Ófriður á sér langar rætur

Valur Gunnarsson tekst á við það risastóra verkefni að kafa ofan í sögulegar rætur stríðsins í Úkraínu í bókinni, Stríðsbjarmar, Úkraína og nágrenni á átakatímum. Líkt og átökin í Ísrael og Palestínu á þetta ömurlega stríð sér langar og flóknar rætur. Í hvert sinn sem átök brjótast út eru menn líkt og ráðalausir og þótt alþjóðasamfélagið reyni að bregðast við hefur það oftar en ekki lítil áhrif. Á meðan þjáist fólk, særist og deyr.

Hvers vegna er grimmdin og skeytingarleysið svo mikið í veröldinni? Það er ekki gott að segja en okkur finnst óhugsandi að hægt sé að sitja hjá og horfa upp á fólk svelta eða hrekjast á vergang vegna aðstæðna í náttúrunni án þess að hafast að. Engu að síður hefur það gerst oftar en einu sinni í sögunni og slíkt situr í þeim sem fyrir því tómlæti verða. Úr þeim rótum meðal annars sprettur hatrið. Hið sama gildir þegar heilar þjóðir búa við kúgun og einræði en reyna að brjótast undan því þrátt fyrir að við ofurefli sé að etja og nágrannar þeirra bregðast þeim á ögurstundu.

Það er mjög áhugavert að fá þetta yfirlit yfir sögu Úkraínu og Rússlands en ekki hefur verið mikið fjallað um þennan heimshluta í íslensku menntakerfi. Sagan er einnig skemmtileg og flókin, einkennist af bræðravígum og nágrannaerjum.

Allt þetta og meira til kemur fyrir í bók Vals en hann rekur einnig eigin hugsanir og tilfinningar þegar stríðið braust út og næstu mánuði. Þetta gefur lesendum persónulegra sjónarhorn á atburðina og innsýn í þennan mannlega harmleik.

Ritstjórn desember 7, 2023 07:00