Skálmöld Einars frumsýnd í Landnámssetri

SKÁLMÖLD eftir Einar Kárason, sem kom út fyrir jólin er fjórða og síðasta bókin í bókaflokki hans sem er byggður á Íslendingabók Sturlu Þórðarsonar. Annað kvöld verðu sýning sem byggist á bókinni frumsýnd á Söguloftinu í Landnámssetri. Í sýningunni segir Einar söguna eins og hann setur hana fram í bókinni, með fulltingi dóttur sinnar Júlíu Margrétar. Saman segja þau feðgin þessa stórbrotnu örlagasögu um ris og fall fjölskyldu á Sturlungaöld.

Fetar ekki meðvitað í fórspor föður síns

Einar segir að það hafi verið hugmynd Kjartans Ragnarssonar að hann fengi eina af dætrum sínum til að vera með sér í að segja söguna í Skálmöld. Honum þótti rétt að biðja þá yngstu, enda er hún farin að fást við sagnagerð. Júlía Margrét er með gráðu í heimspeki og er að bæta við sig meistaraprófi í ritlist. Hún hefur skrifað bæði ljóð og smásögur og er núna með skáldsögu í smíðum, sem er hluti af meistaranámi hennar. Hún segist ekki meðvitað feta í fótspor föður síns, en sér finnist gaman að skrifa og segja sögur „Þannig að þetta lá beint við“, segir hún. „Við erum mjög ólíkir listamenn og maður veit ekki hvaðan þetta kemur, en ég hef lært í ritlistinni að koma fram og lesa sögur eftir sjálfa mig. Það er ný áskorun fyrir mig að flytja sögurnar munnlega“, segir hún og bætir við að hún hafi mjög gaman af að vera með í sýningunni.

Er ekki að stæla þessa menn

SKÁLMÖLD er efnislega fyrst í röð bókanna sem fjalla um Sturlungasögu, þó hún hafi komið út síðast, og fjallar um uppgang Sturlu Sighvatssonar og dramatísk örlög hans, föður hans og bræðra og endar með Örlygstaðabardaga. Einar segir það vinsælt „trix“ að byrja á öfugum enda á sögunum. „Þannig gerði George Lucas til dæmis Strjörnustríðsmyndirnr, síðasta myndin var upphaf sögunnar. Wagner gerði það sama með Niflungahringinn, en í honum eru fjórar óperur sem taka um sólarhring í flutningi. Þar endar hann á Rínargullinu“, segir Einar. Hann segist ekki hafa haft hugmynd um þeir hefðu notað þessa aðferð þegar hann hóf að skrifa sögurnar sínar. „Þannig að það er ekki hægt að segja að ég sé að stæla þessa menn“.

Engar tvær sýningar eins

SKÁLMÖLD er skrifuð sem eintöl fjölda persóna, karla og kvenna, sem upplifðu þennan viðburðaríka tíma. Þau feðginin fyglja ekki nákvæmu handriti, heldur segja þau sögurnar “Það er útilokað að einhverjar tvær sýningar verði nákvæmlega eins“, segir Einar. Þau skiptast á að segja sögurnar og hann segir að sjálfur lesi hann aðallega frásagnir karlanna, en Júlía kvennanna. Það sé þó ekki einhlítt, því hún tali til dæmis fyrir hönd meðhjálpara í páfagarði.

Hinir talandi höfundar vinsælir

Sýningarnar á Sögulofti Landnámsseturs hafa notið mikilla vinsælda, allar götur frá því fyrsta sýningin, þar sem Benedikt Erlingsson sagði frá Agli Skallagrímssyni, var sett upp fyrir níu árum. Form sýninganna kalla aðstandendur Landnámsseturs „ Hinn talandi höfundur“ Sýningarnar á loftinu eru nú komnar á annan tuginn og þetta er í fimmta sinn sem Einar Kárason tekur þátt í sýningum þar.

Ritstjórn mars 5, 2015 14:57