Ætlaðu þér ekki um of!

Sumir njóta þess að hreyfa sig og hafa verið íþróttum frá barnæsku. Oftast kýs þetta fólk að halda því áfram þótt aldurinn taki að færast yfir. Ekki er alltaf hægt að halda áfram að stunda sömu íþróttagrein. Sumar eru of krefjandi en alltaf er hægt að finna nýjar og skemmtilegar leiðir til að hreyfa sig. Menn þurfa þó að gæta þess að hvíla sig og ætla sér ekki um of. Mun meiri hætta á ofþjálfun þegar fólk eldist.

Rannsóknir hafa raunar sýnt að aukin hætta er á heilablóðfalli eða hjartaáfalli ef menn æfa af miklum ákafa lengi í einu. Vöðvarnir rýrna með aldrinum og til að halda þeim við þarf að leggja harðar að sér en fyrr en margt bendir til að það sé ekki æskilegt né raunhæft að ætla sér að viðhalda sama vöðvamassa og styrkleika. Vöðvavefirnir verða veikari eftir því sem manneskjan verður eldri og þess vegna erfiðara að ná sér aftur eftir álagstengdar skemmdir. Þær þurfa ekki að vera miklar einungis vægar harðsperrur en þær geta varað nokkra daga. Sömuleiðis meiri hætta er á meiðslum eftir fimmtugt, einkum ef menn stunda íþróttir sem krefjast viðbragðsflýtis og snerpu. Jafnvægi skerðist líka eftir miðjan aldur og taka þarf tillit til þess.

Breytingar á heilastarfsemi

Við líkamlega áreynslu ganga menn á orkubirgðir líkamans og slíta vefjum hans. Eftir að æfingu lýkur hefst líkaminn handa við að fylla aftur orkutankana og gera við þá vefi sem orðið hafa fyrir sliti eða skemmdum. Styktaræfingar hafa oft þau áhrif að orkubirgðirnar og vöðvavefirnir verða sterkari vegna þeirra en þegar endurheimtin fer að taka langan tíma er talað um ofþjálfun. Ástandið getur varað nokkrar vikur eða mánuði, jafnvel ár. Þá eru menn farnir að sýna einkenni ofþjálfunar.

Stundum næst endurheimtin alls ekki. Svefnleysi, ónóg næring og lítill hvíldartími eiga líka sinn þátt í því. Þá getur myndast vítahringur sem einstaklingurinn nær sér ekki út úr og í kjölfarið verður röskun á fleiri kerfum í líkamanum og truflun í starfsemi hans. Heilinn líður fyrir skort á næringu og hvíld, geðsveiflur, þunglyndi og depurð geta fylgt vegna þess að jafnvægi heilaboðefna á borð við seratónín og dópamín hefur raskast. Jafnvægisskynið verður veikara, offramleiðsla á kortisóli í líkamanum viðheldur svo streitunni og vanlíðaninni. Það er einnig vel þekkt að aukin streita veikir ónæmiskerfið og fólk verður því viðkvæmara fyrir alls kyns sjúkdómum. Hreyfing er öllum holl og er til þess fallin að viðhalda heilsu, hamingju og virkni langt fram eftir aldri en gott er að hafa í huga að öllu má ofgera og hóf er best á öllu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 15, 2024 07:00