem starfsmenn höfðu afsakað fjarvistir sínar með á þessu ári. Í fyrra voru nokkrar furðulegar. Einn maður sagðist ekki komast til vinnu vegna þess að fölsku tennurnar hans höfðu fokið úr bílnum á keyrslu. Annar sagðist vera allt of skapvondur til þess að mæta í vinu vegna þess að hann var að reyna að hætta að reykja og sá þriðji villtist á leið í vinnu og endaði á allt örðum stað en hann ætlaði. Kona nokkur kvaðst ekki komast í vinnu vegna þess að hurðir og gluggar höfðu verið límdir aftur svo hún komst ekki út úr húsinu.

Í ár könnuðu starfsmenn atvinnumiðlunarinnar hversu oft starfsmenn þykjast vera veikir og hvernig þeir afsökuðu veikindin. Samkvæmt svörum frá 5.300 starfsmönnum og stjórnendum tilkynntu 28 prósent starfsmanna veikindi þrátt fyrir að ekkert væri að þeim. Hvað skýrir slíka háttsemi? Sumir vildu slappa af eða bara sofa út og enn aðrir vildu ekki koma í vinnuna af því að það var vont veður.

 

Ritstjórn nóvember 17, 2014 10:00