Hæfnin til að ráða við streitu batnar með aldrinum

Undanfarin ár hafa svo sannarlega ekki verið fólki auðveld. Heimsfaraldur hættulegs sjúkdóms, stríð í Evrópu og fyrir botni Miðjarðarhafs og jarðhræringar og jarðeldar á Reykjanesskaga. Við slíkar aðstæður sækja að áhyggjur og ótti fyrir svo utan samlíðan með þeim sem mest þjást vegna þessa. Það eru streituvaldar. Langvarandi streita er mannslíkamanum ekki holl en með árunum eykst hæfni mannsins til að takast á við hana og vinna úr áföllum.

Margra áratuga rannsóknir vísindamanna á streitu og streitutengdum viðbrögðum hefur skilað sér í því að við þekkjum orðið nokkuð vel hvernig menn bregðast við henni og hver áhrif hennar eru á líkamsstarfsemi okkar. Nýjustu rannsóknir sýna hins vegar að eftir því fólk verður eldra og lífsreynsla þess meiri því betur nær það að bregðast við streitu og vinna úr áföllum. Náttúruhamfarir og stríð eru auðvitað stærstu og verstu áföll sem mæta manneskjum og þær eru lengi að vinna úr afleiðingum þeirra. Áföll af þeirri stærðargráðu geta setið lengi í fólki og þróast í áfallastreitu. Þau breyta erfðaefninu og erfast því til næstu kynslóða.

En meðal helstu og stærstu hversdagslegu streituvalda í lífi fólks eru:

  • Ástvinamissir
  • Skilnaður
  • Atvinnumissir
  • Nýtt starf eða starfslok

Þakklæti eykur hamingju

Það kann að koma mörgum á óvart að starfslok séu talin stór streituvaldur því flestir telja þau ánægjuleg tímamót en jafnvel þótt einstaklingurinn líti svo á tekur á að koma sér upp nýrri rútínu og finna lífi sínu farveg við nýjar aðstæður. Almennt gildir að allt sem við höfum ekki stjórn á veldur óöryggi og mikilli streitu. Með árunum fjölgar hins vegar þeim atburðum sem manneskjan hefur litla eða enga stjórn á og hún lærir að það þarf ekki alltaf að enda illa. Hún getur þess vegna mætt nýrri ógn af meira jafnvægi.

Vísindamenn fylgdust með hópi fólks um langt árabil, spurðu það daglega spurninga um streitustig í lífi þess og mældu reglulega streituhormón í munnvatni þeirra. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að með aldrinum jókst hæfni þátttakenda til að takast á við streitu bæði andlega og líkamlega. Kannski finnst sumum það liggja í augum uppi að með aukinni lífsreynslu fjölgi verkfærum í verkfærakistunni og fólk læri að þekkja sjálft sig og eigin viðbrögð í erfiðum aðstæðum. En það er ekki sjálfgefið og kemur ekki fyrirhafnarlaust.

Margt verður líka erfðara og meira ógnvekjandi með árunum. Á móti því virðist hins vegar hvatinn til að lifa lífinu betur og til fulls aukast eftir því sem lengra líður á ævina. Menn gera sér grein fyrir að tími þeirra er takmarkaður og þeir ákveða að láta sumt ekki hafa áhrif á lífsgleði sína og bjartsýni. Með árunum verður fólk einnig þakklátara fyrir það sem lífið hefur fært því, bæði gott og slæmt og þakklæti virðist vera meðal þeirra tilfinninga sem auka hamingju hjá manneskjum.

En þótt streita geti verið erfið er okkur eigi að síður nauðsynlegt að mæta daglega einhverju sem veldur stressi. Það heldur okkur nefnilega lifandi og kennir okkur að meta þær kyrrðarstundir sem gefast en það heldur líka huganum ungum að takast á við áskoranir leysa úr þeim.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 16, 2024 07:00