Áskilur sér rétt til að deyja vegna ólæknandi krabbameins

Þórlaug Ágústsdóttir

Þórlaug Ágústsdóttir

Þórlaug Ágústsdóttir tveggja barna móðir í Reykjavík, áskilur sér rétt til að deyja á eigin forsendum vegna ólæknandi krabbameins. Þórlaug sem hefur barist við krabbamein í rúm 4 ár, segir að sé dauðinn óumflýjanlegur í bráð, eigi að gera hann eins bærilegan og hægt er. Hún segir að mörgum þyki erfitt að hugsa um dauðann og forðist þann deyjandi til að þurfa ekki að hugsa um endalokin. Menn vilji helst ekkert hugsa um dauðann fyrr en komið er að honum.

Vill ekki að aðrir þurfi að gerast lögbrjótar

Þórlaug skrifaði á Facebook síðu Siðmenntar í dag, en samtökin halda málþing á morgun um líknardauða. Þórlaug segist þar áskilja sér rétt til eigin dauða og vill ekki að einhver annar þurfi að gerast lögbrjótur fyrir að aðstoða sig, eða þurfi að ganga til viðbótar í gegnum lygina sem undirbúningur að ólöglegu sjálfsvígi er.

Vald yfir eigin lífi og dauða

Þórlaug segir í samtali við Lifðu núna að hún vilji tala opið um þessi mál. Fyrir 20 árum hafi hún keppt til úrslita í Morfís keppninni þar sem umræðuefnið var líknardauði. Henni hafi fundist efnið leiðinlegt og datt ekki í hug að einn góðan veðurdag stæði hún í þessum sporum, enda fyndist unglingum þeir vera ódauðlegir. „Það er skrítið að rifja upp það sem ég sagði þá og tengja við það núna á allt annan hátt“, segir Þórlaug. Hún segir að fyrir sér sé þetta spurning um að hafa vald yfir eigin lífi og eigin dauða, sé hann óumflýjanlegur. Ef sjúkdómur sé kominn á það stig að fólk þjáist af óbærilegum kvölum og taki lyf sem sendi það út úr heiminum.

Erfitt fyrir börnin

En það sé ekki hlaupið að þessu. Það sé erfitt að gera plön þegar ekki megi tjá sig og ekki megi binda enda á lífið. „Þetta er líka erfitt fyrir börnin mín“ segir Þórlaug. Það er íþyngjandi fyrir aðstandendur að fylgjast með þessu“,segir hún og þetta er líka erfitt fyrir börnin mín. Vill maður ekki hafa val um hvað maður leggur á þau? Hún segist viðurkenna að vera búin að safna morfíni og sprautum. Það megi ekki ræða málið við heilbrigðisstarfsmenn og þeir megi ekki hjálpa til. „Þeir verða að halda í mér lífinu“, segir Þórlaug sem á tvo syni 9 og 11 ára.

Prófar óhefðbundin lyf

Þórlaug sem greindist með krabbamein árið 2010, hefur gengið í gegnum skurðaðgerðir, geislameðferðir og lyfjameðferðir. En hún fékk krabbamein í legháls sem síðan breiddist út í eitlakerfið. Hún hefur að undanförnu prófað óhefðbundin lyf og segist í raun vera gangandi kraftaverk. En hennar líf sé ákveðinn gluggi, fyrst hafi hún haft þriggja mánaða glugga en nú sé hún komin í sex mánaða glugga. Óhefðbundnu lyfin hafi hún prófað undir umsjá læknis.

Dauðinn partur af lífinu

Henni finnst að sá sem er að deyja eigi að hafa eitthvað um sitt dauðaferli að segja. „Dauðinn er alltaf sársaukafullur fyrir þá sem sitja eftir, en ef hann er óumflýjanlegur á að gera hann eins bærilegan og mögulegt er. Sjúklingurinn sem er deyjandi og aðstandendur hans ættu að hafa mest um málið að segja. Hún segir að áfallastreita og þunglyndi fylgi í kjölfar krabbameinsgreiningar og aðstandendur fái líka áfall. „En fólk skyldi ekki gleyma að dauðinn er partur af lífinu“, segir Þórlaug að lokum.

Málþing Siðmenntar um líknardauða er á Hótel Sögu í Reykjavík á morgun klukkan 17.

Ritstjórn janúar 28, 2015 16:21