Allt fyrir prjónaskapinn

Áttu fulla körfu heima af garni sem þú hefur ekki not fyrir? Vantar þig smávegis af garni í flík eða annað sem þú ert að prjóna eða hekla? Hvernig væri þá að kíkja í heimsókn á Borgarbókasafnið Árbæ þar sem garnskiptimarkaður verður haldinn sunnudaginn 2. nóvember.

„Þetta er auðvitað kærkomið fyrir hannyrðafólk, sem kannast eflaust margt við að hafa keypt of mikið af garni nú eða aðeins of lítið,“ segir Katrín Guðmundsdóttir, safnstjóri á Borgarbókasafninu Árbæ.

 Á sunnudag verður haldinn garnskiptimarkaður á safninu, þar sem fólki gefst tækifæri til að skiptast á garni, prjónum, heklunálum og öðrum hannyrðavörum. Allar tegundir af garni eru vel þegnar að sögn Katrínar, en einnig má koma með prjóna, heklunálar eða annað sem tengist hannyrðum. „Með því að láta garnið og aðrar hannyrðavörur ganga áfram til þeirra sem hafa not fyrir það minnkum við sóun,“ bendir Katrín á. „Og rýmum í leiðinni til heima hjá okkur,“ bætir hún sposk við.

Markaðurinn verður hafður opinn á safninu á sunnudag frá kl. 13:00 til 15:30.

Þátttakendur þurfa einungis að koma með það sem þeir hyggjast leggja til á markaðinn.

Borð verða til reiðu á staðnum og heitt kaffi á könnunni.

Öll hjartanlega velkomin!

Nánari um markaðinn á heimasíðu Borgarbókasafnsins:
https://borgarbokasafn.is/vidburdir/markadur/garnskiptimarkadur