Áhrifamikil saga sjúkdóms og aldarfarslýsing

Sjávarföll eftir Emil B. Karlsson er áhrifamikil fjölskyldusaga. Emil tilheyrir vestfirskri ætt og ættarfylgjan er banvænn sjúkdómur sem veldur heilablóðfalli hjá ungu fólki. Sjúkdómurinn er úr sögunni nú því þau allir arfberarnir dóu það ungir að þeir áttu enga afkomendur en þetta er þung saga og mikill harmur var kveðinn að næstu kynslóð fyrir ofan Emil og hans nánustu skyldmenni.

Mæður og feður dóu frá ungum börnum sínum og efnilegt ungt fólk var hrifsað burtu úr þessum heimi áður en það gat látið að sér kveða. Hæfileikafólk, dugnaðarforkar, sumir nýtrúlofaðir, aðrir nýgiftir eða við það að ljúka námi og hefja ævistarfið. Sjúkdómurinn er skelfilegur. Hann liggur í leyni og bærir ekki á sér þar til allt í einu að hann fellir fólk stundum í einu vetfangi, stundum í tveimur til þremur höggum. Í dag vita menn hvað veldur því að æðarnar í heilanum rofna á þennan hátt og til er lækning en hér áður var engin lækning. Nútíma lífshættir og mataræði eru einnig stór áhrifavaldur og sennilega það sem varð kveikjan að því að fólk í ættinni fékk heilablóðfall. Bara þessi saga sjúkdómsins og skýringarnar á honum eru áhugaverðar, merkilegar en þessi bók er miklu meira.

Emil B. Karlsson

Emil skáldar í eyðurnar og gefur lifandi og fulla mynd af lífi afkomenda hjónanna á Krossi. Hann lýsir atvinnuháttum, híbýlum, lífskjörum, búsetu, draumum, vonbrigðum og hörmum fólskins. Sorginni þegar ungbörn dóu, áfallinu þegar ástvinir reyndust svikulir og hlífir þar hvergi forfeðrum sínum en líka gleðinni þegar starfið bar árangur, frásagnargleðinni, söngnum og glaðværðinni þegar fjölskyldur voru saman. Honum hefur með því að segja sögu þessa fólks tekist að bregða upp sannfærandi og fróðlegri aldarfarslýsingu en einnig mála heildstæða mynd af glaðsinna fólki með margvíslega hæfileika og gáfur sem einstaklega gaman er að lesa um og kynnast. .

Sögusviðið er að stærstum hluta Vestfirðir og Breiðarfjarðaeyjar og stórmerkilegt að heyra um sjósókn, strauma og hvernig björgin var sótt á opnum bátum. Hætturnar voru ótalmargar og margir sneru ekki aftur heim. Bilið milli lífs og dauða var stutt og fátt um bjargir hjá konum og börnum þegar heimilisfeðurnir féllu frá. Þetta er fádæma vel unnin bók og er bæði ómetanleg heimild um hræðilegan sjúkdóm og líf Íslendinga á nítjándu öld og á fyrri heilmingi þeirrar tuttugustu. Bókina prýða ótal myndir sem gefa frásögninni aukna dýpt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 24, 2025 07:00