Aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni sem átti að vera á fimmtudaginn 12.mars hefur verið frestað. Á stjórnarfundi í félaginu sem haldinn var í dag var ákveðið að fresta fundinum um óákveðinn tíma þar sem Almannavarnir hafa uppfært hættustig upp í neyðarstig vegna COVID-19 veirunnar. Í tilkynningu á heimasíðu FEB segir:
Athygli hefur verið vakin á því að eldri borgarar og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sé sérstakur hópur sem þarf að huga vel að í þessu sambandi. Því var ekki talið forsvaranlegt að halda aðalfund félagsins undir þessum kringumstæðum“.
Nýr formaður verður því ekki kjörinn í félaginu á fimmtudag eins og gert var ráð fyrir. Eins og fram hefur komið eru það þrír sem sækjast eftir formennsku í félaginu. Þau eru Borgþór V. Kjærnested, Haukur Arnþórsson og Ingibjörg H. Sverrisdóttir. Ekki hefur verið kosið milli einstaklinga til formennsku í félaginu áður, eftir því sem Lifðu núna kemst næst og nokkur spenna hefur legið í loftinu varðandi formannskjörið. Þá hafa 16 manns boðið sig fram í stjórn félagsins. Svo margir hafa aldrei áður boðið sig fram til forystustarfa hjá félaginu.