„Æ, ég á eftir að sakna þín svo, Gestur“

Sextíu kíló af kjaftshöggum eftir Hallgrím Helgason er ný bók um Gest á Segulfirði, framhald bókarinnar Sextíu kíló af sólskini sem kom út fyrir þremur árum. Fyrir hana fékk Hallgrímur Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sagnagleðin svíkur ekki lesandann í  framhaldsbókinni. Þar er að finna allt sem kryddað getur eina sögu, ástir, kynlíf,pólitík, peninga, svik, baráttu, skipsstrand, morð og margt fleira sem fléttast saman í ótrúlegri frásögn Hallgríms. Grípum niður í bókina þegar Guðvarður Guðvarðsson sýslumaður frá Fagureyri kemur í heimsókn í hinn syndum spillta bæ Segulfjörð skömmu eftir aldamótin þar síðustu.

Sýslumaður hvessti augun á mannhafið sem iðaði um Eyrina og fyllti hlöð, tún og húsasund. Sjálfsagt voru hér samankomin hátt í fjögur þúsund manns á meðan íbúar í heimabæ sýslumanns voru aðeins 1 .748 samkvæmt síðasta manntali. Þessi skringilegi vettvangur var sérkennileg blanda af evrópskum orrustuvelli (vítt um grundir lágu fallnir sjómenn) og evrópskri kjötkveðjuhátíð (hér og þar lágu pör í faðmlögum). Hvorugt þekkti Guðvarður og stóð því algjörlega berskjaldaður gagnvart þessum nýja veruleika. Þetta var svo miklum mun meira en hann hafði átt von á. Allt sem hann hafði áður heyrt um Segulfjörð bliknaði í samanburðinum. Þvílíkur sollur. Og allir þessir staflar, þessi tunnufjöll! Og flotinn! Það sá vart í sjóinn fyrir siglutrjám, af þeim var heill skógur! Og hann taldi sig hafa höggvið skarð í raðir Norðmanna…

Samt sem áður pírði hann nú augun og reyndi að koma auga á stuttlegan hjólbeinóttan hreppsstjóra á ferð um þessa mannkös, eins og einmana Rauðakrossliða í miðjum Waterloobardaga, en tókst það ekki. Hins vegar komu nú skyndilega arkandi upp brekkuna tíu Norðmenn með tíu blómrjóðar heimasætur íslenskar á síðum pilsum, rétt eins og út úr síðari tíma Alpasöngleik. Þau hentu á milli sín hrópum og hlátrum, en heilsuðu herramönnunum hlæjandi pent, „god kveld“ og héldu síðan áfram upp hjá fjósinu, stefndu greinilega upp í Fanneyrarskál.

Sýslumaður kannaðist við eitt andlitið, fyrrverandi vinnukonu hjá góðkunningja hans, stórbónda í Eyrarfjarðarsveit og setti dreyrrauðan. Ungdómurinn beinlínis sleikti líf sitt upp í opið geðið á honum! Og það með útlendingum! Alfríðar íslenskar sveitastúlkur með rúfnum og rifnum útlendingum, orðnar hreinar og klárar síldarmerar.“

Lýsingarnar á því hvernig samfélagið á Segulfirði  geisist inn í nútímann eru mjög skemmtilegar og sögupersónurnar í bókinni eru fjölmargar. Minnir það helst á Guðrúnu frá Lundi. Gestur er í upphafi bókar kominn um tvítugt, er mikill kvennaljómi og fer ekki varhluta af unaði ástarinnar. Það er síldarstúlkan Anna sem fangar hjarta hans, en síldarvertíðinni lýkur og þá kemur að kveðjustund.

„Ertu þá barasta farin?“

Hann hafði aldrei áður tekið sér þetta orð, barasta“ í munn, endingin var óviljandi tjáning á óendanlegum sársauka, djöfullegur rófuendi sem stóð úr úr honum og sveiflaðist til og frá, eins og hann hefði nýgleypt rottu.

„Já“

Hún var alhrein og óskipt í kveðjugleði sinni.

„Þú lofar að skrifa mér og vera jafn skemmtilegur á pappír og þú ert í rúminu!“

Hún lækkaði róminn áður en hún sagði síðasta orðið og blikkaði hann með prakkaralegu brosi sem hefði fengið hvern mann til að klökkna. Fól sig honum síðan, tók utanum hann rétt ofan beltis og hjúfraði dökkan kollinn inn í hálsakot hans, þau féllu saman eins og púsl. „Æ, ég á eftir að sakna þín svo, Gestur.“

En nú fann hún fyrir köldu þeli hans, hún hafði lagt eyrað á hjartað og numið særokið sem þar gnauðaði. Hún hlustaði aðeins lengur, stillti andlit sitt á þungan svip, leysti sig frá honum og leit upp til hans.

„Er eitthvað að?“

Versta setning sem pör heyra. Þá jafnt sem nú“.

Ritstjórn desember 7, 2021 11:14