Leikvellir fyrir unga sem aldna

Hugmyndin um að koma upp æfingatækjum fyrir eldra fólk á leikvöllum fyrir börn hefur fallið í góðan jarðveg bæði í Asíu og Evrópu. Frá þessu er greint í bandaríska blaðinu Huffington Post. Á Barcelona svæðinu á Spáni eru um 300 almenningsgarðar þar sem slíkum tækjum hefur verið komið fyrir, en það er um það bil einn leikvöllur í hverju bæjarfélagi þar.

Dregur úr einangrun eldra fólks

Komið er fyrir tækjum á leiksvæðunum, þar sem eldra fólk getur þjálfað sig og gert æfingar til að bæta jafnvægi og auka hreyfigetu sína. Í Bretlandi þar sem slíkum svæðum hefur verið komið upp, er röksemdin fyrir byggingu þeirra samt ekki eingöngu sú að þau bæti líkamlega heilsu. Þarna geti eldri borgarar nefnilega hitt aðra, sem dregur úr einangrun og einmanaleika, sem sumir þeirra glíma við. Embættismenn segja að þessir leikvellir séu einnig fjárhagslega hagkvæmir. Því er spáð að 40-45% Spánverja verði komnir á eftirlaun árið 2050. Með því að koma upp svona aðstöðu sé auðveldara að halda íbúunum í góðu formi og þannig geti menn sparað í heilbrigðiskerfinu.

Dregur úr streitu barna og fullorðinna

Þessi hugmynd hefur líka fengið hljómgrunn í Bandaríkjunum, enda segja sérfræðingar að leikur sé góður til að tengja eldra fólk og börnin í lífi þeirra. Til viðbótar við hvað það hefur góð áhrif á líkamlega heilsu að hreyfa sig og leika sér, getur það dregið úr streitu, bæði barnanna og þeirra sem eldri eru, segir í Huffington Post

Eftirsóttir af eldra fólki og unglingum

Leikvellir þar sem ungir og aldnir geta verið saman að hreyfa sig og leika sér, njóta vaxandi vinsælda vestanhafs. Það þekkist að afar og ömmur sjái um barnabörnin á meðan foreldrar þeirra eru í vinnunni. Eftir að þessir leikvellir voru opnaðir, til dæmis í Orlando, hefur þetta fólk betri aðstöðu til að vera með börnunum þegar þau eru úti að leika sér. Tækin sem eru ætluð eldra fólkinu hafa einnig verið notuð af unglingum og félagsmiðstöðvum sem eru farnar að skipuleggja þar hreyfingu fyrir eldra fólk.

Ritstjórn júní 10, 2015 14:29