Hvorki amma mín né mamma

Sjönda skáldsagan hefur litið dagsins ljós.

Sjöunda skáldsagan hefur litið dagsins ljós.

„Að sætta sig við aldurinn var eitt, en að sætta sig við starfslokin er sannarlega annað. Og að öllu leyti þungbærara. Eftirlaunaárin óþægilega nálægt, og ekkert við því að gera.“ (Dimma, 20).  Skáldsagan Dimma eftir Ragnar Jónasson segir frá lögreglufulltrúanum Huldu sem rannsakar síðasta sakamálið sitt, dularfullt morðmál, en er gert að hætta stöfum fyrir aldursakir, 64 ára gamalli. Hún þarf að rýma til fyrir yngri manni, fyrr en hún átti von á enda líður henni þegar henni er gert að hætta störfum eins og henni hafi verið sagt upp.

Útgefandinn varð hissa

Það er ekki á hverjum degi sem ungur karlmaður ákveður að ganga inn í hugarheim rúmlega sextugrar konu og segja sögu hennar.  Enda segir Ragnar að útgefandi hans hafi verið hissa þegar hann kynnti þessa nýju sögupersónuna til leiks.  „Jú, menn voru hissa. En það er enginn að skrifa um svona manneskju og mig langaði að gera eitthvað öðruvísi.“ Ragnar segir að Hulda eigi sér ekki fyrirmynd í raunveruleikanum. „Hún er hvorki mamma mín né amma. Ég skóp hana. Það er ekkert auðvelt að setja sig í spor 64 ára gamallar konu, sem er að fara á eftirlaun.“

Hlustar eftir sögum

Ragnar segist þekkja margt fólk á ólíkum aldri. „Maður hlustar eftir sögum sem fólk segir manni, svo les maður sér til. Ég var búin að ganga með hugmyndina að persónu Huldu í töluvert langan tíma. Hún er mörkuð af fortíð sinni. Faðir hennar var bandarískur hermaður sem hún kynntist aldrei.  Móðir hennar var fátæk alþýðukona sem varð að koma henni fyrir á vöggustofu eftir fæðingu. Þar var hún í tvö ár og móðir hennar fékk ekki að snerta hana heldur mátti einungis horfa á hana í gegnum gler þegar hún kom í heimsókn. Þetta hafði mikil áhrif á samband þeirra mæðgna sem verður mjög skrýtið.

Hún giftist en maður hennar fellur frá á miðjum aldri og þá kemur á daginn að þau voru skuldum vafin. Hulda er því í þeirri stöðu að verða að selja húsið sitt og kaupa sér litla blokkaríbúð. Hún er blönk einmana og skuldug.  Hún er í engu sambandi við ættingju sína. Hún á fáa vini í vinnunni. Lögreglustöðin er karlavinnustaður og körlunum þar finnst hún hálf óþolandi enda fær hún engan framgang í starfi.

Læknirinn bankar uppá

Hulda kynnist sjötugum  lækni sem á einbýlishús í Fossvogi og þau fara að vera saman. Hún er ekkert sérstaklega ástfangin af honum en hennar leið út úr kröggunum er vera með honum. Lesandinn kemst svo smátt og smátt að því í gegnum söguna, af hverju hún er jafn ein í lífinu og raun ber vitni. Um leið og þetta er glæpasaga þá er Dimma saga konu sem er að reyna að skapa sér nýtt líf, við erfiðar aðstæður,“ segir Ragnar.En mun Hulda eiga sér framhaldslíf í nýrri sögu? Ragnar verður dularfullur á svipinn og segir að það verði að koma í ljós. „Ég ætla ekki að segja mikið um það. Hún er að klára sitt síðasta mál í lögreglunni. En ef ég svo yrði, gæti verið að lesendur fengju að heyra meira af henni síðar og þá þegar hún var yngri.“

Sjöunda bókin á jafnmörgum árum

Ragnar er afkastamikill rithöfundur, hefur skrifað sex bækur á undan Dimmu á jafn mörgum árum.  Aðalsöguhetjan í fyrri bókunum er lögreglumaðurinn Ari Þór og gerast bækurnar að mestu leyti norðan heiða. Bækur hans hafa átt mikilli velgengni að fagna á erlendri grund, hafa trónað á toppi metsölulista bæði í Bretlandi og í Ástralíu. Nú er búið að ganga frá samningi um útkomu allra bókanna í Bretlandi, ein er komin út í Póllandi og verið að er að semja um útgáfu bókanna í Bandríkjunum.   Því má spyrja hvort að Dimma sé á leiðinni á erlendan markað. „Það hefur ekkert verið ákveðið þar að lútandi. Ég ætla fyrst að sjá hvernig viðtökurnar verða hérna heima áður en farið verður að huga að útgáfu í útlöndum.“

Skrifar á kvöldin

Ragnar er önnum kafinn lögfræðingur, starfar sem aðallögfræðingur Gamma. Hann er fjölskyldumaður, kvæntur og á tvær dætur.  Hvenær hefur hann tíma til að skrifa? „Ég skrifa alltaf eitthvað á hverju kvöldi. Yfirleitt í eina klukkustund eftir að börnin eru sofnuð. Það heldur manni við efnið,“ segir hann.

Ritstjórn nóvember 17, 2015 10:41