Ástríðufullar ástir á sautjándu öld

Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur ætlar að segja sögu Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur konu hans á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi að kvöldi skírdags. Daginn eftir má segja að Hallgrímur taki sjálfur við, en þá verða Passíusálmar hans fluttir í Borgarneskirkju.

Hittast í Kaupmannahöfn

Það var árið 1636 sem leiðir þeirra Hallgríms og Guðríðar lágu saman í Kaupmannahöfn, en þá var hann 22ja ára gamall nemi við Vorfrúar latínuskólann. Hún hafði hins vegar verið látin laus úr ánauð í Alsír, ásamt fleiri Íslendingum sem þangað voru fluttir í Tyrkjaráninu, og var á heimleið.

Skrifaði bréf frá Alsír

Þótt á þeim væri 16 ára aldursmunur og Guðríður gift þegar þau kynntust, urðu þau yfir sig ástfangin.  Steinunn, sem hefur kynnt sér sögu þeirra hjóna út í hörgul og birt fjögur verk sem tengjast lífi þeirra, telur að Hallgrímur hafi fallið fyrir Guðríði vegna þess að hún var óhrædd við að sýna frumkvæði, var sjálfstæð kona og reyndi alltaf að bjarga sér. „Hún skrifaði til dæmis bréf, til að fá sig lausa úr ánauðinni í Alsír og er það eina bréfið af því tagi eftir konu sem hefur verið varðveitt. Þá var ljóst að hún var í miklum metum hjá húsbændum sínum og að lausnargjaldið sem krafist var fyrir hana var hærra en greitt var fyrir flestar aðrar konur“, segir Steinunn.

Reynt að stía þeim í sundur

„Það hefur verið lífsþorsti, kjarkur og dugur í þessari konu“, segir hún. „Saga þeirra er ástríðufull ástarsaga. Guðríður varð fljótlega ófrísk eftir Hallgrím og hann var rekinn úr skóla. Það kom síðar í ljós að eiginmaður Guðríðar hafði farist á sjó, áður en þetta gerðist. Þau voru dæmd til sektar fyrir frillulífsbrot og reynt að stía þeim í sundur. Það var talið að manni af stétt Hallgríms stæði til boða göfugra kvonfang en ambátt frá Alsír. Á endanum fengu þau að giftast, af því að Hallgrímur var svo harðákveðinn í að eiga þessa konu“, segir Steinunn.

Fátækt og erfiðleikar

En þau hjón bjuggu við mikla fátækt og erfiðleika til að byrja með, enda áttu þau í útistöðum við yfirvöld. Þau bjuggu á Suðurnesjum og það er ekki fyrr en eftir sjö ár þar, sem Hallgrímur fær prestsembætti í Hvalnesi og síðar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, þar sem hann er uns heilsan bilar og hann getur ekki gegnt prestsskap lengur.

Verður prestur og skáld

Það er fyrst eftir að Hallgrímur verður prestur, sem hann byrjar að stunda ritstörf fyrir alvöru. Þau hjónin missa dóttur sína á fjórða ári og var hún þeim mikill harmdauði. Hann yrkir um hana öflug sorgarljóð sem eru upptaktur að því sem síðar verður í kveðskap hans og heggur nafn hennar í stóran stein. Steinunn segir að frá því hann verður prestur og þar til hann lýkur passíusálmunum líði einungis 15 ár.

Lifir óvenju lengi

Steinunn rekur sögu þeirra Hallgríms og Guðríðar á Söguloftinu, segir fyrst frá þeim hvoru um sig og síðan frá lífi þeirra saman. Hallgrímur verður holdsveikur og deyr á undan Guðríði sem lifir átta árum lengur en hann þó eldri sé. „Guðríður lifir eiginmenn sína báða og líka börn sín“, segir Steinunn.“Hún deyr 84ra ára sem er mjög sjaldgæft á 17. öld“.

 

Ritstjórn mars 27, 2015 16:40