Hver er þín leið til að vinna á streitu?

Streita er fylgifiskur flestra í gegnum lífið. Allt frá barnæsku eru gerðar til okkar kröfur og okkur lagðar skyldur á herðar. Byrðarnar leggjast misþungt á fólk eftir einstaklingum og hið sama gildir um að takast á við streituna og kvíðann sem fylgir álagi. Margir telja að þriðja æviskeiðið sé það besta því þá blasi áhyggjuleysi við mörgum.

Vissulega minnka skyldurnar eftir því sem líður á en aðrar koma í staðinn. Börnin fara að heiman en umönnunarþörf foreldra þinna eða annarra eldri ættingja eykst og svo koma barnabörnin. Margir eru búnir að vinna sig upp í ábyrgðarstöðu og þeim fylgir erill og erfiðar kröfur. Sumir hafa tök á að minnka vinnu eða fá sveigjanlegri vinnutíma áður en þeir fara á eftirlaun og hægt er að draga saman seglin á ýmsan annan hátt. Til dæmis er hægt selja stórt húsnæði og kaupa minna, fækka ábyrgðarskyldum utan vinnunnar og finna sér tómstundagaman sem nærir þig. Streita hefur vond áhrif á líkamann á margan hátt og eftir því sem fólk eldist því hraðari verður niðurbrotið á heilsu fólks.

Streita veikir ónæmiskerfið. Flestir þekkja að í kjölfar streitutímabila veikjast þeir. Það er vegna þess að ónæmiskerfið hefur ekki lengur kraft til að ráðast gegn og ráða niðurlögum innrásarvírusa og -baktería. Streita veldur einnig höfuðverkjum, eykur liðverki, hefur vond áhrif á svefngæði, blóðþrýsting og minni. Meðal algengra streituvalda eru áföll, ástvinamissir eða aðrir sorgarviðburðir, breytingar á heilsufari, minnkuð geta til sjálfstæðis, vöntun á tilgangi eða hlutverki í lífinu og krafa um umönnun annarra sem er þér um megn.

 

Einkenni streitu

Ef þú ert farin að finna fyrir svefntruflunum, þreytu og orkuleysi, höfuðverkjum og verkjum frá stoðkerfi ættir þú að skoða streituvaldana í lífi þínu. Önnur einkenni streitu eru svo stöðugar áhyggjur, lítil löngun til að gera hluti sem áður veittu þér ánægju, aukinn pirringur og reiði, depurð og minni vilji til að huga að eigin útliti. Flestir finna með árunum sínar leiðir til að takast á við streitu og draga úr henni og hér eru nokkrar algengar:

  • Regluleg hreyfing
  • Dagbókarskrif
  • Listagerð
  • Hlusta á tónlist
  • Tala við vini
  • Sinna gæludýrum
  • Hugleiðsla

Við hreyfingu framleiðir líkaminn vellíðunarboðefni en þau hjálpa líkamanum að vinna á afleiðingum áfalla og þau vinna gegn vondum áhrifum kortisols og annarra stresshormóna í líkamanum. Undanfarið hefur þekking manna á afleiðingu áfalla á líkamann aukist til muna og enginn nær að vinna fyllilega á áfallastreitu án þess að taka einnig á þeim hluta er snýr að áhrifum hennar á líkamsstarfsemi. Þetta kemur vel fram í bók, Bessel van der Kolk, Líkaminn geymir allt en áður hefur verið fjallað um hana á Lifðu núna.

Yfirsýn, samhengi og útrás

Dagbókarskrif gegna viðamiklu hlutverki í lífi margra. Menn hafa stundað þau í margvíslegum tilgangi. Meðal annars til að skrá upplýsingar um veðurfar, gæftir og búskaparbasl, fjalla um atvik og viðburði í lífi sínu sér til minnis, velta fyrir sér eigin tilfinningum, líðan og viðbrögðum við því sem kemur fyrir. Dagbækur eru verðmæt heimild um líf manneskju og hún getur lært mikið um sjálfa sig af því að skrifa niður hvern dag það sem henni finnst bera hæst. Þannig má einnig öðlast þekkingu á hvað virkar best fyrir þig til að vinna á erfiðleikum.

Tónlist hefur margvísleg áhrif á taugakerfið. Hún getur örvað, glatt, hrært, róað og hvatt. Fólk notar tónlist til að koma sér í gang ef verkefni eru framundan, gleðjast og fá útrás, dansar þá af krafti undir dynjandi tónum, til að upplifa fegurð sem kemur við sálin, slaka á og finna neistann til sköpunar. Sumir hreyfa sig með tónlist í eyrunum. Aðrir kjósa að leggjast út af og hlusta á heillandi tóna og svo er tónlist oft kveikja að hugmyndum og þess vegna uppistaða margvíslegra sköpunarverka.

Allir þekkja góð áhrif nærandi og innihaldsríkra samtala við vini. Þau hjálpa fólki að setja hlutina í samhengi, fá nýtt sjónarhorn á stöðu sína og góð ráð til að leysa úr vandanum. Nú og svo eru vinirnir oft tilbúnir til að hjálpa og geta þannig létt af fólki áhyggjum og gefið þeim andrými. Fyrir utan að flestir fá mikla útrás við að tala við vini og létta af sér því sem hefur verið að íþyngja þeim.

Gæludýr eru ekki bara skemmtileg. Þau hafa mjög góð áhrif á heilsu þeirra sem halda þau. Fólk nýtur þess að sinna dýrunum og það að strjúka ketti eða hundi setur af stað framleiðslu vellíðunarboðefna í heilanum. Það dregur úr streituhormónum í líkamanum.

Hugleiðsla er aldagömul leið manna til að takast á við amstur hversdagsins. Það að draga sig í hlé í 15-20 mínútur, slaka á og leyfa hugsununum að koma og fara án þess að bregðast við þeim er ein besta hvíld sem hægt er að fá.

Í raun er sama hvaða leið fólk velur svo lengi sem sú hentar þeim og hjálpar til að vinna gegn neikvæðum áhrifum streitu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 19, 2024 07:00