Það er allur gangur á því hvort fólki finnst það þurfa að undirbúa efri árin eða ekki. Einn viðmælenda okkar segir að það þurfi að byrja tímanlega að undirbúa sig, svona 5-10 árum áður en að þessu kemur, á meðan annar telur undirbúnings ekki þörf. Við ræddum við sjö einstaklinga, sem ýmist sjá fram á að fara fljótlega á eftirlaun, eða eru þegar komnir á eftirlaun. En hvernig er best að undirbúa sig.
Fyrir utan að reyna að skulda sem minnst :), því launin lækka óhjákvæmilega, þá er þetta fyrst og fremst andlegur undirbúningur. Taka nýjum tækifærum fagnandi, huga að nýjum verkefnum, jafnvel áhugamálum og margir tala um 3ja starfsferilinn. Eitt að auki- þú hefur ekki sama líkamlegt atgervi og áður- þannig að regluleg hreyfing og útivist er óumflýjanleg- hvað sem áður var.
Annar viðmælandi segir að vissulega þurfi að undirbúa sig fyrir eftirlaunaárin. Þar séu tómstundirnar einna mikilvægastar, að fólk hafi að einhverju að snúa sér.
Svo eru það fjármálin. Það er mjög mikilvægt að huga að þeim í tíma því það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir og hvenær. Það er t.d. ekki sama hvenær sala á eignum fer fram með tilliti til skatta og greiðslna frá Tryggingastofnum. Eins er um séreignasparnað, ef honum er til að dreifa. Ef hann er tekinn út í stórum skömmtum getur fólk lent í því að borga af honum hátekjuskatt og þá er lítið eftir.
Enn annar orðaði þetta þannig.
Ég held að undirbúningurinn felist best í að horfast í augu við að maður eldist og að við það breytist óhjákvæmilega ýmislegt, svo sem andleg og líkamleg heilsa, vinir heltast úr lestinni, efnahagur getur þrengst o.s.frv. Í mínu tilviki var dýrmætt að eiga góðar vinkonur og vini sem voru í sömu stöðu og ræða þessi tímamót við þau. Að setja sér stundaskrá er mikilvægt, svo og að blanda geði.
Einn viðmælandi okkar benti á að sumir ættu fáa að og það skapaði hættu á einangrun og einmanakennd, nema menn væru því duglegri að sækja sér félagsskap. En margir sökktu sér niður í áhugamál, félagsstörf og annað slíkt og væru uppteknari en nokkru sinni fyrr. Annar taldi nauðsynlegt að huga að efri árunum með góðum fyrirvara.
Það þarf að undirbúa sig vel og skipuleggja vel tímann framundan og þau verkefni sem þurfa að taka við. Þessu þarf að huga að með góðum fyrirvara, lágmark 5-10 ár. Ef þetta er gert held ég að fólk fari að hlakka til þessara tímamóta. Því miður eru margir sem kvíða þessu. Menn þurfa að snúa sér að áhugamálum sínum og ef þau eru af skornum skammti þarf að koma sér þeim upp í tækað tíð.
Flestir telja mikilvægt að hafa áfram samband við samfélagið og einn viðmælandinn sagði nauðsynlegt að hafa úrval verkefna til að grípa til. „ Þau þurfa að vera áhugaverð og hæfilega krefjandi“, sagði hann. Viðmælandi sem ekki er kominn á eftirlaun sá ekki nauðsyn þess að undirbúa þetta æviskeið.
Nei, mér finnst ég ekkert þurfa á því að halda að byrja einhvern undirbúning og veit ekki hvað svo sem ég ætti að undirbúa. Ég hef þokkalega vitneskju um hvað bíður mín og okkar hjóna fjárhagslega og geri ekki meiri kröfur en að komast bærilega af. Það ætti að takast að öllu óbreyttu.
Annar viðmælandi sagði að auðvitað skipti máli að hugsa um efri árin og hvernig við vildum hafa þau, alveg á sama hátt og aðra kafla lífsins.
Hliðstæða er til dæmis hvernig við undirbjuggum hvaða nám við vildum leggja stund á í því skyni að undirbúa okkur fyrir vinnumarkaðinn. Hver kafli er framhald af þeim sem á undan fara. Fjölbreytt viðfangsefni eru nauðsynleg á efri árunum og mér finnst vera mikilvægt að við veljum þau eftir áhuga okkar og getu. Að við gleymum ekki að ögra okkur hæfilega mikið og vinna sigra. Að við eigum erilsamt ævikvöld í stað þess að setjast niður í sófanum og gróa þar föst.
Fyrsta spurningin finnst mér að gæti snúist um hvernig við viljum hafa þetta tímabil ævinnar, „Hvað vil ég?“ Næsta spurning er svo um hvað okkur er kleyft að gera af ýmsum ástæðum, svo sem vegna heilsu og efnahags, „Hvað get ég?“ Svo er að skoða hvernig við viljum hafa líf okkar innan þess ramma sem við höfum. Það er um að gera að vera opin fyrir valkostunum og nýta þá til hins ítrasta. En við undirbúum efri árin ekki í eitt skipti fyrir öll frekar en við undirbjuggum okkur fyrir vinnumarkaðinn með námi á sínum tíma. Það er áreiðanlega fullt af verkefnum framundan sem þarfnast endurskoðunar og „endurmenntunar“.
Viðmælandi sem ekki er kominn á eftirlaun sagði þetta, aðspurður hvað tæki við að þegar hann yrði hættur að vinna.
Ég hef ekki leitt hugann að því ef satt skal segja. Ekki hvarflar að mér að „flýja land“,flytja til Spánar eða eitthvað í þeim dúr til að verja efri árum, og ég hef engin fyrirheit um að leggjast í ferðalög. Heima er best, í hvaða skilningi sem það verður útfært þegar þar að kemur.
Hópurinn sem svaraði spurningum Lifðu núna er þessi: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Margrét S. Björnsdóttir, Sylvía Guðmundsdóttir, Valgerður Magnúsdóttir og Þorbjörn Guðmundsson.