Ætla aldrei að hætta að lita á mér hárið

Ann Brenoff skrifaði þennan hressilega pistil, sem birtist á vefnum considerable.com. Hann fylgir hér í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Nei, grár er ekki hinn nýi svarti, þótt allir tískusérsfræðingarnir reyni að telja þér trú um það.

Ég missti minn raunverulega háralit mjög ung. Ég var tæplega tvítug, þegar ég keypti mér fyrsta háralitinn. Ég var að vonast til þess að geta notað hann til að hylja gráu hárin sem uxu svo hratt á höfðinu á mér að ég hafði ekki undan að plokka þau í burtu.

Á þeim tíma var engin hreyfing í gangi sem sagði konum, að grátt hár væri fallegt, engir sjálfskipaðir spekingar sem töluðu um kosti þess fyrir því eldri konur að leyfa hárinu að grána og finna þannig fyrir frelsi og jafnvel valdeflingu.

Þú veist um hverja ég er að tala, er það ekki?

Þetta er fólkið sem heldur því statt og stöðugt fram að eldri konur sem láta gráa hárið vaxa fram, séu sáttar við sjálfar sig og gefa í skyn að við hinar séum það ekki. Fólkið sem telur að þeir sem verða gráhærðir séu sáttari við aldurinn og að hver grár hárlokkur gefi þeim langt nef, sem halda því fram að fegurð sé það sama og æskuljómi.

Það er nefnilega það

Ég fæ þessa  frelsistilfinningu í hvert skipti sem ég set Lóreal háralit í hárið og lita gráu hárin. Mér finnst ég við stjórnvölinn í eigin lífi og ráða því hver ég er.  Sú staðreynd að það sé hægt að öðlast þessa frelsistilfinningu með því að kaupa sér háralit á 10 dollara út í búð, og fá jafnvel stundum auka afslátt uppá 2 dollara í leiðinni, er alger snilld.  Ég verð að segja að hún fullnægir mínum þörfum algerlega.

Það er ekki nóg með að ég hafi byrjað að lita á mér hárið mjög ung, ég ætla aldrei að hætta því. Ég verð gamla konan á hjúkrunarheimilinu sem notar síðustu kraftana til að spyrja hvort það sé ekki tími til kominn að setja lit í rótina.

Að verða gráhærður fyrir aldur fram er nokkuð sem fylgir minni fjölskyldu. Við Brenoff konurnar erum heilbrigðar og náum því að verða rúmlega níræðar. En við höfum háralit innan seilingar ævina á enda.

Frænka mín, sem er  búin að lita á sér hárið síðan hún var 22ja ára gömul, gerir grín að því að ef læknir myndi greina hana með krabbamein í heila, myndi hún gráta alla leiðina heim, en hún myndi samt vilja lita á sér hárið áður en hún færi í skurðaðgerðina. Henni myndi líða betur með það. Ég skil þetta fullkomlega, mér líður alltaf betur ef ég fel gráu hárin, það er sama hvernig aðstæðurnar eru.

Karlmenn sem lita á sér hárið, hafa heldur farið varhluta af ávítum frá Gráa hárs lögreglunnar.

Meira að segja karlatímaritið Men´s Journal tekur þátt í þessum árróðri og segir við karlmenn  „Grátt hár er hluti af því að eldast, það er flott, það er sexý og fólki líkar það“. Já þetta er alveg rétt – ef þú ert George Clooney eða Anderson Cooper.

En það er ástæða fyrir því að ég er ekki hrifin af gráu hári. Það er þannig með mig, eins og marga af eldri kynslóðinni að grátt hár fer mér ekki vel. Gott og vel, gráir lokkar eru smart á ungu fólki. Það segir sína sögu að á Instagram #GrannyHair, eru 325.000 póstar, en þegar grannt er skoðað eru þar engar raunverulegar ömmur á ferð.

Grátt hár getur verið mjög flott á einhverjum sem hefur haft fyrir því að lita það grátt, en er ekki jafn flott á þeim sem fá það óviljandi. Sérstaklega ekki ef hrukkur, undirhökur og augabrúnir sem eru að þynnast, slást í för.

Hvað mig áhrærir, þá hef ég ekki húðlit sem fer ekki vel með gráu hári. Ég er föl og hef þannig litarhátt að fólk spyr mig hversu lengi ég sé búin að vera veik, ef ég gleymi að setja á mig varalitinn. Þegar fer að glitta í gráa litinn í hárinu á mér, lít ég út fyrir að vera úrvinda, þreytt og veikburða.

Ég kalla þessa daga frúar dagana mína, vegna þess að þá ávarpar starfsfólkið í matvörubúðinni mig frú og spyr hvort ég þurfi ekki aðstoð við að koma vörunum út í bíl?  Kannski þetta sé ástæðan fyrir því að ég, sem er 68 ára, lita á mér hárið. Af því ég vil sýna heiminum að ég geti ennþá  haldið á matarpokunum mínum út í bíl. Hver veit? Sannleikurinn er sá að ég lita ekki á mér hárið til að leyna því hvað ég er gömul. Ég lita það ekki vegna þess að ég sé í afneitun varðandi aldurinn. Ég lita hárið af sömu ástæðu og ég nota ekki háa hæla, pínupils og rúllukragapeysur lengur.

Ég geri það sem mér finnst best, og bara mér einni. Þegar allt kemur til alls, þá er það einmitt það sem valdefling gengur út á.

Að því sögðu, bið ég fyrirsætuna Chrissy Teigen og alla hina afsökunar, þá sem vilja telja mér trú um að grátt sé hinn nýji svarti litur. Verið líka svo væn að hætta að dæma fólk. Þið eigið ykkar hár og ég mitt, en mitt hár verður aldrei jafn grátt og ykkar.

Ritstjórn janúar 11, 2019 08:10