Eftirlaunin hækkuðu um 26 prósent

„Öryrkjar og eldri borgarar kölluðu á bætt kjör fyrir áramótin þegar við vorum að ljúka vinnslu fjárlagafrumvarpsins og nú birtast okkur tvær fréttir sem geta ekki talist til þess fallnar að gera þennan hóp sérstaklega sáttan,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vg á Alþingi, undir liðnum störf þingsins. Annars vegar gerði Bjarkey að umtalsefni frétt þess efnis að Glitnir HoldCo skipti á milli þriggja manna 170 milljónum á ársgrundvelli í laun.

„Þetta er hreint ótrúlegt og það er ekki að ósekju að fólk velti fyrir sér hvort við séum á sömu leið og fyrir hrun. Síðan kemur frétt um að fyrrverandi dómarar fái 26% hækkun á eftirlaun sín eða eftirlifandi makar þeirra. Þetta gera 44 milljónir á ársgrundvelli fyrir 29 manns,“ sagði Bjarkey. Hún sagði að rökstuðningurinn fyrir hækkun launa dómara nú síðast hafa meðal annars verið aukið vinnuálag. Bjarkey gerði hins vegar athugasemdir við að dómarar á eftirlaunum fái sömu hækkun og starfandi dómarar svo og eftirlifandi makar.  Bjarkey spurði því: „En af hverju á hækkunin að fara til þessa sérstaka hóps eftirlaunaþega meðan allir aðrir sem fá eftirlaun sitja eftir, sem og öryrkjar? Ríkið virðist alltaf eiga fjármuni fyrir sérstaka hópa sem hafa það betra en þeir sem minnst hafa.“

 

Ritstjórn febrúar 3, 2016 14:37