Grátt hár

Stutt, grátt hár yngir.

Eitt af því sem kemur upp um aldur okkar er háralitur. Margir hræðast gráu hárin og ganga langt í að fela þau með því að lita hárið. Þeir sem eru upphaflega með svart hár lenda í vítahring því gráu hárin sjást meira í svörtu hári en ljósu og þá getur verið mikil vinna að fela þau gráu. Margar sögur eru til af því að fólk hafi gránað snögglega í kjölfar áfalls en þetta hefur ekki verið staðfest með vísindalegum rannsóknum. Svo eru sögurnar af foreldrum sem segja að óþekkir krakkar þeirra geri þá gráhærða. Undir eðlilegum kringumstæðum er grátt hár hvorki tengt áföllum eða óþekkum krökkum heldur er það afleiðing þess að við eldumst. Enn ein sönnun þess að við erum á lífi og ber í raun að fagna.

Dæmi um smart millisítt, grátt hár.

Það er að miklu leyti arfbundið hvenær hár byrjar að grána og hversu hratt það gerist. Háralitur stafar af litarefninu melaníni esm er myndað af sérstökum litfrumum. Melanín berst þaðan inn í holan hárlegginn en háraliturinn ræðst af gerð melanínsins.

Eins og í flestu öðru í útliti okkar stjórna genin því hvaða gerð litarefnis við höfum. Þegar við eldumst minnkar litarefnið í hárinu smám saman og hárið verður því grátt. Þegar hárleggirnir innihalda ekkert litarefni lengur er hárið orðið hvítt. Þegar við eldumst hætta litfrumurnar í hársekkjunum að mynda melanín. Þá verða hárin í raun gegnsæ og gefur það þeim þennan fráa eða hvíta lit. Ekki er vitað hvers vegna litfrumurnar hætta smám saman að mynda melanín en vitað er að litfrumur finnast enn í hársekkjum grárra hára þótt ekkert melanín myndist lengur. Svo virðist sem litfrumurnar leggist í dvala. Hver veit nema að í framtíðinni verði hægt að snúa ferlinu við ef hægt verður að fá litfrumurnar til þess að mynda melanín á nýjan leik. Það er ekki enn í augsýn en miðað við framfarir í læknavísindum mun sá dagur koma fyrr en varir.

Það er mjög misjafnt hvenær fólk byrjar að grána. Sumir finna grá hár á höfðinu strax á þrítugsaldri en aðrir ekki fyrr en á sjötugsaldri. Karlar grána yfirleitt aðeins fyrr en konur, en meðalaldur karla þegar þeir byrja að grána er 30 ára en kvenna 35 ára.

Leikkonan Helen Mirren áttaði sig snemma á því að hún gat nýtt gráa hárið sér til framdráttar frekar en fela það með lit.

Ýmsir sjúkdómar og kvillar geta valdið því að hár gránar hjá ungu fólki, jafnvel allt niður í 8 ára aldur. Skortur á B12 vítamíni , ójafnvægi ístarfsemi skjaldkirtils og blóðleysi geta valdið gráu hári fyrir aldur fram. Nýjar rannsóknarniðurstöður gefa til kynna að reykingamenn séu í fjórfalt meiri hættu á að grána snemma en þeir sem ekki reykja. Engu að síður eru það fyrst og fremst erfðir sem ráða því hversu snemma gráu hárin láta á sér kræla.

Gráa hárið fer leikkonunni Judy Dench  einstaklega vel.

 

 

 

 

 

 

Heimildir:

Vísindavefurinn

Popular Science

MayoClinic.com

Ritstjórn febrúar 23, 2021 08:48